fbpx
Mánudagur 15.apríl 2024
Eyjan

Þorsteinn segir eitt gleymast varðandi Landsbankamálið sem sé í hæsta máta óeðlilegt – „Þeim er ekki einu sinni hleypt inn“

Eyjan
Mánudaginn 25. mars 2024 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þorsteinn Sæmundsson segir ótækt að lýðræðislega kjörnir fulltrúar þjóðarinnar fái ekki sæti við borðið í einni stærstu eign almennings í landinu – Landsbankanum. Ekki megi gleyma því að áður hafi stjórn bankans í heild þurft að segja af sér út af gáleysislegri meðferð á þessari ríkiseign, og ekki megi gleyma ævintýrinu með Landsbankahöllina. 

Allt ætlaði um koll að keyra þegar Landsbankinn greindi frá því að hafa handsalað kaup á Tryggingamiðstöðinni (TM), enda hefur fjármála- og efnahagsráðherra lýst sig andsnúna gerningnum. Bankasýsla ríkisins óð fram og krafðist þess að aðalfundi bankans yrði frestað og stofnuninni, sem fer með hlut ríkisins í bankanum, yrði gerð grein fyrir ferlinu, en af viðbrögðum forstjóra Bankasýslunnar mátti ráða að þar hafi menn komið að fjöllum þegar kaupin voru opinberuð.

Landsbankinn brást við áskorun Bankasýslunnar með bréfi til forstjórans, Jóns Gunnars Jónssonar, þar sem formaður bankaráðs Landsbankans, Helga Björk Eiríksdóttir, minnti Bankasýsluna á þau erindi sem stofnunin hafi fengið send vegna kaupanna. Til dæmis í tölvupósti sem Helga Björk sendi Bankasýslunni í júlí 2023 þar sem hún greindi frá því að Landsbankinn hefði sett sig í samband við Kviku banka og lýst yfir áhuga á að kaupa TM. Þennan póst hafi Bankasýslan fengið, enda staðfest móttöku og svarað án athugasemda. Formlegt söluferli hafi svo byrjað í nóvember og í desember hafi bankinn aftur upplýst Bankasýsluna, þá með símtali, að búið væri að skila inn óskuldbindandi tilboð í TM. Skuldbindandi tilboð var svo lagt fram um miðjan mars og Bankasýslan upplýstu tveimur dögum síðar þegar Kvika hafði gengið að tilboðinu.  Helga Björk sagði það afstöðu bankaráðs að það væri á þeirra forræði að taka ákvörðun um kaupin.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur eins vitað af kaupunum minnst frá því í febrúar þegar hún tjáði sig um þau í hlaðvarpi og sagðist ekkert sérlega hrifin. Næst hneykslaðist hún á kaupunum eftir að Kvika hafði samþykkt tilboð Landsbankans, og þá í færslu á Facebook. Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, gagnrýndi ráðherra í ræðu á Alþingi í síðustu viku. Líklega sé andstaða hennar fyrirsláttur enda hafi hún ekki beint neinum þeim valdheimildum sem hún hefur sem æðsti embættismaður fjármála ríkisins, heldur tjáð sig í hlaðvaðvarpi og á Facebook.

Ekki tekist að fylla rándýru Landsbankahöllina

Þorsteinn Sæmundsson, fyrrverandi þingmaður og stjórnarmaður Miðflokksins, blandar sér nú í umræðuna í grein sem hann birtir hjá Vísi.

„Eins og vant er hafa allir aðilar máls mundað fingurinn og benda sem ákafast hver á annan. Fer nú fram hefðbundin umræða um hver vissi hvað hvenær. Sökudólgaleit er einnig í fullum gangi í fjölmiðlum. Færri sögum fer ennþá af umboði stjórnenda Landsbankans til kaupanna sem hljóta að teljast meiriháttar fjármálagerningur. Einnig er uppi óvissa um hugsanlegan kostnað af því ef kaupunum verður rift. Kaup bankans á TM er enn eitt dæmið um gerninga embættismanna og starfsmanna ríkisins sem hafa takmarkað umboð.“

Ekki sé þetta í fyrsta sinn sem Landsbankinn er gagnrýndur fyrir meðferð á opinberum fjármunum. Ríkisendurskoðandi hafi fellt áfellisdóm í skýrslu árið 2016 um framgöngu bankans og starfsmanna hvað varðaði ráðstöfun ríkiseigna. Í kjölfarið sagði þáverandi stjórn bankans af sér í heilu lagi og bankastjóri hrökklaðist úr starfi. En þó breytingar væru gerðar á yfirstjórn hafi ekkert breyst. Nefnir Þorsteinn sem dæmi Landsbankahöllina veglegu við höfnina í Reykjavík á einni dýrustu lóð landsins. Ekki bæti úr skák að kostnaður við höllina hafi keyrt mikið fram úr áætlun. Svo til að kóróna vitleysuna hafi byggingin reynst of stór fyrir starfsemi bankans og hafi ríkissjóður þurft að leysa til sín helminginn. Enn sé þó ónýtt pláss i byggingunni og farið að ræða að leigja það á almennum markaði.

Þorsteinn segir að það þurfi að koma einu á framfæri sem ekki hafi borið á í umræðunni til þessa: „Það er sú staðreynd að kjörnir fulltrúar eiga enga aðkomu að eftirliti með bankanum. Þeim er ekki einu sinni hleypt inn á aðalfund bankans með málfrelsi. Það er í hæsta máta óeðlilegt þegar haft er í huga að almenningur á rúm 98 prósent í bankanum. Krafan hlýtur að vera sú að kjörnir fulltrúar sem sitja í umboði eigenda bankans eigi seturétt á hluthafafundum og aðalfundum bankans með málfrelsi. Ekki virðist veita að aðhaldi frá fulltrúum almennings með starfsemi bankans eins og dæmin sanna.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Þykir miður að kaupin á TM hafi orðið umdeild

Þykir miður að kaupin á TM hafi orðið umdeild
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Fyrrverandi forstjóri Reita: Hús eru byggð of þétt og of mikill hraði í byggingarframkvæmdum

Fyrrverandi forstjóri Reita: Hús eru byggð of þétt og of mikill hraði í byggingarframkvæmdum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Katrín og kosningastjórinn afsala sér biðlaunum

Katrín og kosningastjórinn afsala sér biðlaunum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Sagan muni dæma þau og tíminn leiða í ljós hvað það muni kosta Reykvíkinga – „Þetta eru daprir tímar“

Sagan muni dæma þau og tíminn leiða í ljós hvað það muni kosta Reykvíkinga – „Þetta eru daprir tímar“
EyjanPennar
Fyrir 4 dögum

Kristrún: „Þjóðin gerir kröfu um árangur“

Kristrún: „Þjóðin gerir kröfu um árangur“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ásakanir um lýðskrum og óráðsíu gengu á víxl á fundi borgarstjórnar og spurt hvort enginn viti hversu margir milljarðar eru farnir

Ásakanir um lýðskrum og óráðsíu gengu á víxl á fundi borgarstjórnar og spurt hvort enginn viti hversu margir milljarðar eru farnir