„Mér þykir vænt um Ísafold eins og fjarlæga stjörnu eða fallegan draum.“ Með þessum orðum kynnti ungur maður sig í bréfi til mín sumarið 1991. Hann bjó þá í Georgíu, landi sem fékk sjálfstæði við upplausn og hrun Sovétríkjanna síðar um árið,“
segir Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands í færslu á Facebook þar sem hann rifjar upp fyrstu kynni sín af Georgíumanninum og Íslandsvininum, en Guðni stundaði þá háskólanám í Englandi. Þar kynntist hann hópi nemenda frá Georgíu sem þar voru í stuttri heimsókn.
„Þau sögðu mér frá miklum Íslandsvini heima í Tbílísi, höfuðborg landsins. Hann hefði kennt sjálfum sér íslensku með lestri fornsagna og vildi framar öllu komast til Íslands. Ég sendi honum línu og nokkru síðar barst mér bréf frá Tbílísi. Bréfritarinn var Grigol Matchavariani og lýsti hann ást sinni á íslenskum sagnaarfi og menningu og allt skrifaði hann á fallegri en fornlegri íslensku. Meðal annars spurði hann um leiðir til að komast til Íslands, hann skyldi vinna við hvað sem er um leið og hann myndi þýða íslenskar og georgískar bókmenntir til að efla samband þjóðanna tveggja.
Ég heillaðist en vissi ekki alveg hvað gera skyldi. Ég ráðlagði Grigol þó að skrifa Velvakanda Morgunblaðsins og forsætisráðherra sem þá var Davíð Oddsson. Til að gera langa sögu stutta lét Davíð styðja Grigol til Íslandsferðar og reyndist hann happafengur, eignaðist hér marga vini og sat svo sannarlega ekki auðum höndum, þýddi verk af miklum móð. En svo kom reiðarslag. Í ferð heim til Tbílísi árið 1996 var ekið á hann á götu úti og varð það honum að aldurtila.“
Mæðgurnar Irma og Tamar Matchavariani fluttu til Íslands eftir andlát Grigol, en Tamar var á sjötta ári þegar faðir hennar lést, eins og segir í frásögn Mbl.is árið 2017.
Guðni var í opinberri heimsókn til Georgíu í síðustu viku. „Vitjaði ég grafar Grigols og lagði íslenskt sjávargrjót að legstein hans. Mér þótti vænt um að geta þannig heiðrað minningu þessa ljúfa manns, útlendings sem elskaði Ísland og bætti okkar samfélag þegar hans naut við. Sama gerðu og gera kona hans og dóttir, Irma og Tamar, sem búa enn hér á landi. Og við njótum starfa Grigols Matchavariani, þýðinga og skrifa sem tengja þessi tvö smáríki saman, Ísland og Georgíu.“