Ozzy Osbourne, myrkraprinsinn, er látinn. Ég sé fréttina fyrst á Instagram reels, les athugasemdirnar og átta mig á því að helmingurinn hefur ekki hugmynd um hver Ozzy Osbourne var. Hinn helmingurinn, mögulega nær mér í aldri, kannast við hann sem raunveruleikastjörnu frekar en rokkara.
Ég fer á stóru erlendu miðlana. Þarna er fréttin – ekki efst á síðunni. Ekki einu sinni stærsta fréttin í menningarumfjöllun. Hvort hún rís fer eftir því hvort hún trendar. Lestrartölur og samfélagsmiðlar munu ráða því hversu lengi hún hangir á forsíðum. Það á eftir að koma í ljós hversu margir muna eftir kallinum – og nenna að lesa um hann.
Ég hlustaði aldrei á Black Sabbath og horfði ekki á The Osbournes. Ég þekkti hann helst í gegnum kaffistofuspjall og slúðurfréttir um fjölskyldumeðlimi í meðferðum og megrunarkúrum.
Í þáttunum var Ozzy endurfæddur í menningarvitundinni sem samnefnari eldri rokkara með skrautlega fortíð. Hann var þó ekkert sérstaklega gamall – aðeins 52 ára þegar þættirnir hófust. Til samanburðar varð Jennifer Lopez 56 ára í gær, þann 24. júlí.
Fréttin um andlát Ozzys hljómar aðeins í afmörkuðum bergmálsklefum. Þar er hans minnst sem epísks myrkraprins eða sjúskaðrar raunveruleikastjörnu. Í hinum klefunum heyrist ekki í honum fyrir TikTok dönsum og get ready with me-efni.
Síðasta stóra poppstjarnan er löngu látin. Við syrgjum ekki þá sem við þekkjum ekki. Við syrgjum ekki myrkraprinsa nema þeir trendi.