Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segir að skipulögð brotastarfsemi hafi sótt í sig veðrið hér á landi og nauðsynlegt sé að sporna við þeirri þróun með auknum valdheimildum lögreglu. Þetta kemur fram í aðsendri grein á Vísir.is:
„Skýrar vísbendingar hafa komið fram á síðustu árum um að umfang og eðli skipulagðrar brotastarfsemi hafi tekið verulegum breytingum hér á landi til hins verra. Hópar innlendra jafnt sem erlendra aðila hafa það að atvinnu að fremja fjölda afbrota með skipulegum hætti, þar á meðal alvarleg ofbeldisbrot, þjófnað, fjársvik, fíkniefnabrot og peningaþvætti. Þetta er verulegt áhyggjuefni. Nauðsynlegt er að mæta þessari stöðu með markvissum aðgerðum til að varna afbrotum enda eru afbrotavarnir grundvallaratriði í því að halda uppi allsherjarreglu og lögum í landinu.“
Guðrún segir að breytt mynstur afbrota, aukning í stafrænum brotum og brotum þvert á landamæri kalli á skýrar valdheimildir lögreglu:
„Afbrotavarnir lögregluyfirvalda felast ekki síst í greiningu gagna sem hjálpar lögreglunni að meta m.a. hver er þróun afbrota, að greina „heita reiti“ og sjá mögulegan vanda í uppsiglingu. Þar með getur lögreglan gripið fyrr inn í atburðarrás og fyrirbyggt að framin séu alvarleg afbrot. Það er því mikilvægur liður í afbrotavörnum að efla aðgerðarheimildir lögreglunnar til að nýta þær upplýsingar sem hún býr yfir og aflar til greiningar með frumkvæðisvinnu. Þegar litið er til nágrannaríkja okkar höfum við, því miður, veitt lögreglunni hér á landi mun takmarkaðri heimildir til að varna afbrotum að þessu leyti. Úr því verður að bæta.“
Guðrún bendir á að frumvarp til breytinga á lögreglulögum sé nú í samráðsgátt, um sé að ræða endurflutt frumvarp frá því í fyrra. Frumvarpið og umsagnir um það má finna hér. Þar er meðal annars kveðið á um aukinn vopnaburð lögreglu og forvirkar rannsóknarheimildir varðandi rafræn gögn. Guðrún segir:
„Frumvarpið, auk annarra aðgerða, er liður í því að styrkja afbrotavarnir íslensks samfélags. Með því er unnið að því að fyrirbyggja afbrot og stuðla að auknu almannaöryggi og velferð allra. Það er nauðsynlegt skref að stíga.“