fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Eyjan

Björn Jón skrifar: Misbeiting valds þarf að hafa afleiðingar

Ritstjórn Eyjunnar
Sunnudaginn 17. mars 2024 16:00

Einn kunnasti lögspekingur endurreisnaraldar, Prospero Farinacci, í túlkun ítalska málarans Cavalier d‘Arpino (Giuseppe Cesari). Olíumálverk frá árinu 1607 í eigu ítalska þjóðlistasafnsins í Róm.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á endurreisnartímanum var lögfræði fornaldar enduruppgötvuð og í kjölfarið betrumbætt. Fáir lögðu jafnríkan skerf til hins nýja réttar og ítalski lögfræðingurinn Prospero Farinacci (1554–1618). Hann var einn frægasti málflytjandi sinnar tíðar og síðar dómari, en kunnastur er hann fyrir stórvirki sitt á sviði sakamálaréttarfars og refsiréttar, Praxis et theorica criminalis, sem út kom á löngu árabili. Ýmsar þær meginreglur sem hann orðar í verkum sínum eru enn í fullu gildi. Í einni bóka Farinacci, Variæ Quæstiones frá 1581, segir: „Primum inquisitionis requisitum est probatio corporis delicti“, sem myndi útleggjast sem svo að fyrsta verkefni rannsóknar í sakamáli sé að sannreyna að verknaðurinn hafi verið framinn. Meginreglan er oftar orðuð í styttri mynd: corpus delicti, þ.e. framinn verknaður. Í rétti Engilsaxa verður til dæmis líkið venjulega að liggja fyrir svo unnt sé að sakfella fyrir morð.

 

Enginn „verknaður“ framinn

Á dögunum kom út bók mín Seðlabankinn gegn Samherja – Eftirlit eða eftirför? Ég fjalla þar um áralangan málarekstur Seðlabankans gegn Samherja sem hófst með einni umfangsmestu húsleit Íslandssögunnar sem ríkissjónvarpið myndaði í bak og fyrir (að höfðu samráði við embættismenn í Seðlabankanum) og flutti af fréttir með hástemdum yfirlýsingum um hin meintu afbrot.

Hálfum mánuði eftir húsleitirnar, eða í apríl 2012, fékk lögmaður Samherja afhent þau gögn sem Seðlabankinn hafði lagt fram með beiðnum til Héraðsdóms um heimild til húsleitar og haldlagningar gagna. Þegar starfsmenn Samherja könnuðu gögnin rákust þeir á ótrúlega villu sem í reynd var sáraeinföld. Seðlabankinn hafði í útreikningum sínum engan greinarmun gert á litlum og stórum sendingum. Litlar sendingar með sérvöldum fiski, sem vógu jafnvel aðeins örfá kílógrömm, voru eðli máls samkvæmt seldar á mun hærra verði per þyngdareiningu en margra tonna sendingar af mismunandi fiski. Hér bættist við að flutningsskilmálar, tímasetning, aldur, stærð og gæði fisks geta haft veruleg áhrif á verð — en Seðlabankinn hafði ekkert tillit tekið til þessa í útreikningum sínum.

Þegar rétt var reiknað hvarf verðmunurinn og þar með grundvöllur Seðlabankans fyrir húsleitinni. Menn veltu því eðlilega fyrir sér hvernig sérfræðingar bankans sem ættu að vera talnaglöggir menn hefðu geta gert slík grundvallarmistök. Eftir sat að enginn „verknaður“ hafði verið framin eða það sem Farinacci kallaði corpus delicti og er í öllum réttarríkjum talin forsenda þess að mál sé tekið til rannsóknar.

Í nágrannaríkjum okkar hefðu slík mistök leitt til þess að rannsókn máls hefði verið felld niður og hlutaðeigandi beðnir afsökunar — stjórnendur rannsóknar jafnvel látnir taka pokann sinn. Slíku var ekki að heilsa hér. Þvert á móti hjó Seðlabankinn ítrekað í sama knérunn næstu árin í stað þess að játa eigin mistök — en líklega er nær að tala um misgjörðir. Ekki stóð steinn yfir steini í ásökunum bankans en þó hafa angar þessa máls verið teknir fyrir hjá dómstólum alls 23 sinnum, þar af hafa mál þessu tengd ratað níu sinnum fyrir Hæstarétt. Kostnaðurinn er óheyrilegur að ekki sé minnst á þann miska sem fólki var valdið að ófyrirsynju.

 

Að bæta fyrir misgjörðir

Fyrir réttum áratug höfðaði norska efnahagsbrotastofnunin (Økokrim) mál gegn tveimur fyrirtækjum Transocean-samsteypunnar og þremur ráðgjöfum að auki, en í fjölmiðlum var gjarnan talað um málið sem stærsta skattsvikamál í sögu Noregs. Því var haldið fram í ákærunum að vantaldar tekjur hefðu numið ellefu milljörðum norskra króna og að vangreiddur skattur með álagi og vöxtum næmi um sjö milljörðum norskra króna.

Sakadómur í Ósló sýknaði alla hina ákærðu með dómi sem kveðinn var upp 2. júlí 2014 en talið var sannað að engin skattsvik hefðu verið framin. Økokrim áfrýjaði dómnum en dró áfrýjunina til baka 13. janúar 2016 og dómur sakadóms í Ósló því endanlegur. Trond Erik Schea, forstöðumaður Økokrim, bað fyrrum sakborninga formlega afsökunar og skipuð var rannsóknarnefnd á vegum ríkissaksóknara Noregs sem fór ofan í saumana á málinu. Í dómsmálanefnd Stórþingsins var enn fremur rætt um að endurmeta þyrfti starfsemi Økokrim í ljósi þessa máls sem verið hafði til rannsóknar frá því í janúar 2005.

Einum hinna ákærðu í málinu voru dæmdar bætur að fjárhæð 20 milljónir norskra króna vegna tapaðra tekna og öðrum voru dæmdar 6,6 milljónir. Árið 2018 gerði norska ríkið sátt við Transocean og fékk fyrirtækið greiddar 30 milljónir norskra króna í bætur. Alls námu bætur norska ríkisins vegna þessa máls á þriðja hundrað milljónum norskra króna eða semsvarar um 3,8 milljörðum íslenskra króna.

Í Noregi horfðust stjórnvöld í augu við misgjörðir sínar og menn öxluðu ábyrgð á þeim. Hér er málum öðruvísi farið. Tryggvi Gunnarsson, þáverandi umboðsmaður Alþingis, fjallaði um óvandaða stjórnsýslu Seðlabankans á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í marsmánuði 2019. Þar varð honum að orði að refsiheimildir væru ekki tilraunastarfsemi. Menn yrðu að gera sér ljóst hversu alvarlegt inngrip þær væru í líf fólks: „Við getum ekki haldið áfram að böðlast á borgurunum af því að stoltið er svo mikið. Stoltið má ekki bara menn ofurliði.“

 

Hvað með réttarríkið?

John Finnis er líklega nafntogaðist réttarheimspekingur okkar samtíma en hann gegndi stöðu prófessors við Oxford-háskóla um áratugaskeið. Líkt og lögspekingar á ýmsum tímum hefur hann sett fram skilyrði þess að ríki geti talist réttarríki. Eitt meginskilyrðanna er að hans mati að þeir sem hafa umboð ríkisvaldsins til að framfylgja og beita lögunum beri ábyrgð á eigin starfi í samræmi við lög og fylgi lögunum eftir formi og efni.

Svo sem sjá má að af dæminu frá Noregi er ráðamönnum þar í landi mjög í mun að játa mistök og bæta tjón það sem stjórnvöld valda — hafi þau ekki fylgt lögunum. Mér virðist sem sú tilhneiging hér á landi að ráðamenn játi ekki mistök eigi sér að einhverju marki rætur í vanþekkingu — menn séu að breiða yfir þekkingarleysi í stað þess að afla sér þekkingar og sækja sér fyrirmyndir um vandaða stjórnsýsluhætti líkt og þeir gerast bestir hjá þeim þjóðum sem við helst viljum bera okkur saman við. Í þessu, líkt og svo mörgu, hafa Íslendingar orðið viðskila við aðrar norrænar þjóðir — einangrað sig í fámenninu.

Og embættismenn mega ekki halda áfram að böðlast á borgurunum, eins og fyrrverandi umboðsmaður orðar það. Réttarríkið krefst þess að þeir fylgi lögum og axli ábyrgð hafi þeir misfarið með þær valdheimildir sem þeim eru búnar.

Allur almenningur ætti að láta sig þessi mál varða því ef við látum misbeitingu valds lýðast gagnvart einum aðila vitum við ekki nema spjótin beinist næst að okkur sjálfum. Fyrr en varir verður réttarríkið farið veg allrar veraldar.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Brynjar Níelsson: Mistök að leyfa þjóðinni ekki að ákveða hvort hún vildi fara inn í Evrópusambandið – Viðreisn þurfti ekki að verða til

Brynjar Níelsson: Mistök að leyfa þjóðinni ekki að ákveða hvort hún vildi fara inn í Evrópusambandið – Viðreisn þurfti ekki að verða til
Eyjan
Fyrir 3 dögum

KAPP kaupir bandarískt fyrirtæki í Seattle

KAPP kaupir bandarískt fyrirtæki í Seattle
Eyjan
Fyrir 1 viku

Björn saknar Óla Björns – „Það munar misjafnlega mikið um framlag þeirra sem hverfa úr þingsölunum“

Björn saknar Óla Björns – „Það munar misjafnlega mikið um framlag þeirra sem hverfa úr þingsölunum“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Birgir segir að Þórður Snær sé réttkjörinn: „Þetta á sér ekki fordæmi svo ég viti til“

Birgir segir að Þórður Snær sé réttkjörinn: „Þetta á sér ekki fordæmi svo ég viti til“