Snorri Másson þingmaður Miðflokksins hefur áhyggjur af því að Íslendingar séu í útrýmingarhættu. Hér séu aðeins að fæðast 1,53 börn á hverja konu en þjóðin þurfi 2,1 barn til að halda sér við.
„Við erum hálfpartinn að deyja út, ef við tökum svo strangt til orða,“ sagði Snorri á Alþingi í dag þar sem hann kallaði eftir því að stjórnvöld bregðist við stöðunni sem og fólkið í landinu. Snorri er nú snúinn aftur eftir stutt fæðingarorlof, en kona hans, Nadine Guðrún Yaghi, fæddi þeirra þriðja barn á Landspítalanum í apríl.
„Þá sýna mínir útreikningar mér að eftir 90 ár af óbreyttri fæðingartíðni verðum við orðin 200.000 Íslendingar. Ef fæðingartíðnin lækkar áfram niður í 1,1, sem hún hefur sannarlega gert sums staðar, þá endum við nálægt 100.000 manns eftir bara 90 ár,“ segir Snorri og bendir á að þá verði nýfætt barn hans vonandi enn lifandi. Það sé ekki lengra í þetta en svo.
„Þetta er auðvitað sannarlega miklu alvarlegra vandamál en svo að við getum bara grínast með þetta. Þetta er mjög djúpstæður, andlegur og samfélagslegur vandi og ég held að núna sé brýnt að stjórnvöld taki þetta mjög alvarlega og við förum í aðgerðir sem eru kannski ólíkar þeim sem við höfum alltaf verið að stilla fram og til baka, þessum hvata sem við erum með. En ég vil að við skoðum það alvarlega að fara í nýjar, fjölbreyttari og kannski táknrænni aðgerðir. Þær geta verið hvort sem er skattafsláttur eða eitthvað annað, eitthvað sem sendir skilaboð inn í umræðuna um að barneignir séu málið. Þannig að mín skilaboð til stjórnvalda væru að setja þetta mál í forgang og mér finnst tónninn ekki vera þannig frá þeim að þau taki þessu sérstaklega alvarlega og ég hef ekki heyrt mikla umræðu um þetta. En síðan líka, fyrst að maður er hérna í ræðustól, þetta er ekki bara á ábyrgð stjórnvalda, síst af öllu, og ég held að þau ráði ekki öllu um þetta. Þetta er líka á ábyrgð fólksins í landinu, mögulegra kandídata í foreldrahlutverkið, að beina því til þeirra að láta verða af þessu. Það er ekki eftir neinu að bíða og þetta er ekkert svo mikið vesen.“