fbpx
Miðvikudagur 05.nóvember 2025
EyjanFastir pennar

Thomas Möller skrifar: Þáttaröðin „Evrópa brennur“

Eyjan
Miðvikudaginn 5. nóvember 2025 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í hverri viku birtast greinar í Morgunblaðinu sem líkjast þáttaröð á streymisveitu sem gengur undir nafninu Evrópa brennur!.

Nokkrir fastir pistlahöfundar Moggans lýsa hræðilegu ástandi hjá nágrannalöndum okkar í Evrópu. Þeir segja frá hnignandi atvinnulífi, skelfilegu ástandi velferðarkerfisins, miklu atvinnuleysi og skelfilegum áhrifum evrunnar á lífskjör íbúanna.

Þessum greinum er svo fylgt eftir með hryllingssögum um hamfarirnar í Evrópu í vikulegu Reykjavíkurbréfi Moggans. Nýjasta yfirskrift hjá einum pistlahöfunda var „ESB er skrímsli“ og annar skrifaði nýlega að „evran væri handónýtur gjaldmiðill.“

Í þessari þáttaröð er endurtekið efni um það sem er að gerast í Evrópu og Evrópusambandinu. Þar er sífellt fullyrt og að Evrópa sé „brennandi hús“ og að þar sé bókstaflega allt í kaldakoli.

Skoðum þessa þáttaröð nánar

Greinarhöfundar segja að lágir vextir í Evrópu séu tilkomnir vegna lítils hagvaxtar þar og að við ættum bara að vera ánægð með himinháu vextina á Íslandi enda væru þeir merki um kröftugan hagvöxt hjá okkur. Hann var þó aðeins 0,59% í fyrra en það ár var um 1,5% meðal hagvöxtur innan ESB landanna.

Í þessari þáttaröð Moggans erum við erum hvött til að sætta okkur við krónuna þó að flest útflutningsfyrirtækin, þar á meðal allir eigendur Morgunblaðsins, séu búin að yfirgefa hana og fá þannig lánskjör sem evrulöndin búa við.

Höfundar ákveða að nefna það ekki að krónan tryggir að engin erlend samkeppni er á bankamarkaði og tryggingamarkaði hér á landi. Í evrulöndum í kringum okkur starfa tugir fyrirtækja á þessum sviðum og keyra þannig niður vextir og tryggingagjöld í öflugu samkeppnisumhverfi.

Sömu greinarhöfundar bera saman tölur um hagvöxt, tækniþróun og þjóðarframleiðslu á mann í Bandaríkjunum og ESB og draga þá ályktun að lífskjör og lífsgæði séu mun betri vestanhafs en austan.

Á facebook síðum greinahöfundanna sést þó að þeir fara aðallega í frí til Evrópu til að njóta menningar, náttúru og hins hagstæða verðs sem er á mat, drykk og öðrum lystisemdum lífsins.

Þeir draga svo þá ályktun að aðild Íslands að ESB muni færa okkar hagkerfi niður í hyldýpi samdráttar og atvinnuleysis og að ESB muni hirða allar auðlindir okkar og fullveldi. Og þessu eigum við að trúa, enda lýgur Mogginn aldrei!

Nýjasta þáttaröðin kom í síðustu viku

Þessi þáttaröð náði sínum lágpunkti í síðustu viku þegar Daði Kristjánsson, meðeigandi Visku sjóða lýsti ástandinu í Evrópu með dramatískum. Hér eru nokkur dæmi úr grein hans:

„Evrópa logar. Þýskaland er að molna innan frá. Franska velferðarkerfið er tæknilega gjaldþrota. Grunnkerfi Evrópu eru að gefa sig. ESB stendur í björtu báli. Bílar loga á götum Parísar. Fjárfestar hafa misst trú á getu Frakklands til að standa undir eigin kerfum. Þýskaland er að missa iðnaðinn. Frakkland er skuldugt upp fyrir haus. ESB er að missa áttirnar. ESB glímir við dýpstu efnahagsáskoranir í áratugi.“

Svo heldur hann áfram að lýsa ástandinu og þeim hryllingi sem muni hljótast af inngöngu Íslands í ESB: „Að ganga í ESB er að flytja inn óstöðugleika annarra (landa). Ísland á ekki að hlaupa inn í brennandi hús.“

Þessi upptalning Daða er að röng og byggir ekki á staðreyndum. Hann viðurkennir þó í grein sinni að „innganga í ESB gæti vissulega þýtt lægra vaxtastig hér á landi en það er þó engin töfralausn.“

Dramatíkin verður væntanlega allsráðandi í nýjustu þáttaröðinni sem hlýtur að enda með því að ESB löndin taka öll upp hina frábæru íslensku krónu sem gjaldmiðil þannig að vextir fari upp í 10% eins og hjá okkur.

Í þáttaröðinni verða svo öll ESB lönd skikkuð til að taka upp verðtryggingu svo að íbúðakaupendur geti borgað húsin sín þrisvar eins og á Íslandi.

Er Evrópa að brenna?

Þó vissulega megi ýmislegt laga í ESB löndum þá er það staðreynd að samkvæmt nýjum skoðanakönnunum Eurostat er um 70% íbúa ánægðir með aðild landa sinna að sambandinu og enn fleiri eru ánægðir með evruna sem gjaldmiðil.

Lífsánægja (e. life satisfaction rating) íbúanna er með hæsta móti í heiminum og er unga fólkið (16-29 ára) og barnafjölskyldur hvað ánægðastar með lífskjörin í ESB.

Til upprifjunar fyrir þig ágæti lesandi þá er Evrópusambandið samstarfsvettvangur 27 ríkja sem er nokkurs konar samvinnuhreyfing nútímans.

Ferðafrelsi, tollfrelsi og frelsi til búsetu og menntunar í þessum löndum hefur fært þau inn í nútímann. ESB samstarfið hefur tryggt frið hjá aðildarlöndum í rúmlega 70 ár sem er lengsta friðartímabil í um 3000 ára sögu álfunnar.

Vextir af húsnæðislánum eru um 2,4% að meðaltali seinni hluta ársins 2025 í ESB löndum meðan þeir eru um 9,6% í krónuhagkerfinu okkar. Atvinnuleysi er að minnka og verður svipað og á Íslandi á næsta ári samkvæmt nýjustu spám. Verðtrygging er óþörf í evruhagkerfi sem tryggir stöðugleikann sem við erum sífellt að reyna að ná í.

Mannréttindi, umhverfisgæði, matvælaöryggi, heilsugæsla og lífsgæði innan Evrópulanda eru með því besta sem gerist í heiminum í dag.

Þáttaröðin mun enda bráðum

Ljóst er að þáttaröðinni „Evrópa brennur“ mun ljúka í síðasta lagi þegar Ísland hefur gengið inn í ESB.

Þá mun líklega hefjast ný  þáttröð í Mogganum sem mun heita „Ísland blómstrar í ESB.“

Skoðanakannanir sýna að meirihluti Íslendinga vill halda viðræðum um ESB aðild áfram og að þeir eru enn fleiri sem eru fylgjandi fullri aðild Íslands.

En á meðan munum við þurfa að lesa í Mogganum um hörmungarnar sem munu dynja á þjóðinni þegar við verðum komin inn i „brennandi hús“ Evrópu.

Þangað til munu greinarhöfundar líklega halda áfram að ferðast til Evrópu og njóta þeirrar menningar, ferðafrelsis og náttúrugæða sem álfan okkar hefur upp á að bjóða.

Höfundur er stjórnarmaður í Evrópuhreyfingunni. www.evropa.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson skrifar: Þrjár leiðir til að gæta íslenskra hagsmuna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Þrjár leiðir til að gæta íslenskra hagsmuna
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Thomas Möller skrifar: Mælum rétt

Thomas Möller skrifar: Mælum rétt
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Nína Richter skrifar: Þegar Zoom drap Sókrates

Nína Richter skrifar: Þegar Zoom drap Sókrates
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Við svona kannski höfum ákveðið

Þorsteinn Pálsson skrifar: Við svona kannski höfum ákveðið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Þeir sem flæmdu Laxness úr skólunum

Svarthöfði skrifar: Þeir sem flæmdu Laxness úr skólunum
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Nína Richter skrifar: Bréf frá „Fuckboy“

Nína Richter skrifar: Bréf frá „Fuckboy“
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Björn Jón skrifar: „Þorðu að vera þjóðrækinn“

Björn Jón skrifar: „Þorðu að vera þjóðrækinn“
EyjanFastir pennar
04.10.2025

Sigmundur Ernir skrifar: Skerðu niður sem lengst frá sjálfum þér

Sigmundur Ernir skrifar: Skerðu niður sem lengst frá sjálfum þér