Sigurjón skrifar aðsenda grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann birtir áskorun sem hann skrifaði á dögunum til formanna VR, Eflingar og VLFA á Facebook.
Spurði hann þessa forystumenn hvort viðkomandi væri tilbúinn að standa með undirskriftalista á Ísland.is með áskorun á Alþingi þess efnis að taka húsnæðisliðinn úr vísitölunni og setja lög á Seðlabanka Íslands þess efnis að festa vexti í 3%.
„Við þetta má bæta að afnema ætti strax krónu-á-móti-krónu-skerðingu á ellilífeyrisþega og öryrkja, gefum þessu góða fólki tækifæri á að skapa sér tekjur meðan það hefur heilsu og vilja til án þess að slíkt skapi skerðingu bóta fyrir viðkomandi.“
Sigurjón telur að ef nægur fjöldi undirskrifta myndi berast kæmi þrýstingur á stjórnvöld að gera rétt fyrir skuldug heimili og fjölskyldur landsins, leigjendur, öryrkja og ellilífeyrisþega. Hann telur að framhaldið sé ekki sérstaklega bjart hér á landi.
„Ég tel að við séum komin að þeim tímapunkti að stutt sé í næsta hrun heimila og fjölskyldna með sama áframhaldi, ég er þess reyndar fullviss að Alþingi, Hagsmunasamtök heimilanna, umboðsmaður skuldara o.fl. hagsmunahópar séu alveg meðvituð um stöðuna en því miður gerist ekki neitt þrátt fyrir að við eigum öll að vera á sama báti. Nú er komin sú stund að gat er komið á fleyið og henda skal björgunarbátnum út, engu að síður er eins og það hafi aldrei verið gert ráð fyrir slíkum björgunarpakka fyrir ofangreinda hópa fólks og segja mér fróðari menn að það gerist ekki neitt meðan björgunarstjórinn um borð er handbendi vogunarsjóða hrægamma og annarra sérhagsmunahópa, skiljanlega, vildi einhver sagt hafa.“
Sigurjón segist eflaust ekki vera einn um það að hafa velt fyrir sér muninum á Íslandi, sem oft er nefnd Kúba norðursins, þegar líkja á saman stjórnarháttum, réttlæti og lýðræði þessara landa. Eftir að hafa fagnað fullveldi þjóðarinnar undan dönsku krúnunni hafi ein mesta stéttaskipting hafist sem sögur fara af. Nefnir hann fiskveiðiauðlindina í því samhengi. Segir hann að Ísland ætti vel að gera verið ein auðugasta þjóð heims með gleðistuðul upp á 10.
„Þess í stað er ansi margt í innviðum og grunnþjónustu okkar þjóðar sem minnir á samhengið Ísland sem Kúba norðursins, t.a.m. málefni sem snúa að vaxtaokri fjármálastofnana, sem er ekki neitt annað en bein árás gegn heimilum og fjölskyldum, ellilífeyrisþegum og öryrkjum.“
Sigurjón segir það verra að fólk er orðið svo meðvirkt um stöðuna en enginn geri neitt til að sporna við þróuninni.
„Hver veit, kannski hefði bara verið betra fyrir íslensk heimili, ellilífeyrisþega og öryrkja að vera áfram undir dönsku krúnunni með verðbólgu undir einu prósenti eins og staðan er í dag þar sem allir eru ánægðir, óháð ætt, stöðu eða innistæðu bankareiknings hvers og eins. Er ekki kominn tími til að þjóðin gyrði sig í brók og standi saman gegn þessari þróun sem átt hefur sér stað?“
Sigurjón segir að lokum að boltinn sé hjá forystu verkalýðsins. „Látum ekki bjóða okkur krónur eða prósentur í komandi kjarasamningum meðan maðurinn í Seðlabankanum tekur það margfalt til baka sem beina gjaldtöku á kostnað kjarasamnings til handa litla launamanninum.“