fbpx
Þriðjudagur 21.maí 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Fókus

Brynjar er viðkvæmur maður: „Mín pólitík snýst um að leyfa fólki bara að njóta sín“

Ari Brynjólfsson
Þriðjudaginn 18. september 2018 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Brynjar Níelsson hefur setið á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá árinu 2013, síðan þá hefur slitnað upp úr tveimur ríkisstjórnum. Blaðamaður settist niður með Brynjari á skrifstofu hans við Austurvöll og ræddi við hann á persónulegu nótunum um þingveturinn sem er að hefjast og stöðuna í stjórnmálunum og samfélaginu í dag.

Undanfarin ár hefur Brynjar verið áberandi á samfélagsmiðlum, þá sérstaklega Facebook, þar sem hann lýsir skoðunum sínum á málefnum líðandi stundar. Hefur það gert hann að einum umdeildasta manni á Íslandi í dag. Hann hikar ekki við að tjá skoðanir sínar og uppsker iðulega bæði lof og fyrirlitningu fyrir vikið. „Ég get stundum sagt óþægilega hluti. Málið er að stjórnmálamenn eru mikið til hættir í pólitík og hættir að þora að hafa skoðanir vegna þess að þetta er farið að snúast um að styggja engan og helst hafa alla góða. Það er bara ekki hægt,“ segir Brynjar rólegur.

Hann telur sjálfan sig ekki vera umdeildan. „Um leið og þú hefur einhverjar skoðanir þá ertu orðinn umdeildur, jafnvel sérkennilegur. Ég held að ekkert af því eigi við, ég er ekkert umdeildur hjá fólki sem þekkir mig. Ég held að fólki finnist ég tiltölulega venjulegur maður.“ Brynjar og blaðamaður DV horfa hvor á annan eitt augnablik. „Nei, ókei, ekki alveg venjulegur maður. Ekki í klæðaburði, útliti eða svona öðrum aukaatriðum. Kannski létt sérlundaður. Ég lít alltaf út eins og ég sé fúll. Eins og konan mín segir, „getur þú ekki reynt að vera svolítið glaðlegur?“. Ég svara því að það eigi ekki við mig. Ég er samt ekkert sérstaklega fúll,“ segir Brynjar fúll á svipinn.

Enginn Trump

Brynjar er Reykvíkingur og hefur búið í Reykjavík alla sína ævi. Hann mikill Valsari og spilaði knattspyrnu með félaginu á árum áður, fyrir utan eitt tímabil með Fylki. Hann gekk í Hlíðaskóla og Menntaskólann við Hamrahlíð áður en hann fór í lögfræði við Háskóla Íslands. Áður en hann settist á þing var hann formaður Lögmannafélags Íslands og sjálfstætt starfandi lögmaður.

Hvað vitum við ekki um þig?

Brynjar er mikill húmoristi og sést það vel á samfélagsmiðlum. Hann byrjaði á Twitter í sumar.

„Það sem menn vita ekki um mig er hvað ég er mjúkur maður, segi kannski ekki dúnmjúkur en allt að því, og frekar viðkvæmur. Þeir sem segja skoðun sína virka oft eins og þeir séu harðir og töffarar. Ég er samt ekki töffari eins og menn vilja halda, það er það skrítna við mig. Ég á mjög erfitt með að sjá eitthvað sorglegt og tek gjarnan að mér þá sem eiga undir högg að sækja, jafnvel umkomulaus dýr. Ef fólk heldur að ég sé einhver Trump þá er það mikill misskilningur.“

Það má skynja viðkvæmni hjá þér þegar verið er að ræða erfið mál, er þetta reynslan af lögmannsstörfunum sem þú ert að taka með þér inn í þingstörfin?

Brynjar viðurkennir að stíllinn sem hann beitir á samfélagsmiðlum sé ekki allra. Hér hnýtir hann í borgaryfirvöld.

„Ég var auðvitað að sinna fólki sem átti mjög á brattann að sækja. Ég var að hjálpa fólki sem hafði engan. Ég rukkaði aldrei fátækt fólk í lögmannsstörfum. Ég lagði á mig að hjálpa fólki endurgjaldslaust og leit á það sem hluta af lögmannsstarfinu. Ég var oft skammaður fyrir það á minni stofu hvað ég væri mikill aumingi að rukka, en það var bara þannig, ég átti bara erfitt með að horfa aðgerðarlaus á fólk sem  glímdi við erfiðleika.“

Gefur lítið fyrir Pírata og Samfylkinguna

Á samfélagsmiðlum veigrar Brynjar sér ekki við að skamma þá sem hann telur það eiga skilið. „Þegar ég læt menn heyra það, þá er um að ræða fólk sem er búið að hrauna yfir einhverja aðra með ómálefnalegum hætti. Það er fyrst og fremst stóryrt fólk sem ég er aðallega að pota í. Ég ræðst almennt ekki á fólk sem á erfitt.“

Þegar farið er gróflega yfir skotmörk Brynjars virðist sem það séu helst Píratar og Samfylkingin sem hann hafi í sigtinu.

Fara þessir flokkar í taugarnar á þér?

„Eins ágætt fólk og það er þá finnst mér oft eins og ég sé að tala við einhverja á röngum stað í tilverunni. Píratar eru ekki að tala um neina pólitík, þeir eru bara eins og hverjir aðrir teknókratar, vilja að fá að vita hvar óskráðu reglurnar eru skráðar og eru alltaf að reyna að koma höggi á einhvern. Menn eru alltaf að ráðast á aðra stjórnmálamenn og saka um spillingu. Þau eru ekki að hugsa um samkeppnishæfni fyrirtækja eða hvað stendur undir velferð þjóðarinnar. Þegar maður lætur hagsmuni atvinnulífsins sig varða þá er maður sakaður um að standa með sérhagsmunum. Samfylkingin og Píratar, ég veit ekki fyrir hvaða pólitík þetta fólk stendur,“ segir Brynjar. „Þau grípa eitthvað sem er vinsælt og tala hátt um það. Þessi pólitík snýst alltaf bara um eitthvert upphlaup, oftast algjört bull, ekki hvað gagnast landi og þjóð. Að því leytinu gef ég lítið fyrir þessa flokka tvo.“

Þarf reynslumeira fólk í stjórnmálin

Talar tæpitungulaust Brynjar segir að þegar hann hafi stigið sín fyrstu skref í stjórnmálum hafi það verið krafa samfélagsins að stjórnmálamenn kæmu heiðarlega fram, nú fari allir á taugum þegar hann segi skoðanir sínar. Ljósmynd: DV/Hanna

„Ég segi hluti sem stjórnmálamenn vilja helst ekki segja. Þeir vilja ekki segja neitt sem veldur ugg eða óróa, það sé ekki pólitískt sniðugt eða heppilegt. Það er alveg rétt sem sumir segja, að maður verði að velja sína pólitísku slagi, en þegar ég byrjaði í stjórnmálum var sú krafa gerð til stjórnmálamanna að þeir segðu alltaf satt og kæmu heiðarlega fram, þótt óþægilegt kunni að vera. Svo þegar menn gera það þá fara allir á taugum. Margir vilja bara heyra þann sannleika sem  hentar, engin óþægindi. Þannig er bara mannskepnan.“

Brynjar er ekki ánægður með stjórnmálaumræðuna í dag. „Mér finnst eins og menn séu tiplandi á tánum í öllum pólitískum átakamálum, þá verður bara stöðnun. Þegar stjórnmálamenn hafa takmarkaða reynslu og pólitísk hugsjón er á reiki, gerist lítið. Þá aukast sjálfkrafa völd og áhrif embættismanna, sem ekkert umboð hafa. Ég held að við stjórnmálamenn eigum að gera minna af því að gagnrýna embættismenn og líta frekar í eigin barm þegar okkur finnst eitthvað hafa farið úrskeiðis.“

Til að breyta þessu segir Brynjar að það þurfi einfaldlega öflugra og reynslumeira fólk í stjórnmálin. „Ég vil sjá fjölda fólks með þekkingu og reynslu úr atvinnulífinu, þegar litið er yfir þingið í dag eru sárafáir með slíka reynslu. Það má nánast segja að það séu sífellt fleiri með litla sem enga reynslu af vinnumarkaði,“ segir Brynjar. „Þetta á að snúast um að gera atvinnulífið öflugt og samkeppnishæft, þá er hægt að standa undir einhverri velferð. Svo getum við stjórnmálamenn deilt um forgangsröðun og réttlæti í þeim efnum.“

Halda að það séu til peningar í allt

Hin pólitíska sýn Brynjars snýst um að tryggja öflugt atvinnulíf og gefa öllum tækifæri til þess að gera það sem hugurinn segir og hentar hæfileikum hvers og eins. Brynjar segir að stjórnmálin í dag snúist frekar um að steypa alla í sama mót. „Það er alltaf verið að handsmíða líf fólks. Taka alla ábyrgð af fólki. Ríkið á að fylgja þér alveg frá vöggu til grafar. Þú átt bara rétt á því að hafa sömu stöðu og einhver annar. Pólitíkin í dag snýst um að við eigum að vera einhverjir samfélagsverkfræðingar og hanna reglur sem eiga að leiða fólk í gegnum lífið. Það er bara vandlifað að fara eftir öllum þessum reglum. Smátt og smátt verður fólk alveg ábyrgðarlaust. Það verður mjög skrítið samfélag að lokum. Mín pólitík snýst um að  skapa umhverfi þannig að hver og einn hafi tækifæri til að njóta sín, en með öryggisnet fyrir þá sem einhverra hluta vegna ná ekki að fóta sig.“

Skynsemi í Vinstri grænum Brynjari finnst gott að vinna með þingmönnum Vinstri grænna þrátt fyrir hugmyndafræðilegan ágreining. Ljósmynd: DV/Hanna

Hann telur borðleggjandi að hægt sé að hagræða víða í kerfinu og tekur menntakerfið sem dæmi. Það hefur þanist út á síðustu áratugum án þess að sérstakur árangur sé mælanlegur. Við höfum bætt við ýmsu námi, gjarnan einhverjum pólitískum vísindum eins og kynjafræði, sem er til óþurftar frekar en hitt. Við þurfum að skipuleggja nám eftir þörfum atvinnulífsins og þurfum ekki að bjóða upp á alla mögulega kúrsa, hvað þá gera þá meira og minna að skyldufögum. Við verðum að vera praktísk þegar kemur að skattfé.“

Sýn Brynjars á stjórnmál hefur oftar en einu sinni stangast á við sýn samherja hans og hann hefur sjálfur haft á orði að það ætti betur við hann að vera í stjórnarandstöðu. Hann var ekki hrifinn af tillögum Framsóknarflokksins um leiðréttingu á skuldum heimilanna þegar Sjálfstæðisflokkurinn starfaði með honum, hann var ekki heldur hrifinn af jafnlaunavottuninni í tíð síðustu ríkisstjórnar. Nú er hann stjórnarþingmaður ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, formanns flokks með stefnu sem Brynjar hefur sagt að muni drepa lýðræðissamfélagið á endanum. „Já, ef þessi sjónarmið yrðu ofan á þá yrðu þau jafn skaðleg og sósíalismi annars staðar. Það er ekki þar með sagt að þetta sé ekki skynsamt og gott fólk. Mér finnst  margir af þingmönnum VG mjög traustir, ég vann með Katrínu í efnahags- og viðskiptanefnd þegar hún var í stjórnarandstöðu. Mjög glögg og klár. Ég hef þekkt Svandísi frá því í menntaskóla. Þótt maður sé ekki sammála því í pólitík þá er skynsemi í þessu fólki. Ég get líka farið á fund í Valhöll og hitt fólk sem ég er fullkomlega ósammála.“

Eins og áður segir er þetta þriðja ríkisstjórnin við völd frá því að Brynjar settist á þing.

Með hverjum er best að vinna?

„Þetta reynir ekki svo mikið á hinn almenna þingmann, meira á ráðherra og hvernig þeir vinna saman. Ég get unnið með öllum. Ef maður setur sig vel inn í málin í nefndarstörfunum þá getur maður haft heilmikil áhrif. Það er líka oft styttra á milli fólks en menn halda, nema þegar það er stór hugmyndafræðilegur munur. Slík mál eru hins vegar ekki oft á dagskrá.“

Erfiður þingvetur framundan

Brynjar sér fram á erfiðan þingvetur. „Aðaláhyggjur mínar af þessum vetri eru að nú er komið inn í launþegahreyfingarnar fólk sem ætlar í alvöru pólitík. Það snýst ekkert um að ná hagstæðum samningum við atvinnurekendur heldur að þrýsta á stjórnvöld. Þetta er vond og hættuleg þróun, þegar menn ætla að krefja stjórnvöld og atvinnulífið um útgjöld sem er ekki innistæða fyrir. Ég óttast að menn sýni ekki nógu mikla ábyrgð.“

Var ekki hægt að kæfa óánægjuna í fæðingu með því að setja lög á kjararáð?

Tók á sig launalækkun Brynjar var með nærri því tvær milljónir í laun áður en hann settist á þing 2013, þá var þingfararkaupið rúmar 650 þúsund krónur. Ljósmynd: DV/Hanna

„Nei, það á að fara eftir þeim leikreglum sem við setjum en ekki breyta þeim afturvirkt. Ég man ekki þá tíð að ekki hafi verið almenn óánægja með launahækkun æðstu embættismanna og þingmanna. Ekki má gleyma í þessu samhengi að laun þessara hópa voru lækkuð um 10–15 prósent 2009 og síðan fryst fram til 2013 á sama tíma og aðrir fengu hækkanir. Það er því ósanngjarnt að segja að þessir hópar hafi hækkað meira í launum en aðrir og miða við 1. janúar 2013. Svo er nú komið í dag að þótt miðað sé við árið 2013 er launaþróun þingmanna sú sama og annarra því engin hækkun hefur verið frá síðasta úrskurði kjararáðs. Nú er búið að leggja kjararáð niður og engin hækkun verður því á næstunni.“

Það heyrist á Brynjari að hann vill hafa reglur í föstum skorðum. „Ég spyr fólk, finnst þér 1.100.000 krónur mikið kaup fyrir þingmann? Menn segja nei, bara þessi aðferð. Ókei, ákveðum þá bara hvað þingmenn eiga að hafa í laun, einhver tala og tengjum við einhverja launavísitölu. Þá er ekki hægt að fara að hringla endalaust í þessu.“

Drekkur aldrei einn

Brynjar tekur upp rafrettu og fær sér smók.

Nú verðum við að gera hlé á umræðum um allt annað, notar þú rafrettu?

„Já já,“ segir Brynjar rólegur. „Ég hef bara verið í tyggjóinu, svo fór ég á Þjóðhátíð í Eyjum og fór í þetta,“ segir Brynjar og lítur á rafrettuna. „Þetta er bara eitthvert tóbaksbragð. Ég er reyndar meira í tyggjóinu. Ég hef oft hætt að reykja, tekið allt að tveggja ára hlé. Ég hef lítið reykt síðasta eitt og hálfa árið, nema ég reykti á haustmánuðum 2017. Svo á ég tvo syni sem hafa aldrei reykt, ég er ekki betri fyrirmynd en þetta,“ segir Brynjar og brosir.

Ferðu nógu vel með sjálfan þig?

„Nei, ég fer ekkert vel með mig. En betur en margir aðrir miðað við holdafar þjóðarinnar. Ég hugsa sæmilega um mig. Ég hef ekki alltaf lifað heilbrigðu lífi en ég passa mig að óhollustan fari ekki úr böndunum. Ég er ekki bindindismaður. Hef alltaf sagt að ég og vín eigum vel saman. Það fylgja samt engin vandamál minni drykkju, ég drekk líka ekki mikið, hún er algjörlega bundin einhverju tilefni. Ég drekk aldrei einn og það er aldrei vín með mat hjá mér, nema í matarboðum. En nikótínið hefur fylgt mér lengi þótt ég láti tóbakið vera í augnablikinu.“

Það hefur verið talað um að þér bregði mjög mikið, er þetta sjúkdómur sem þú hefur?

„Þetta er ekki sjúkdómur, þetta er bara almenn taugaveiklun,“ segir hann og hlær. „Þetta er bara eitthvað í boðkerfinu, taugaboðin verða mjög hröð upp í heila, þannig að viðbrögðin verða mjög ofsafengin. Það er hægt að fá lyf við þessu en á meðan hjartað er í lagi þá er allt í lagi að mér bregði eitthvað.“

Eins og samfélagsumræðan er í dag, stór orð látin falla og þú oft í hringiðu umræðunnar, hvaða áhrif hefur þetta á heimilislífið?

„Mig grunar að þetta hafi haft einhver áhrif á strákana til að byrja með, en þeir eru það fullorðnir í dag að ég held að þeir afpláni þetta bara í rólegheitum. Sama með konuna mína. Það hefur valdið henni nokkrum óþægindum að ég sé í pólitík, en fjölskyldan stendur alltaf saman, sem er mikilvægt. Svo er ég bara skammaður heima og látinn vita þegar ég geng of langt eða þau eru einfaldlega ósammála mér.“

Hefur þú orðið fyrir aðkasti vegna skoðana þinna?

„Það eru tvö dæmi af Ölstofunni. Í bæði skiptin heyrði maður að þar voru á ferð mjög harðir femínistar, konur. Í fyrra skiptið var hellt yfir mig úr glasi fyrirvaralaust. Í seinna skiptið var þess krafist að ég færi af staðnum, ég væri svo vondur maður. Ég fæ iðulega ekki svona viðbrögð þegar ég fer út á meðal fólks, margir koma og segja mér að þeir séu ósammála mér en sáttir við mig að öðru leyti. Enn fleiri koma og hrósa mér.“

Eigum að sýna mildi

Hvað finnst þér um #metoo-byltinguna í vetur?

„Það er mjög gott að menn fari yfir það hvernig bæta megi samskipti fólks, tíðarandinn er auðvitað mismunandi. En eins og í öllum öðrum byltingum þá tekur ofstækið yfir, þá er hægt að hengja menn með því að segja að þeir hafi gert eitthvað fyrir 30 árum, enginn var kærður og enginn getur varið sig. Það samræmist illa reglum réttarríkisins. Þeir sem brjóta af sér eru kærðir og það fer rétta leið, þú bíður ekki í mörg ár og ferð svo með það í fjölmiðla til að dæma menn og útskúfa. Það finnst mér ekki góð þróun.“

Reynir að fara vel með sjálfan sig Þrátt fyrir nikótínfíkn og að vera ekki bindindismaður segir Brynjar að hann reyni að fara vel með sig, hann stundi reglulega hreyfingu og forðist óhóf. Ljósmynd: DV/Hanna

Brynjar tekur oft upp hanskann fyrir fólk sem hann telur að geti ekki varið sig í umræðunni. „Eins og með þennan leikara, skulum ekki nefna hann á nafn hér, hvernig ætli líf hans sé? Hvernig ætli honum líði? Ég þekki manninn ekki neitt, hef aldrei hitt hann, en ég tek hanskann upp fyrir þannig fólk en aðallega fyrir réttarríkið. Það er ofstækið sem er hættulegt. Við eigum að sýna mildi, kærleika og fyrirgefa. Ég er ekki að réttlæta það sem hann gerði, við eigum bara að fyrirgefa eða að minnsta kosti gefa mönnum kost á endurkomu í samfélagið. Það er eina leiðin til að lifa saman í sæmilega siðuðu samfélagi.“

Er fólk búið að missa trú á kerfinu og dómstólum?

„Menn skulu ekki halda að þetta kerfi sé fullkomið. Það er mjög eðlilegt að fólk gagnrýni niðurstöður dómstóla, ég er ekki alltaf sáttur. En öll svona aðför að dómstólum – fólk sem hefur ekki séð gögn málsins, hefur ekki hlustað á framburði og hefur engar forsendur til að meta sönnun – það er bara hættulegt. Réttarríkið er alltaf í vörn vegna þess að krafan er svo hörð hjá einhverjum háværum hópum, og þá er hætta á að menn gefi eftir, það er bara mannlegt eðli. Það mun á endanum eyðileggja þetta kerfi og þá mun ofstækið taka völdin með ófyrirséðum afleiðingum.“

Hefði aldrei ráðið Gústaf

Brynjar telur að á vissan hátt sé fólk ekki eins umburðarlynt í dag og áður, það sé hins vegar ekki algilt og eigi ekki við um kynhegðun hvers konar. „Mér fannst vera meira umburðarlyndi áður fyrir alls konar hegðun. Mér fannst vera meira frjálslyndi, gagnvart fólki sem var með sérkennilegar skoðanir eða hugsaði öðruvísi. Það er mín upplifun, hún þarf ekki að vera rétt. Alla sem kaupa ekki pólitíska rétthugsun hverju sinni þarf eiginlega að útskúfa. Snorri í Betel mátti ekki einu sinni vitna í Biblíuna. Það verða svo ofstækisfull viðbrögð þegar menn fylgja ekki í rétthugsuninni.“

Átti þetta við um bróður þinn, Gústaf Níelsson, þegar hann var fenginn í mannréttindaráð Reykjavíkurborgar?

„Þetta er gott dæmi um hræðsluna við rétthugsunina og skort á umburðarlyndi gagnvart skoðunum annarra, bara lýsandi dæmi. Ég hefði að vísu aldrei ráðið hann. Hann er samt ekki hættulegur maður þótt hann sé ekki eins og fólk er flest,“ segir Brynjar og brosir.

Hvaða skoðun hefur þú á múslimum?

„Ég hef ekki skoðun á trúnni sem slíkri, mér er alveg sama. En ég gagnrýni lífsgildi margra sem búa í öðrum menningarheimi en ég. Það getur hins vegar verið mikill munur á múslima í miðborg Istanbúl og múslima í ríki þar sem sharíalög gilda, það er til fólk í þessum menningarheimum sem beinlínis hatar okkar lífsgildi og vill ekki taka þátt í okkar samfélagi, en er hér. Það mun skapa hættu ef slíkur hópur stækkar of mikið, sagan segir okkur það. Það mun slá í brýnu. Í umræðunni skiptir miklu máli hvernig orðunum er háttað. Hér eru sumir sem eru beinlínis með hatursorðræðu, aðrir eru bara að gagnrýna innflytjendastefnu, það má ekki setja þetta fólk í sama hóp. Það er gott að fá hingað útlendinga til að vinna og taka þátt í samfélaginu, skiptir engu máli hvort viðkomandi er múslimi eða ekki. Það þarf bara engan speking til að sjá að það endar illa fyrir samfélagið ef hér er stór hópur með ósamrýmanleg gildi.“

Skilur ásýndarstjórnmál

Það er ekkert launungarmál að Brynjar hefði ekkert á móti því að verða dómsmálaráðherra, en frá því að hann settist á þing hafa þrjár konur gegnt því embætti. Fyrir síðustu kosningar vék Brynjar úr fyrsta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík suður fyrir Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra.

Hvað finnst þér í raun og veru um að vera ekki dómsmálaráðherra?

„Ég hef nú sagt það um stjórnmálin, í þessu pólitíska rétthugsunarsamfélagi í dag, að reynsla og þekking skipti í raun og veru minna máli en áferð og ásýnd. Ef það er pólitískt rétt, þá nærðu til fleiri hópa. Gott og vel, það er alveg sjónarmið, en ég er bara ósammála því. Ég segi að ef þú hefur þingmann með reynslu og þekkingu innan þinna raða þá áttu að nota hann  í ráðherrastól. Að vísu höfum við dómsmálaráðherra sem hefur góða reynslu og þekkingu af málum sem heyra undir það ráðuneyti. Krafan er að ungt fólk eigi að komast til áhrifa, konur líka. Sú krafa er mjög skiljanleg þótt ég telji að reynsla og þekking skipti meira máli.“

Brynjar getur lítið sagt um stöðu sína innan flokksins og það heyrist á honum að hann hafi litlar áhyggjur af stöðu sinni eða ríkisstjórnarinnar. Hann segir það í höndum flokksmanna hversu lengi hann verði þingmaður. „Ég á nú ekki von á því að sitja í meira en eitt kjörtímabil í viðbót. Ég er að nálgast sextugt og á kannski tíu ára starfsferil eftir. Hugsa að ég geri eitthvað annað síðustu fimm árin.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Í gær

Einar Páll, Kristján og Sísí taka magnaða ábreiðu af Shallow – Sjáðu myndbandið

Einar Páll, Kristján og Sísí taka magnaða ábreiðu af Shallow – Sjáðu myndbandið
Fókus
Í gær

„Ég varð mjög fegin þegar ég sá nýjan dag byrja“

„Ég varð mjög fegin þegar ég sá nýjan dag byrja“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Landsmenn misstu sig yfir frábærri frammistöðu Hatara: „Ég er með króníska gæsahúð“

Landsmenn misstu sig yfir frábærri frammistöðu Hatara: „Ég er með króníska gæsahúð“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Stórkostleg mismæli Gísla Marteins í beinni: „Óvænti brandari kvöldsins“

Stórkostleg mismæli Gísla Marteins í beinni: „Óvænti brandari kvöldsins“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Karitas Harpa og Aron Leví – Hrafn kominn í heiminn

Karitas Harpa og Aron Leví – Hrafn kominn í heiminn
Fyrir 2 dögum

Mánudagsblaðið var djarft, klámfengið og menningarlegt

Mánudagsblaðið var djarft, klámfengið og menningarlegt
Fókus
Fyrir 3 dögum

Umbyltir staðalmynd fíkniefnaneytandans: „Boxin sem áfengi tikkar í eru miklu verri“

Umbyltir staðalmynd fíkniefnaneytandans: „Boxin sem áfengi tikkar í eru miklu verri“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Aðdáendur skilja hvorki upp né niður í nýjasta útspili Hatara

Aðdáendur skilja hvorki upp né niður í nýjasta útspili Hatara