Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, segir dapurlega viku að baki fyrir alla þá sem aðhyllast minni ríkisafskipti. Tilefnin eru tvö, kaup Landsbankans á TM tryggingum og breytingar á búvörulögum sem heimila afurðastöðvum aukið verðsamráð og markaðssamvinnu.
Þetta kemur fram í aðsendri grein Sigmars á Vísir.is. Hann skrifar:
„Í vikunni eignaðist ríkið tryggingafélag, þrátt fyrir að ekki nokkur maður hafi kallað eftir því að ríkið færi í samkeppni við einkaaðila um ferðatryggingar til Tene og gæludýratryggingar. Í vikunni var líka samþykkt að kjötafurðarstöðvar megi hafa með sér samráð um verð og verkaskiptingu. Breytingarnar heimila líka öllum á þessum markaði að sameinast í eitt einokunarfyrirtæki, ef mönnum sýnist svo.
Þetta þýðir í reynd að Kaupfélag Skagfirðinga, SS, Matafjölskyldan og fleiri mega framvegis eiga með sér samskonar samráð og Samskip og Eimskip hafa fengið milljarða sektir fyrir vegna tjóns almennings sem metið er á rúma 60 milljarða. Ólöglegt samráð er orðið löglegt á þessum markaði og Samkeppniseftirlitinu gert að hætta að skipta sér af því sem þar fer fram. Það sem er glæpur á flestum mörkuðum er núna fullkomlega löglegt þegar um er að ræða kjöt og mjólk. Eina leiðin til eiga smá möguleika á að losna undan kjötsamráði og mjólkureinokun á Íslandi er að gerast vegan.“
Sigmar bendir á að ASÍ, Samkeppniseftirlitið og Neytendasamtökin telji breytinguna á búvörulögunum vinna gegn markmiðum nýgerðra kjarasamninga. Breytingin dragi úr samkeppni og eyði henni jafnvel alveg.
Hann kallar jafnframt kaup Landsbankans, sem er í eigu ríkisins, á TM sorglegan farsa. Enginn hafi kallað eftir því að ríkið haslaði sér völl á tryggingamarkaði. Ábyrgðin á því að koma í veg fyrir gerninga af þessu tagi með vönduðu regluverki sé á herðum stjórnvalda og fjármálaráðherra úr röðum Sjálfstæðismanna.
Sigmar segir ennfremur:
„Þetta er sem sagt vikan sem færði okkur einokunarkjöt og tryggingafélag ríkisins. Sjálfstæðisflokknum vil ég óska til hamingju. Að ríkisvæða tryggingafélag og tryggja einokun milliliða í landbúnaði á örfáum dögum, er dágott verk á ekki lengri tíma.“