Byggði skýrsla KPMG á röngum forsendum? Eru Reykvíkingar að fara að borga hálfan milljarð meira en lagt var út með? Stefnir í stórtjón? Tíminn mun svara þessum spurningum þar sem nú hefur seinasti naglinn verið rekinn í kistu Borgarskjalasafns, en Svanhildi Bogadóttur, borgarskjalaverði, var veitt laust frá störfum á fundi borgarráðs í dag.
„Ég vil láta ykkur vita að starf borgarskjalavarðar hefur verið lagt niður og hef ég látið af störfum eftir 36 ára starfsferil á safninu. Þetta er skrítin tilfinning,“ skrifaði Svanhildur til vina sinna á Facebook í dag. Í athugasemdum lýsa vinir furðu sinni á því að þetta sé að eiga sér stað.
„Þetta eru daprir tímar,“ segir sagnfræðingurinn Sigurður Gylfi Magnússon sem niðurlagninguna þeim sem að ákvörðuninni komu til háborinnar skammar.
Gagnrýnandinn Jón Viðar Jónsson segir að sagan muni dæma meirihlutann og fyrrum ráðherra, Björn Bjarnason, segir meirihlutan sýna metnarleysi og lítilmennsku.
Fyrrum borgarstjóri Ólafur F. Magnússon segir engan embættismann hafa staðið sig betur í starfi en Svanhildi og Kjartan Magnússon, þakkar henni fyrir afar vel unnin störf í þágu borgarinnar og segir sorglegt hvernig staðið var að málum.
„Sorglegt þegar stjórnmálamenn skilja ekki, að sagan mun dæma þá,“ segir ljóðskáldið Pjetur Hafstein Lárusson.
Eins og áður segir var Svanhildi veitt lausn frá störfum í borgarráði í dag.
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks ítrekaði mótmæli flokksins við ákvörðuninni í bókun. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins sparaði ekki stóru orðin og sagði skandall hvernig gengið hafi verið fram til að þvinga fram þessa niðurstöðu.
„Þá hefur sviðsstjóra þjónustu- og nýsköpunarsviðs með stuðningi meirihlutans og KPMG tekist að flæma borgarskjalavörð úr starfi. Fulltrúi Flokks fólksins þekkir vel til þessa máls og veit hvernig staðið var að því og hvaða aðferðir voru notaðar til að þvinga fram þessa niðurstöðu.
Það er auk þess skandall að sviðsstjóri hefur bannað borgarskjalaverði, fyrrverandi, að koma á safnið. Hvað er eiginlega hér í gangi? Flokki fólksins blöskrar hvernig komið hefur verið fram við borgarskjalavörð sem fagmann og manneskju. Þetta er aðeins einn af mörgum tugum starfsmanna sem sparkað hefur verið úr starfi nánast fyrirvaralaust.
Það eru ófá dæmi þess í borginni þar sem meirihlutinn hefur farið illa með starfsfólk. Það er fyrir löngu ljóst að meirihlutinn var áfjáður í að losa sig við borgarskjalavörð sem féll í ónáð þegar hún réðst í að gera frumkvæðisathugun í hinu svokallaða braggamáli þar sem fram kom að farið hafði verið á svig við lög.
Fleiri bentu á tengsl málefna braggans og niðurlagningar Borgarskjalasafns, svo sem í pistli Björns Bjarnasonar fyrrum menntamálaráðherra frá 18. febrúar 2023 með yfirskriftinni „Braggi lokar Borgarskjalasafni“. Flutningur gagna safnsins yfir í Þjóðskjalasafn á eftir að verða kostnaðarsamur enda líkur á að rukkað verði fyrir flutning skjala í Þjóðskjalasafnið.“
Árum saman hefur legið fyrir að héraðsskjalasafn Reykjavíkur, Borgarskjalasafn, þyrfti að komast í nýtt húsnæði, enda telur safnkosturinn 10,5 hillukílómetra. Voru þá góð ráð dýr. Borgin fékk KPMG til að gera valkostagreiningu um framtíðarfyrirkomulag. Samkvæmt greiningu myndi það kosta borgina á bilinu 7,5-7,9 milljarða að koma rekstri safnsins í rétt horf á nýjum stað. Hins vegar myndi það aðeins kosta 1,5 milljarð að flytja verkefni safnsins til Þjóðskjalasafns Íslands og leggja Borgarskjalasafn niður.
Út frá þessu virtist liggja beinast við að leggja safnið niður og var það lending borgarinnar. En í kjölfarið kom fram hörð gagnrýni á greininguna sem hafi í engu tekið tillit til hlutverks safnsins í menningarvernd og auk þess var talið að KPMG hefði farið full frjálslega með staðreyndir.
Borgarskjalavörður gerði alvarlegar athugasemdir við greininguna. Þar hafi verið ofætlaður kostnaður við að halda rekstrinum gangandi og á sama tíma hafi kostnaður við að flytja safnið til ríkisins verið gróflega vanmetinn.
Héraðsskjalaverðir annarra sveitarfélaga tóku undir gagnrýnina, sem og sagnfræðingar, bókmenntafræðingar og aðrir sem láta sér ant um menningararf þjóðarinnar. Borgarfulltrúar í minnihluta furðuðu sig á þeirri fljótfærni að ráðast í að leggja niður héraðsskjalasafn borgarbúa án þess að hafa nokkra hugmynd um hvort það væri yfir höfuð skynsamlegt. Borgarskjalavörður benti á að þegar metið var hvað það myndi kosta að færa Héraðsskjalasafn Akraness til Þjóðskjalasafns árið 2021 var reiknað með að það myndi kosta 42,6 milljónir að flytja 811 hillumetra safnsins. Við það myndi bætast kostnaður við flutning skjala með flutningabílum sem og mögulegur kostnaður vegna fyrirvara um ástand safnkost og geymsluskráa.
Borgarskjalasafn telur 10.500 hillumetra. Út frá þeim tölum sem gengið var út frá hjá Akranesi þá myndi flutningur kosta Reykjavík 636,5 milljónir. KPMG hafi aðeins reiknað með tæplega 130 m.kr. Þjóðskjalasafn greindi Kópavogsbæ frá því að reikna megi að 10 hillumetrar af skjölum komist á eitt vörubretti og það taki um 2 vinnustundir fyrir einn starfsmann að gera hvert vörubretti tilbúið til flutnings og raða svo skjölum af því í hillur. Svo fyrir Reykjavík yrðu þetta 1050 vörubretti og 2100 vinnustundir. Við það bætist kostnaður við flutningabíla og kostnaður við að grisja skjöl.
Eins var bent á að Þjóðskjalasafn hafði upplýst borgina að kæmi til flutnings þá yrði líklegast bætt við heimildir til gjaldheimtu með tilheyrandi gjaldskrárhækkun. Þar með ætti mat KPMG ekkert skylt við raunveruleikann. Ekki frekar en það mat að safnið væri að fara að bæta við starfsmönnum svo launakostnaður hækkaði um rúm 50 prósent. Slíkt stæði ekki til. Eins væri gert ráð fyrir innir leiga safnsins hækkaði um rúm 400 prósent á þeim tíma sem KPMG áætlaði að framtíðarhúsnæði þess væri enn í byggingu. Héraðsskjalaverðir Kópavogs og Árnesinga sögðu stefna í stórtjón fyrir borgarbúa.
Ítrekað hefur verið lagt að meirihlutanum að staldra við og undirbyggja ákvörðunina betur, í það minnsta að fá kostnaðinn á hreint. En ákvörðunin stóð.
Tilfærslunni var hrint af stað um áramótin þegar Þjóðskjalasafn byrjaði formlega að taka við gögnum frá borginni og varð um leið eftirlitsaðili skjalavörslu og skjalastjórnar Reykjavíkurborgar. Þjóðskjalasafn, samkvæmt upplýsingasíðu um tilfærsluna, framkvæmir eftirlit meðal annars með rafrænum eftirlitskönnunum, eftirlitsheimsóknum og frumkvæðisathugunum. Vefur borgarskjalasafns verður þó haldið opið út árið áður en Þjóðskjalasafn tekur formlega við honum.
Nú mun tíminn leiða í ljós hvort flutningurinn muni kosta 130 milljónir eða rúman hálfan milljarð og eins hvað borgin mun þurfa að borga Þjóðskjalasafni fyrir að geyma skjöl borgarbúa.