Ó. Ingi Tómasson, fyrrverandi bæjarfulltrúi í Hafnarfirði, vill sameina heimabæinn sinn og Garðabæ. Þetta kemur fram í aðsendri grein á Vísir.is.
Ingi segir að þegar litið sé til samgangna og annarra innviða sé skynsamlegt að bæirnir sameinist í uppbyggingu á svæðum sem liggja vel við samgöngum og öðrum innviðunm.
Ingi segir ennfremur:
„Með sameiningu sveitarfélaganna gæti styrkur nýs sveitarfélags til þjónustu við íbúa og fyrirtæki orðið enn öflugri en nú er, má þar t.d. nefna þjónustu við aldraða og fatlaða, heilsugæslu, skóla og leikskóla. Uppbygging nýrra íbúða í nýju sveitarfélagi yrði að mestu nálægt núverandi innviðum, svo sem gatna- og stofnvegakerfi, skólum og leikskólum svo og veitukerfi. Orð eru til alls fyrst og því ekkert sem mælir gegn því að samtalið á milli þessara sveitarfélaga sé tekið með hagsmuni íbúa að leiðarljósi.“