Sunnudagur 23.febrúar 2020
Fókus

Grýla étur ungabarn lifandi og Bjarni Ben treður sér í nábrók: Hvað gengur á í höfðinu á þér Þrándur?

Margrét Gústavsdóttir
Föstudaginn 15. júní 2018 12:08

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þrándur Þórarinsson listmálari hefur skotist upp á stjörnuhimininn með hraði síðustu misserin en súrrealískar myndir úr umhverfi og sögum sem flestum eru kunnugar eru meðal hans helstu viðfangsefna.

Þrándur heldur nú sýningu á verkum sínum við Íslandsbryggju í Kaupmannahöfn, rétt við íslenska sendiráðið.

Sýningin hefur gengið ákaflega vel og Þrándur er himinlifandi með viðtökurnar en þetta er hans fyrsta stóra einkasýning utan Íslands.

Lærifaðir Þrándar á sjálfsmynd

Margir kannast við norska málarann Odd Nerdrum sem m.a. var vitnað til í áramótaskaupinu (maðurinn sem var ber að neðan á sjálfsmyndinni).

Sá er lærifaðir Þrándar í málaralistinni og glöggir eiga ekki erfitt með að sjá áhrifin.

En hvað er það sem heillar Þránd?

Hvað knýr hann til að mála þessi stóru súrrealísku verk, hver er bakgrunnur hans í námi og af hverju heillast hann svona af þessum klassísku aðferðum málaralistarinnar?

 

Ég hóf nám við LHÍ árið 2001 en droppaði úr skólanum eftir fyrsta árið.

Hið sígilda málverk sem ég bar mig eftir að ná tökum á átti lítt upp á pallborðið þar.

Það er ótal margt sem laðar mig að hinu klassíska maleríi. Fyrst og síðast er það óviðjananleg fegurð þess.

Þegar best lætur er það fegurri en frá má segja. Ég kann einnig að meta hvað leikni er snar þáttur í þessum listmiðli, fimi málarans með penslana er alfa og ómega í þessari íþrótt.

Þrándur spjallar við gesti á opnuninni.

Hvað er það við súrrealisma/ævintýraraunsæi sem þú fílar?

Það er alltaf upplífgandi að hrista af sér hömlur veruleikans og láta hið ómögulega myndgerast á fleti.

Í súrrealismanum er ekkert útilokað, aungvum viðjum verður komið á hann. Hann sviptir hulunni af ódáinsakri fjarstæðna og staðleysna.

Hvað varð til þess að þú ákvaðst að helga þig alfarið að listinni?

Ég varð fyrir þeirri köllun á menntaskólaárum mínum.

Ég hafði alla tíð lagt mikla rækt við dráttlist og heillaðist ungur af málverkum gömlu meistaranna. Ég hugsaði sem svo fyrst þeir gátu málað svona hlyti ég að geta gert það líka.

Svo fastréð ég dag einn að gera þetta að starfi mínu og þótti mikið um, listin getur vitanlega verið harður húsbóndi en ég hef hvergi hvikað frá köllun minni frá því ég réð þetta með mér.

Skollabuxnabjarni 90×50

Hafa áherslurnar þínar breyst eitthvað síðustu ár?

Bæði efnistökin og efnisvalið hafa þróast hægt og sígandi.

Í eina tíð málaði ég mest upp úr íslenskum fornsögunum, en á síðari árum hef ég fikrað mig fram í tíma hvað myndefni varðar.

Samfélagsgagnrýni hefur ratað inn í myndir mínar og nútíminn hefur viðstöðulaust fært sig upp á skaftið. Hvað efnistökin varða þá sækj ég innblástur úr stöðugt fleiri áttum. Hér áður fyrr sá ég vart sólina fyrir barrokki og rókókó, en nú lít ég á listasöguna eins og hún leggur sig sem ostru mína.

Hvernig gengur sýningin í KBH?

Geypilega vel. Ég er fjarskalega ánægður með útkomuna. Fæ mikið af jákvæðum viðbrögðum frá fólki sem lítur við.

Þrándur í góðum fílíng á opnunardeginum.

Er þetta fyrsta sýningin þín utan landssteinanna?

Já. Ég tók að vísu þátt í samsýningu skömmu fyrrr í vor á Skagen í Danmörku.

Sören Kirkegorgeous 50×30

Ertu með eitthvað í pípunum?

Ég er ævinlega með nokkur járn í eldinum en næsta sýning mín verður í Hannesarholti í september.

Hvað ertu lengi að klára eina mynd? Lágmark og mest?

Ef ég fengi túskilding fyrir hvert skipti sem ég er spurður að þessu þá ætti dágott safn af túskildingum.

Tjah, lítið portrett get ég hrist fram úr erminni á sirka tvemur tímum, en stórar myndir með mörgum smáatriðum get ég dedúað við vikum, jafnvel mánuðum saman.

Ég er jafnan með nokkrar myndir í einu og því dálítið erfitt að svara þessu nákvæmlega. Ég þyrfti að mæla þetta nákvæmlega svo ég geti svarað þessu afdráttarlaust.

Á hvaða verðbili eru myndirnar þínar?

Ég tek hérumbil tvöhundruðþúsund drullkökur fyrir litlar myndir. Stærstu og dýrustu myndir mínar kosta um níuhundruð þúsund. Stefni leynt og ljóst að því að rjúfa milljón krónu múrinn. Það verður hátíðleg stund. Þá verður skálað.

Um siðferði íslenskra kvenna 90×70

Finnst þér eins og íslendingar „nái“ þér betur en aðrir?

Nei ekki beinlínis, en auðvitað eru ýmis myndefni sem þeir kunna betur deili á en aðrir.

Til að mynda þjóðsögulegs efnis nú eða Reykjavíkurmyndir mínar. En ég fæ líka afar jákvæð viðbrögð frá erlendu fólki. Sumir hverjir eru jú með heiftarlegt blæti fyrir Íslandi.

Hver keypti hina víðfrægu Grýlu mynd?

Það var maður sem býr nú í Kaupmannahöfn. Hálfur íslendingur og hálfur dani. Mér skilst að myndin hafi farið niður af veggnum eftir að hann eignaðist barn.

Odd Nerdrum, lærifaðir Þránds.

Ertu í einhverju sambandi við herra Nerdrum?

Ég á í óbeinu sambandi við hann á Fésbókinn. Það er að segja fjölskyldu meðlimi hans. Sjálfur kæmi hann ekki nálagt samfélagsmiðlum, enda hefur hann afrekað það afneita nútímanum alfarið. En það stendur alltaf til hjá mér að kíkja í kaffi til hans.

Að lokum. Dreymir þig þessar senur eða…?

Það má vel vera, en ég veit þá ekki af því. Ég man sárasjaldan eftir draumförum mínum.

Þrándur á samfélagsmiðlum:   

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 2 dögum

Berglindi langar að kveikja í sér eftir að hún las þessi komment – „Er hann ekki dauður??“

Berglindi langar að kveikja í sér eftir að hún las þessi komment – „Er hann ekki dauður??“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Manuela tók aldrei fyrsta sopann: „Ég hef sparað mér svo mikla vanlíðan“

Manuela tók aldrei fyrsta sopann: „Ég hef sparað mér svo mikla vanlíðan“
Fókus
Fyrir 1 viku

10 stjörnubörn í sviðsljósinu

10 stjörnubörn í sviðsljósinu
Fókus
Fyrir 1 viku

Lítt þekkt ættartengsl – Verðlaunadís og stjórnmálarýnir

Lítt þekkt ættartengsl – Verðlaunadís og stjórnmálarýnir