„Þetta landakort þarna á veggnum í herberginu þínu, þetta er einhver staður úr bók er það ekki? Ég sá að þú ert að lesa þarna, þessar mömmukláms-bækur.“
Vinur minn hló og hakkaði í sig spaghetti á meðan ég ranghvolfdi augunum andlega. Á bókahillunni var A Court of Thorns and Roses, öll „ACOTAR“ serían. Ég átti líka Throne of Glass seríuna eftir Söruh J. Maas. Þetta voru átta bækur á bilinu 500 til 1000 blaðsíður hver. Ég hafði rúllað í gegnum Crescent City bækurnar eftir sama höfund í vetur. Notið þeirra á hljóðbók í einstaklega dramatískum leiklestri.
Ég viðraði hundinn í skammdeginu á meðan ég hlustaði á leiklesnar kynlífssenur úr Fourth Wing eftir Rebeccu Yarros, á milli þess sem sögupersónur dugðu eða drápust í ómannvænum fantasíuheimi sem lét Tolkien líta út eins og barnaefni. Ég brosti til tweed-klæddra Vesturbæinga, fólksins með Briem og Thoroddsen eftirnöfnin. Sögupersónur æptu frygðarlega hver á aðra með amerískum hreim á meðan ég brosti púkalega og þræddi gangstéttir fram hjá stórum steinhúsum, fullum af þriðju kynslóðar læknum sem höfðu aldrei heyrt talað um húsnæðislán. Hundurinn minn hafði ekki hugmynd.
Áhuginn á amerískum rómantískum fantasíubókmenntum fæddist samhliða laganáminu. Eftir lotupróf í samkeppnisrétti var stórkostlegt að sökkva ofan í sögur af þjáðum stríðsgyðjum sem elskuðu miðnæturprinsa með sár á sálinni. Þessir menn voru skrifaðir af konum á mínum aldri og huggulegir eftir því.
Ég íhugaði á þessum tíma að fara í rekstur. Að selja falskar bókarkápur. Smella Marcel Proust utan á vængjuðu stríðsprinsana svo að ég gæti loksins lesið á kaffihúsi. En það sat eitthvað illa.
Ég velti fyrir mér mömmukláms-stimplinum. Mömmuklám gaf til kynna að það væri klám, en í sérflokki. Persónur sem áttu sér tilfinningalíf, kynlíf sem átti sér aðdraganda. Upplýst samþykki, jafnvel. Venjulegt klám var fyrir karlmenn – en svo var mömmuklám. Þurfti að eiga börn til að geta lesið mömmuklám? Meinti hann húsmæðraklám? Þurfti ég að eiga íbúð eða vera heimavinnandi?
Rómantíska fantasían, „romantasy“, náði flugi í gegnum Tiktok. Ungt fólk á Tiktok á ekki húsnæði. Þar fór húsmæðrakenningin.
Var hugsanlegt samfélagið þyrfti að smætta kvennamenningu niður í eitthvað kjánalegt til þess að hægt væri að melta það að konur hefðu áhuga á fantasíubókmenntum, drekum og þursum með þúsund ára bölvun. Að ást og kynlíf frá sjónarhóli kvenhöfunda myndi alltaf falla utan meginstraumsins, utan alvöru fantasíubókmennta.
Þegar ég var tvítug djammaði ég með bókmenntafræðingum og átti nákvæmlega sömu samtölin en þá var romantasy-bókin kölluð skvísubók og Celaena Sardothien hét Bridget Jones.
Mér fannst ég vondur femínisti þegar ég fór að útskýra yfir spagettídisknum, að söguheimurinn væri vel skrifaður þó að höfundurinn væri ekkert sérstakur stílisti. Þegar ég lagði áherslu á hátt afþreyingargildi til þess að benda á að ég væri ekki að hlusta á eitthvað vemmilegt mömmuklám.
Skvísubókin hefur fengið vængi og sverð en bókmenntaheimurinn fær enn þá útbrot yfir konum sem fíla kynlíf.