fbpx
Þriðjudagur 05.mars 2024
Eyjan

Þetta eru ákvæðin sem voru felld úr siðareglum ráðherra

Eyjan
Föstudaginn 8. desember 2023 16:05

Stjórnarráðið.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Endurskoðun siðareglna ráðherra hófst haustið 2022, en Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, skipaði starfshóp til verksins. Starfshópurinn tók einnig að sér endurskoðun siðareglna starfsfólks Stjórnarráðsins með það fyrir augunum að tryggja heildarsýn og samræmi.

Endurskoðaðar siðareglur ráðherra byggja á tillögum starfshópsins og á vinnufundi ráðherra sem var haldinn í ágúst. Reglurnar taka saman helstu skyldur ráðherra í starfi, en þær hafa í mörgum tilfellum augljós tengsl við lagareglur. Siðareglurnar eru í þeim tilvikum lagaákvöðum til fyllingar og leiðbeina um efni þeirra.

Helstu breytingar

Siðareglurnar nýju eru um margt áþekkar þeim sem áður giltu. Þó hafa nokkrar breytingar átt sér stað. Til dæmis var áður tekið fram að ráðherra megi ekki þiggja greiðslur fyrir önnur tilfallandi verkefni nema þær séu innan hóflegra marka og að fengnu samþykki forsætisráðuneytis. Nú segir bara að ráðherra megi ekki hafa með höndum störf eða verkefni sem eru ósamrýmanleg embætti hans.

Áður sagði að ráðherrastarf ásamt þingmennsku væri fullt starf og ráðherra geti ekki gegnt öðrum störfum samhliða. Um þetta er ekki fjallað í siðareglum eftir breytingu.

Áður sagði í siðareglum að ráðherra megi að jafnaði ekki þiggja boðsferðir af einkaaðilum nema opinberar embættisskyldur séu hluti af dagskrá ferðarinnar. Eftir breytinguna er ekkert fjallað um boðsferðir.

Eftirfarandi reglur eru eins dottnar út eftir breytingu:

  • Ráðherra forðast allt athæfi sem líklegt er til að vekja grunsemdir um að hann notfæri sér stöðu sína í eiginhagsmunaskyni
  • Ráðherra gætir þess að framganga hans gefi starfsmönnum ekki tilefni til að ætla að litið verði framhjá brotum á lögum eða siðareglum.
  • Ráðherra gætir jafnræðis þegar kemur að því að greiða götu einstakra fyrirtækja á erlendum vettvangi
  • Ráðherra gætir þess að rýra ekki virðingu embættis síns með ámælisverðri framkomu, skeytingarleysi um lög eða virðingarleysi við manngildi og mannréttindi.
  • Ráðherra leynir ekki upplýsingum sem varða almannahag nema lög bjóði eða almannahagsmunir krefjist þess að öðru leyti. Ráðherra ber að hafa frumkvæði að birtingu slíkra upplýsinga sé hún í almannaþágu.
  • Ráðherra leitast við að að eiga greið og opin samskipti við frjáls félagasamtök, fagfélög og hagsmunahópa með almannahagsmuni að leiðarljósi.
  • Ráðherra skal sýna samstarfsvilja séu störf hans tekin til skoðunar af hálfu Alþingis eða eftirlitsstofnana þess og eins þegar þingmenn óska eftir upplýsingum á grundvelli laga um þingsköp.

Stuðla að trausti

Segir í inngangi siðareglna að þær veiti leiðsögn um það hvers konar framganga hæfir svo veigamiklu embætti. Reglurnar gefa almenningi eins kost á að bera hegðun ráðherra saman við skráðar og óskráðar reglur. En þeim er ætlað að stuðla að trausti almennings á stjórnsýslunni. Setningin um traust kemur ný inn í siðareglurnar eftir breytinguna.

Næst er fjallað um frumskyldur ráðherra. Ráðherra ber að hafa almannahagsmuni ávallt að leiðarljósi í störfum sínum. Þeim ber að hafa í heiðri lýðræðisleg gildi, mannréttindi og meginreglur réttarríkisins. Ráðherra starfar í anda gagnsæis, sannsögli, ábyrgðar og heilinda. Ráðherra sinni starfi sínu af alúð, trúmennsku og heiðarleika. Hann beiti því valdi er fylgir embætti hans á grundvelli laga og stjórnarskrá af hófsemi og sanngirni og án tillits til eigin hagsmuna.

Hagsmunatengsl

Svo er fjallað um hagsmunatengsl og hagsmunaárekstra. Þar segir strax að ráðherra notfærir sér ekki stöðu sína í eiginhagsmunaskyni eða í þágu tengdra aðila. Hann forðist árekstra milli almannahagsmuna annars vegar og fjárhagslegra eða persónulegra hagsmuna sinna eða fjölskyldu sinnar hins vegar. Ráðherra gæti þess að persónuleg tengsl hafi ekki áhrif á störf hans, og ef það er óhjákvæmilegt þá upplýsi hann um hagsmunaárekstur. Ráðherra hafi ekki uppi störf sem eru ósamrýmanleg embætti hans. Hann gæti hófs í viðtöku gjafa og þiggi ekki verðmætar gjafir persónulega í krafti embættis síns. Halda skal skrá um gjafir til ráðherra og skal hún birt opinberlega. Eins ber ráðherra að beita sér fyrir því að tekið sé á hagsmunaárekstrum innan ráðuneytis hans og að komið sé í veg fyrir þá.

Ráðherra ber að sýna ráðdeild við meðferð fjármuna hins opinbera og hvetja starfsfólk ráðuneytis til hins sama. Hann nýti ekki opinbera fjármuni eða gæði starfsins í persónulegum eða pólitískum tilgangi nema að svo miklu leyti sem lög og reglur leyfa. Hann efni ekki til móttöku fyrir hópa og samtök, sem hafi í för með sér útgjöld, nema slíkt samrýmist starfsemi ráðuneytis.

Háttsemi og framganga

Um háttsemi og framgöngu segir að ráðherra beri að sýna virðingu í samskiptum og leggja sig fram um að framganga hans sé til fyrirmyndar og að hún styðji við hugarfar heilinda og ábyrgðar hjá stjórnvöldum og almenningi.

Ráðherra á að leggja sig fram um að eiga gott samstarf við samráðherra og tryggja viðeigandi samráð um stjórnarmálefni. Hann viðhafi faglega stjórnarhætti í hvívetna og sjái til þess að faglega sé staðið að skipun embættismanna og annars starfsfólks. Hann leiti faglegs mats starfsfólks ráðuneytis síns áður en ákvarðanir eru teknar um einstök mál.

Ráðherra virði hlutleysi og faglegt sjálfstæði embættismanna og annarra starfsmanna og geri skýran greinarmun á flokkspólitísku starfi og verkefnum ráðuneytis. Hann sjái til þess að brugðist sé við ábendingum um siðferðislega ámælisvert eða ólögmætt athæfi í ráðuneyti hans eða á starfssviði þess. Hann gæti þess að þeir sem bendi á slíkt athæfi gjaldi ekki fyrir það.

Gagnsæi og upplýsingamiðlun

Um gagnsæi og upplýsingamiðlun segir að ráðherra eigi að viðhafa gagnsæi um störf sín og ráðuneyti síns. Hann leggi sig fram um að gera upplýsingar aðgengilegar í samræmi við lög og almenn viðmið og hafi frumkvæði að birtingu upplýsinga sem eru í almannaþágu. Hann beiti sér fyrir að upplýsingum sé miðlað af nákvæmni, heilindum og með skýrum hætti.

Ráðherra hafi frumkvæði að því að leiðrétta rangar eða villandi upplýsingar eða misskilning um störf hans eða ráðuneytis hans.

Ráðherra ber ábyrgð gagnvart Alþingi og almenningi á ákvörðunum sínum og breytni. Honum ber að sýna samstarfsvilja séu störf hans tekin til skoðunar af hálfu Alþingi eða eftirlitsstofnana þess og eins þegar þingmenn óska eftir upplýsingum á grundvelli laga um þingsköp. Forsætisráðherra tryggi reglubundna fræðslu fyrir ráðherra um siðareglur og stuðlar að virkri samræðu um þær innan ríkisstjórnar.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Bubbi vill Ólaf Jóhann á Bessastaði – „Hógvær, traustur, kurteis og kemur mjög vel fyrir“

Bubbi vill Ólaf Jóhann á Bessastaði – „Hógvær, traustur, kurteis og kemur mjög vel fyrir“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

„Almennu launafólki verður gert að bera eitt byrðarnar“

„Almennu launafólki verður gert að bera eitt byrðarnar“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Grátbáðu Diljá Mist um áframhaldandi stuðning

Grátbáðu Diljá Mist um áframhaldandi stuðning
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Skagi verður nýtt nafn móðurfélags VÍS, Fossa fjárfestingarbanka og SIV eignastýringar

Skagi verður nýtt nafn móðurfélags VÍS, Fossa fjárfestingarbanka og SIV eignastýringar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ágústa Johnson: Karlar sem lyfta byggja upp testósteron

Ágústa Johnson: Karlar sem lyfta byggja upp testósteron
Eyjan
Fyrir 1 viku

Foreldrar hafi ekki ótakmarkaðan rétt á að birta myndir af börnum sínum

Foreldrar hafi ekki ótakmarkaðan rétt á að birta myndir af börnum sínum