fbpx
Þriðjudagur 20.apríl 2021
Fastir pennarFókus

Sólrún tók af sér eyrnalokkana á klósettinu fyrir vigtun – Súpukúrinn, sítrónur og fituskitan

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 12. janúar 2021 21:30

Auðvelt er að festast í vítahring megrunar og fá þráhyggjukenndar hugsanir. Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nítjándi þáttur líkamsvirðingarvæna hlaðvarpsins Bodkastið sem er jafnframt fyrsti þáttur ársins fjallar um megrunartilraunir og rannsóknir á leiðum til þyngdartaps.

Elva Björk Ágústsdóttir og Sólrún Ósk Lárusdóttir skrifa:

Í þættinum segjum við meðal annars frá megrunarkúrum sem við höfum prófað, allt frá súpukúr, sítrónukúr og dönskum kúr, yfir í Herbalife og fituskitulyf. Við stöllur eru vel sjóaðar í megrunartilraunum og eigum það meðal annars sameiginlegt að hafa tekið hinn svokallaða danska kúr með trompi, vigtað matinn og tekið þátt í hópþyngdarmælingum þar sem við fengum límmiða fyrir þyngdartap.

Elva Björk, sálfræðikennari, og Sólrún Ósk, sálfræðingur, eru umsjónarkonur Bodkastsins. MYND/VALLI

Fór úr brjóstahaldaranum á klósettinu fyrir vigtun 

„Ef við misstum hálft kíló eða meira á viku þá fengum við límmiða. Ég var tryllt í þennan límmiða og gerði allt til þess að fá hann. Ef ég var hrædd um að hafa ekki lést nóg þá drakk ég ekkert daginn sem vigtunin var, fór úr brjóstahaldaranum og tók af mér eyrnalokkana á klósettinu fyrir vigtun,” segir Sólrún meðal annars um upplifun sína af danska kúrnum og heldur áfram. „Ef ég léttist ekki nóg fannst mér vikan ónýt, jafnvel þótt annað hefði gengið vel og ég hefði verið að borða hollt og hreyfa mig. Ég missti bara pínu vitið”.

Sólrún kannast við að vera skólabókardæmi um megrunarkúra þar sem hún hafi misst fjölmörg kíló á stuttum tíma en þyngst jafnharðan aftur og gott betur eftir að kúrnum lauk. Þær Elva eru sammála um að það sé dapurlegt að í grunninn hafi mataræðið verið ágætt, fjölbreytt með miklu grænmeti en hætti að vera heilbrigt með áherslunni á að vigta matinn og þyngdartap.

Snýst ekki bara  um kaloríur inn og kaloríur út 

Elva hefur grúskað aðeins í fræðum um megrun og segir í þættinum frá frægri rannsókn þar sem áhrif þess að nærast minna á líkamann voru skoðuð. Rannsóknin var gerð meðal fanga sem voru af öllum stærðum og gerðum, þeir borðuðu allir jafn lítið og hreyfðu sig jafn mikið en fæðuskerðingin hafði mismikil áhrif á þá, enda eru kaloríur inn og kaloríur út ekki einfalt reikningsdæmi. Þegar megruninni lauk fóru fangarnir allir í ofát, þeir þyngdust allir aftur óháð sinni fyrri þyngd og meirihlutinn varð þyngri en fyrir megrunina. Þetta er til marks um hinn þekkta megrunarvítahring.

Elva lýsir þessum ýkta hugsunarhætti sem kemur fram þegar við erum í megrun. „Það magnast upp sem við leyfum okkur ekki að hugsa um, þegar við megum ekki borða eitthvað ákveðið þá erum við að reyna að bæla niður ákveðnar hugsanir en það eykur þær bara. Þegar við förum til dæmis í nammibindindi þá hugsum við um fátt nema nammi”.

Elva segir frá því að rannsóknir hafi sýnt að þeir sem fara í megrun hugsi mun meira um mat en þeir sem hafi aldrei farið í megrun og hafi mun ýktari allt-eða-ekkert hugsunarhátt gagnvart mat.

Í nýjasta Bodkastþættinum er einnig fjallað um rannsókn sem var gerð meðal þátttakenda í 8. seríu bandarísku sjónvarpsþáttanna Biggest Loser þar sem keppt er í þyngdartapi. Að sex árum liðnum höfðu 13 þátttakendur af þeim 14 sem fylgt var eftir þyngst allverulega og sumir voru orðnir þyngri en þegar keppnin hófst. Hluti ástæðunnar var að það hafði hægst verulega á brennslu þeirra og þau brenndu mun færri hitaeiningum miðað við þyngd en búist hefði verið við sem gerði þeim afar erfitt fyrir að viðhalda þyngd sinni, hvað þá að léttast. Brennslan breyttist ekki þrátt fyrir þyngdaraukningu og auk þess glímdu þau við gífurlega hungurtilfinningu.

Lífstílsbreytingar eru oft megrun í dulargervi 

Í janúar ár hvert dynja á okkur auglýsingar um alls konar aðferðir til að breyta líkamanum, grennast eða mótast. Oftast eru þessar auglýsingar settar fram sem einhvers konar lífstílsbreyting enda orðið megrun komið með neikvæðan stimpil. En hver er munurinn?

Megrun er skilgreind sem inngrip eða aðferð sem notuð er með það að markmiði að léttast. Ef þú ætlar að breyta um lífstíl og borða meira grænmeti til að léttast, þá er það megrun! Fyrir þau okkar sem upplifum þrýsting um að grennast verður ýmis konar hollur og heilbrigður lífsstíll að megrun. Við festumst í megrunarvítahring, að léttast og þyngjast á víxl, sem þeir sem hafa aldrei farið í megrun tengja mögulega ekki mikið við.

Flestir vita að til að bæta heilsuna er mikilvægt að eltast ekki við öfgafullar breytingar á hegðun og lifnaðarháttum. Markmiðið ætti að vera að borða hollan og fjölbreyttan mat og hreyfa sig eftir getu og þörfum líkamans. Það er hins vegar auðvelt að sogast inn í að fara í megrun í dulargervi því allt í kringum okkur sjáum við skilaboð sem ýta undir þann þankagang að missa kíló. Þótt nýjar aðferðir til heilsubótar séu auglýstar sem lífstílsbreyting en ekki megrun eða kúr þá er fókusinn í grunninn alltof oft á þyngdartap.

Sumar auglýsingar eða birtingar eru þó ekkert að fela þyngdartaps markmiðið. Til að mynda sýndi RÚV þátt um crash diets eða skyndikúra í byrjun janúar. Árangur kúranna var síðan að sjálfsögðu mældur í kílóum. Þegar fókusinn er á kíló þá erum við enn ólíklegri til að ná markmiðum okkar um heilbrigðara líf, hollara og fjölbreyttara mataræði eða meiri hreyfingu.

Rannsóknir sýna endurtekið að langtíma þyngdartap næst ekki, ekki vegna skorts á viljastyrk heldur vegna öflugra líffræðilegra þátta. Einungis 5% einstaklinga sem léttast eitthvað að ráði ná að halda þyngdartapinu til lengri tíma litið. 95% einstaklinga bæta þyngdinni aftur á sig og jafnvel enn meiri en fyrir megrun.

Gefumst upp á vigtinni en ekki okkur sjálfum 

Í þættinum veltum við fyrir okkur hvað sé þá til ráða og hvort það eigi þá bara að gefast upp, enda erfitt að sætta sig við það að eiga ekki eftir að léttast. Elva bendir á að „ef þyngdartap væri gerlegt markmið og kúrar eða lífstílsbreyting með fókus á þyngdartap virkaði, þá værum við ekki alltaf með endalausa nýja kúra”. Elva telur mikilvægt að einbeita sér að bættri heilsu og bættri líðan án þess að festast í vítahring megrunar, í rauninni að gefast upp á þyngdartaps pælingunni og segja skilið við áramótaheitið sem við höfum mögulega gefið okkur 20 ár í röð.

Það má einnig hafa í huga að þyngd er ekki hegðun, fyrir utan að hún er háð ýmsum þáttum sem við höfum litla stjórn á. Ef þig langar að setja þér heilsutengd markmið á nýju ári ættir þú að einblína á hegðun sem þú getur stjórnað. Segðu skilið við þyngdarpælinguna og hentu vigtinni árið 2021.

Nýjasta Bodkast þáttinn má nálgast hér:

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Sakamál – Internetfrægð, þráhyggja og morð í beinni

Sakamál – Internetfrægð, þráhyggja og morð í beinni
Fókus
Fyrir 2 dögum

Berglind Saga er ein þeirra sem dansaði í Vikunni á RÚV í gær – „Bassi vildi bara fá „bad ass bitches“ í atriðið“

Berglind Saga er ein þeirra sem dansaði í Vikunni á RÚV í gær – „Bassi vildi bara fá „bad ass bitches“ í atriðið“