Talið var að möguleikar hennar á að sigra Trump í forvali væru mestir í New Hampshire en það fór svo að Trump sigraði en munurinn á milli þeirra var minni en spáð hafði verið. Haley fékk einfaldlega hærra hlutfall atkvæða en skoðanakannanir bentu til.
Þegar hún ávarpaði stuðningsfólk sitt, eftir að niðurstaðan var ljós, sagði hún að baráttunni væri langt frá því lokið.
Það er auðvitað rétt hjá henni að ekki er útilokað að hún geti sigrað Trump en mat stjórnmálaskýrenda er að hún hafi að hámarki eitt tækifæri til að halda í vonina um að geta sigrað Trump. Hún verður einfaldlega að sigra í forvalinu í heimaríki sínu, Suður-Karólínu, eftir einn mánuð.
Það er ein af hinum óopinberu reglum í bandarískum stjórnmálum að ef frambjóðandi tapar í heimaríki sínu, þá sé það skýrt merki frá kjósendum um að baráttan sé töpuð. Það er því um líf eða dauða að tefla fyrir framboð Haley þegar kosið verður í Suður-Karólínu.
Áður en kosið verður þar velja Repúblikanar í Nevada og Bandarísku Jómfrúaeyjum forsetaframbjóðanda sinn en sjónir flestra beinast nú þegar að Suður-Karólínu.