Talsverðar umræður hafa skapast varðandi samanburð á smáríkjunum Lúxemborg og Ísland í kjölfar aðsendrar greinar Róberts Björnssonar á Vísi í vikunni þar sem hann mærði landlukta stórhertogadæmið og framsýni stjórnvalda þar í ýmsum málum. Íbúum þar hefur fjölgað ört síðasta aldarfjórðunginn en Róbert fullyrðir að þar verði hann ekki var við það álag á innviði sem hér ríki.
Gunnar Smári Egilsson, sósíalistaforingi, er einn þeirra sem blandaði sér í umræðuna en hann komst að þeirri niðurstöðu að ef íbúaþróun á Íslandi hefði verið sú sama og í Lúxemborg þá byggju hér um 435 þúsund manns, um 48 þúsund fleiri en raun er.
„Íslensk stjórnvöld hafa mætt fjölgun landsmanna með hrópum og köllum, en ekki byggt upp húsnæði, innviði og grunnkerfi eins og stjórnvöld í Lúxemborg. Ef stjórnvöld í Lúxemborg væru jafn ábyrgðarlaus og heimsk og á Íslandi væri þar 50 þúsund manns á götunni, búandi í tjöldum undir brúm. Skóla- og heilbrigðiskerfi væri hrunið. Fólk þyrfti að bíða í ár eftir tíma hjá heimilislækni. Þetta er munurinn á löndunum tveimur. Vandinn tengist ekki fjölgun landsmanna heldur heimsku, fyrirhyggjuleysi og ábyrgðarleysi stjórnvalda. Þar eigum við heimsmet, sitjum uppi með stjórnmálastétt sem kennir fólki um veika innviði, að það sé of margt, hafi fjölgað of hratt. Og finnur enga sök hjá sjálfum sér fyrir að hafa sofið á verðinum, rætt og hugsað um allt sem engu skiptir en aldrei um það sem mestu skiptir. Sem er að byggja upp sterkt, öruggt, öflugt og gott samfélag,“ skrifar Gunnar Smári.
Að hans mati er enginn innflytjendavandi á Íslandi heldur sé vandinn stjórnmálalegur.
„Þið hafið kosið yfir ykkur ábyrgðarlaust fólks sem kennir svo öðrum um þegar afleiðingar ábyrgðarleysis þess afhjúpast. Þetta er ábyrgðarlaust fólk og siðlaust. Og heimskt. Hingaðkoma fólks frá útlöndum hefur bjargað íslensku samfélagi frá því að koðna undan umönnun barna og aldraða. Innfæddir eru of fáir á vinnualdri til að halda uppi velferðarríki. Án innflytjenda myndi velferðarríkið hrynja,“ skrifar Gunnar Smári og bendir á að þrátt fyrir þetta gaspri fólk á þingi um að innflytjendur grafi undan velferðarsamfélaginu.
„Hvílík heimska! Það er engin takmörk fyrir heimsku íslenskrar stjórnmálastéttar. Hún er óþrjótandi. Og endurnýjanleg auðlind. Því meiri heimska sem vellur út, því meiri heimska verður til,“ skrifar sósíalistaforinginn.