Þetta sagði hann í sjónvarpsþættinum „Sunday Morning Future“ á Fox News á sunnudaginn. Hann sagði að ekki mætti útiloka að beita hernum gegnum þeim sem hann kallar „óvininn innanlands“ en það eru vinstri menn.
„Ég tel að stærsta vandamálið sé óvinurinn sem er í landinu okkar. Þetta er ekki einu sinni fólk sem hefur komið hingað og eyðilagt landið. Hér er um mjög slæmt fólk að ræða, við erum með mjög veikt fólk, öfgasinnaða brjálæðinga af vinstri vængnum. Ég tel að það eigi að vera miklu auðveldara að glíma við þá. Ef nauðsyn krefur með þjóðvarðliðinu og ef nauðsyn virkilega krefur með hernum,“ sagði forsetinn fyrrverandi.
Þjóðvarðliðið er hluti af bandaríska hernum. Þetta er varalið sem gegnir því meginhlutverki að aðstoða yfirvöld, takast á við hamfarir í landinu og taka þátt í hernaðaraðgerðum þegar nauðsyn krefur.
Trump lét fyrrgreind ummæli falla þegar hann var spurður hverju megi búast við á kjördeginum sjálfum en forsetakosningarnar fara fram 5. nóvember.