Frjálslyndi flokkurinn er meðal annars ósáttur við að Trump hafi ekki gert nóg til að takmarka þær takmarkanir sem voru settar á tíma heimsfaraldursins. Óhætt er að segja að flokksmenn hafi látið Trump finna fyrir óánægju sinni með því að púa á hann og einnig hrópaði einn ráðstefnugesta að réttast væri að skjóta Trump.
Aðeins örfáir fundarmenn fögnuðu Trump.
Trump, sem var forseti frá 2017 til 2021, nefndi í ræðu sinni þau 88 ákæruatriði sem hann stendur frammi fyrir í fjórum sakamálum og sagði að vegna þeirra væri hann nú orðinn frjálslyndur, ef hann hafi þá ekki verið það fyrir. Þar vísar hann væntanlega til hinnar klassísku frjálslyndu stefnu um frelsi einstaklingsins.
Hann lét auðvitað ekki hjá líða að gagnrýna Joe Biden, núverandi forseta og andstæðing hans í forsetakosningunum í nóvember.
Trump kom fram á ráðstefnunni til að reyna að sannfæra flokksmenn um að kjósa sig í nóvember.
Frjálslyndi flokkurinn á mun meira sameiginlegt með Repúblikanaflokknum en Demókrataflokknum hvað varðar pólitísk stefnumál, sérstaklega hvað varðar skattamál.
Flokkurinn fékk 1,2% atkvæða í forsetakosningunum 2020 en það eru um 1,8 milljónir atkvæða.
Reiknað er með að kosningarnar í nóvember verði hnífjafnar og hugsanlega munu nokkrir tugir þúsunda atkvæða ráða úrslitum.