Heimsbyggðin fylgdist með í beinni útsendingu þegar stuðningsfólk Donald Trump réðst inn í bandaríska þinghúsið þann 6. janúar 2021. Æstur skríllinn braut sér leið inn í bygginguna og þingmenn urðu að leggja á flótta.
Meirihluti Bandaríkjamanna óttast að til ofbeldisverka geti komið í kjölfar forsetakosninganna í nóvember næstkomandi.
Reuters skýrir frá þessu en fréttastofan gerði skoðanakönnun um þetta í samvinnu við Ipsos.
68%, þeirra sem svöruðu, sögðust sammála þeirri fullyrðingu að þeir hafi áhyggjur af að öfgasinnar muni grípa til ofbeldis ef þeir verða ósáttir við úrslit kosninganna.
83% af aðspurðum Demókrötum voru sammála þessari fullyrðingu en hjá Repúblikönum var hlutfallið 65%.
Reuters segir að Donald Trump sé kominn nokkuð á veg með að skipuleggja hvernig hann mun véfengja úrslit kosninganna ef þau verða honum ekki í hag.
Í samtali við Time Magazine sagðist Trump ekki útiloka að til „pólitísks ofbeldis“ kunni að koma í tengslum við kosningarnar og sagði að það velti á „sanngirni“ úrslitanna.