Viðreisn verður með uppstillingu á öllum listum sínum fyrir kosningarnar þann 30. nóvember. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Þetta ákváðu landshlutaráð sem ýmist funduðu í gær eða í kvöld. Mikil umræða fór fram á fundum og mikill hugur að stefna á prófkjör þegar rýmri tími gefst. Nú er þó stefnt að uppstillingu og hafa landshlutaráð kosið sér uppstillinganefndir sem hefja strax störf.
Í tilkynningu segir:
„Landshlutaráðin fimm hafa jafnframt kosið sér uppstillinganefndir, sem hefja strax störf. Þau sem áhugasöm eru um að vera á lista Viðreisnar í þessum kjördæmum geta skráð sig hér. Einnig er hægt að senda tölvupósta til eftirfarandi uppstillinganefnda:
Í Reykjavíkurkjördæmum: reykjavik@vidreisn.is
Í Suðvesturkjördæmi: sudvestur@vidreisn.is
Í Suðurkjördæmi: sudur@vidreisn.is
Í Norðvesturkjördæmi: nordvestur@vidreisn.is
Í Norðausturkjördæmi: nordaustur@vidreisn.is
Óskað er að tilnefningar berist fyrir laugardag, svo að uppstillinganefndir geti lokið störfum í næstu viku. Þá verða listar bornir undir landshlutaráð til samþykktar og stjórn Viðreisnar til staðfestingar. “
Viðreisn hlaut 8,3 prósent atkvæða í Alþingiskosningunum 2021 og bætti þar með við einum þingmanni frá fyrra kjörtímabili.
Samkvæmt nýjust mælingu Maskínu á fylgi flokkanna, frá í september, sögðust 11% þátttakenda ætla að kjósa Viðreisn, það sama sagði í nýjustu mælingu Prósent frá 5. október en flokkurinn mældist með 10% í nýjustu mælingu Gallup. Gangi þessi spá eftir í nóvember mun Viðreisn bæta við sig þingsætum.