fbpx
Þriðjudagur 28.maí 2024
Eyjan

Segir að Bjarni Benediktsson hafi haft forsetaframbjóðanda fyrir rangri sök í Kastljósi

Eyjan
Fimmtudaginn 11. apríl 2024 09:08

Bjarni Benediktsson. Skjáskot RÚV.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Marinó G. Njálsson, ráðgjafi og sérfræðingur í áhættustjórnun, öryggismálum og persónuvernd, segir Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins og  forsætisráðherra, hafa haft Höllu Hrund Logadóttur, orkumálastjóra og forsetaframbjóðanda, fyrir rangri sök í viðtali í Kastljósi á RÚV í gær.

Þangað var Bjarni mættur ásamt félögum sínum í nýstofnaðri ríkisstjórn ásamt Guðmundi Inga Guðbrandssyni, formanni VG og félags- og vinnumálaráðherra og Sigurði Inga Jóhannssyni, formanni Framsóknarflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra að ræða stefnu ríkisstjórnarinnar og þær áskoranir sem blasa við þjóðfélaginu í dag.

Varpaði sökinni að hluta til á stofnun Höllu Hrundar

Þar bar orkumálin á góma en algjör kyrrstaða hefur verið á þeim vettvangi. Síðasta virkjun sem var gangsett var Búðarhálsvirkjun árið 2014 stefnir nú mögulega í óefni. Hefur Landsvirkjun meðal annars lýst því yfir að orkuskortur sé yfirvofandi á næstu misserum.

Í umræðum í þættinum benti Bjarni á að Alþingi Íslands væri búið að samþykkja ýmsa virkjanakosti, í gegnum Rammaáætlun 3, en málin væru of lengi að komast í gegnum stjórnkerfið. Varpaði Bjarni sökinni að hluta til á Orkustofnun, sem er undir stjórn Höllu Hrundar, og sagði stofnunina hafa, til að mynda, dregið lappirnar varðandi framkvæmdaleyfi til Landsvirkjunnar vegna Hvammsvirkjunnar.

Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri.

„Það tók alltof langan tíma fyrir Orkustofnun að komast að niðurstöðu í Hvammsvirkjunarmálinu, langt langt langt fyrir utan lögboðna fresti. Það er óásættanlegt,“ sagði Bjarni í þættinum. Til upprifjunar sótti Landsvirkjun um virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun til Orkustofnunar í júní 2021 með það að markmiði að hefja byggingu hennar 2022 og taka hana í rekstur 2026.

Orkustofnun veitti hins vegar leyfið einu og hálfu ári síðar, í lok árs 2022, og þar með var ljóst að tafir yrðu á framkvæmdunum.

Of langur tími en nýtt ferli tafði fyrir

Í færslu á Facebook-síðu sinni tekur Marinó undir að afgreiðslutíminn hafi verið langur en bendir á að í fyrsta sinn hafi verið farið í gegnum um nýtt ferli, sem allir aðilar voru að venjast, til að mynda Landsvirkjun og Orkustofnun. Til að mynda hafi það tafið ferlið að gögn vantaði frá Landsvirkjun sem Orkustofnun varð að kalla eftir.

„En hvað gerðist næst? Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi leyfið úr gildi, þar sem skort hafði upp á leyfi frá Umhverfisstofnun og nánari rannsóknir á atriðinu sem tengdust því efni. Þetta tiltekna atriði sneri ekki að Orkustofnun, þó hún hefði átt að átta sig á því, að sett höfðu verið lög sem gerðu kröfu um mat á þessu atriði, þ.e. vatnshloti Þjórsár (sem ég ætla ekki að þykjast kunna skil á). Það vantaði sem sagt rannsóknir á þessu og hvernig Landsvirkjun hyggðist vernda það að því marki sem nauðsynlegt var. Sækja þurfti síðan um leyfi til Umhverfisstofnunar. Um leið og það leyfi lá fyrir, gaf Orkustofnun út nýtt virkjunarleyfi,“ skrifar Marinó.

 

Segir Sjálfstæðisflokkinn bera höfuðábyrgð

Hann er á því að tafirnar í virkjanaframkvæmdum hérlendis séu aðallega þingmönnum Sjálfstæðisflokksins að kenna því þeir hafi, að hans sögn, tafið afgreiðslu Rammaáætlunar 3 í allt að sex ár vegna þess að þingmenn flokksins vildu fleiri virkjanir og þá fyrst og fremst Norðlingaölduveitu/Kjalölduveitu inn í nýtingarflokk.

„Ég veit ekki hvers vegna Bjarni kýs ómaklega að gera forsetaframbjóðandann og orkumálastjórann, Höllu Hrund Logadóttur, að sökudólgi í þessu máli. Greinilegt er þó, að hann var að því með orðum sínum. Sjálfstæðimönnum er hins vegar eitthvað í nöp við hana, fyrst þeir vilja leggja embætti hennar niður. En ástæðan fyrir töfum á Hvammsvirkjun er að lang stærstum hluta (svona um 95%) þingmönnum Sjálfstæðisflokksins að kenna og er ákaflega aumt að þeir viðurkenni það ekki. Hin fimm prósentin skrifast á að vanda hefði mátt betur til umsóknarinnar og að náttúruverndarsinnar voru ekki tilbúnir að kokgleypa virkjunina,“ skrifar Marinó.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Helga svarar Kára fullum hálsi

Helga svarar Kára fullum hálsi
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: „Geislavirka“ fórnarlambið, Katrín Jakobsdóttir

Svarthöfði skrifar: „Geislavirka“ fórnarlambið, Katrín Jakobsdóttir