fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Eyjan

Segir gagnrýni minnihlutans ósanngjarna – „Rangt að halda því fram að við séum að svíkja tekjulág heimili“

Björn Þorfinnsson
Sunnudaginn 24. mars 2024 12:00

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, vísar þeirri gagnrýni alfarið á bug að Kópavogsbær sé að svíkja tekju- og eignaminni íbúa bæjarfélagsins með lóðaúthlutunum sínum. Bærinn sé þvert á móti að bjóða upp á fjölbreytta húsnæðiskosti sem mætir þörfum ólíkra hópa sem á sama tíma að gæta að fjárhagsstöðu bæjarins með ábyrgum hætti.

Segir Kópavogsbæ skila auðu varðandi húsnæði fyrir tekjuminni

Kópavogsbær úthlutaði í síðustu viku lóðum undir 184 íbúðir í Vatnsendahverfi, á sex fjölbýlishúsalóðum en um er að ræða fyrstu stóru lóðaúthlutunina í Kópavogi síðan 2015. Var það niðurstaða bæjarráðs að allar lóðirnar verða boðnar út og seldar hæstbjóðanda.

Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, bæjarfulltrúi Pírata, steig fram og gagnrýndi úthlutunina harkalega. Benti hún á að 35 prósent skattgreiðenda Kópavogsbæjar væru undir tekju- og eignamörkum og ekki væri gætt að því að hluti íbúðanna væru hagkvæmar og á viðráðanlegu verði fyrir þennan hóp. „Það er svívirðilegt að næststærsta sveitarfélag landsins skili endurtekið auðu þegar kemur að húsnæði fyrir tekju- og eignaminna fólk,“ sagði bæjarfulltrúinn.

Ósanngjörn gagnrýni að mati bæjarstjórans

Eins og áður segir telur Ásdís gagnrýnina ekki sanngjarna. Um sé að ræða fyrstu úthlutun af nokkrum í Vatnsendahverfi en í skipulagi hverfisins sé gert ráð fyrir fjölbreyttu framboði af eignum. Í úthlutunarskilmálunum birtast einnig markmið aðalskipulagsins um félagslega blöndun, m.a. með áskilnaði Kópavogsbæjar til þess að krefjast forkaupsréttar á allt að 4,5% byggðra íbúða undir félagslegt húsnæði.

Segir Ásdís að meiri- og minnihluta greinir á um leiðir að því marki hvernig allir geti eignast þak yfir höfuðið.

„Það virðist vera vilji Pírata, Viðreisnar, Samfylkingar og Vina Kópavogs að ríflega 30% af nýjum lóðaúthlutunum Kópavogsbæjar eigi að vera niðurgreiddar með einum eða öðrum hætti. Við í meirihlutanum höfum ekki trú á þessari stefnu minnihlutans enda ljóst að áhrifin yrðu verulega neikvæð á fjárhag bæjarins sem þyrfti að mæta með niðurskurði á þjónustu bæjarins eða skattahækkunum. Hér greinir okkur á en það er rangt að halda því fram að við séum að svíkja tekjulág heimili þótt okkur hugnist ekki þessi leið,“ segir Ásdís.

Skila sannarlega ekki auðu

Hún bendir á að Kópavogsbær sé í þessari úthlutun að bjóða uppá fjölbreytta húsnæðiskosti til að mæta þörfum ólíkra hópa, gert er ráð fyrir litlum íbúðum í fjölbýli, par- og raðhúsum ásamt einbýli og búsetukjarna fyrir fatlað fólk. Þá er gert ráð fyrir forkaupsrétti Kópavogsbæjar á félagslegu húsnæði í hverfinu en nú þegar á bærinn um 500 íbúðir í félagslega kerfinu og í samstarfi við Brynju hússjóð ÖBÍ.

„Við viljum stuðla að því að sem flestir geti eignast eigið húsnæði og það er best gert með því að auka framboð og stuðla að hraðri og hagkvæmri uppbyggingu. Það er ekki gert með því að auka framboð af niðurgreiddu leiguhúsnæði. Kópavogsbær er svo sannarlega ekki að skila auðu þegar kemur að fjölbreyttu framboði af nýjum húsnæðiskosti í Kópavogi,“ segir Ásdís

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Thomas Möller skrifar: Ísland á heima í ESB

Thomas Möller skrifar: Ísland á heima í ESB
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Stálin mættust stinn í gær – „Niðurstaðan af hvoru tveggja er að borgin er stjórnlaus“

Stálin mættust stinn í gær – „Niðurstaðan af hvoru tveggja er að borgin er stjórnlaus“