Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, segist furðu lostinn yfir því að stjórnmálamenn láti það átölulaust að vextir hér á landi séu í hæstu hæðum. Tilefnið er umfjöllun Heimildarinnar þar sem fram kemur að vaxtagjöld heimil á Íslandi jukust um 39 milljarða á síðasta ári og voru í heildina 125,3 milljarðar króna.
„Hérna sjáið þið þá sturlun sem er í gangi í íslensku samfélagi og hvernig Seðlabankinn og fjármálakerfið níðast á íslenskum heimilum. Það sorglega er að þetta er gert með fullkomnu aðgerðaleysi stjórnvalda og stjórnmálamanna,“ skrifar Vilhjálmur í færslu á Facebook-síðu sinni.
Til þess að setja upphæðina í samhengi bendir Vilhjálmur á að nýgerðir kjarasamningar, sem helstu verkalýðsfélög landsins hafa skrifað undir við Samtök atvinnulífsins, kostuðu um 50 milljarða króna..