fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Eyjan

Ríkisbankanum beitt gegn samkeppninni við flokksblaðið og sauðdrukkinn forsætisráðherrann dreginn heim á hnakkadrambinu

Ritstjórn Pressunnar
Miðvikudaginn 25. október 2023 10:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það hefur ekki alltaf verið lognmolla í kringum Sigmund Erni og þá fjölmiðla sem hann hefur starfað hjá. Í nýútkominni bók sinni, Í stríði og friði fréttamennskunnar, rifjar Sigmundur upp margt áhugavert og skemmtilegt. Hann rifjar upp gamlárskvöldið þegar Páll Magnússon missti prófið og Davíð Oddsson, þá forsætisráðherra, var sóttur af yfirvaldinu eina og dreginn heim af kenderíi. Hann rifjar líka upp hvernig Sjálfstæðisflokkurinn beitti öllu sínu afli í spilltum ríkisbanka til að bregða fæti fyrir helsta keppinaut Morgunblaðsins.

Grípum fyrst niður í bókinni þar sem þaulsetinn forsætisráðherra neitar að fara heim eftir Kryddsíldina sem send var út frá Hótel Borg. Hann tekur stjórnendur þáttarins í þriðju gráðu yfirheyrslu og sest að sumbli:

„En það er sumsé tæpum tveimur árum fyrr sem Davíð› Oddsson er í nokkru tilfinningalegu uppnámi í Kryddsíldinni á gamlárskvöld, svo mikið sem gengið hafði á í pólitísku lífi hans þar sem skiptust á sætir sigrar, særindi og svekkelsi.

Og hann er ekkert á förum þegar þættinum er lokið, skipar okkur Páli að koma með sér út í hornbás á Hótel Borg á meðan aðrir stjórnmálaforingjar eru að óska hver öðrum árs og friðar og halda heim á leið í veisluundirbúninginn með fjölskyldum sínum.

Davíð mátti ekkert vera að því.

Svo við setjumst niður með kappanum, hugsum vísast báðir að hann vilji aðeins pústa eftir langan þátt þar sem pólitískar skylmingar voru af blóðugasta tagi.

En eftir hálftíma er ekkert fararsnið á honum. Hann skipar einum þjónanna að standa vaktina, það skulu bornar í okkur ölkrúsir og snafsar eins og þurfa þykir. Ekkert megi annars trufla okkur. Og hann segir meira að  segja konu minni, Ellu Sveins, sem stjórnaði upptöku Kryddsíldarinnar eins og löngum fyrr og síðar, að hún mætti bara fara heim, en hún hafði ónáðað samtalið með þeim orðum hvort ég vildi ekki fá far með henni heim í Grafarvog.

En það kom ekki til greina, að sögn Davíðs.

Og Ellu var auðvitað ekki til setunnar boðið, því heima beið þá átta mánaða sonur ásamt eldri systkinum, enn eitt barnið í okkar samlífi.

Svo eftir sitjum við að sumbli.

Og Davíð er í stuði, rekur úr okkur Palla garnirnar og vill fá að vita ástæðurnar fyrir þessari frétt og öðrum þeim úr okkar ranni sem að hans mati voru í besta falli galnar og gersamlega úr lausu lofti gripnar.

Það veður á karlinum.

Og hvar við stöndum eiginlega í pólitík? Hann vill vita það upp á hár – og nefnir til sögunnar þingkosningar síðustu áratuga, hvort við höfum virkilega alltaf verið sömu kratakjánarnir. Og svo lá náttúrlega næsta spurning í loftinu, en ekki hefðum við druslast til að kjósa hann Ólaf Ragnar í forsetakosningunum.

Þetta var þriðju gráðu yfirheyrsla. Á milli drjúgmikilla gúlsopa. En nú var ráðherrabílstjóri Davíðs farinn að ókyrrast. Enda klukkutími liðinn. Hann reyndi að láta á sér kræla, en Davíð tók ekki eftir honum. Svo ökumaðurinn vogaði sér aðeins nær okkur. En það breytti engu. Davíð bægði honum frá með snöggri handaskipan.

„En Ástríður er farin að hringja,“ kreisti bílstjórinn út úr sér – og átti þar náttúrlega við frú Thorarensen, heima á Lynghaga.

En hún mætti líka bíða – og enn hélt réttarhaldið áfram.

Davíð var í sínu hásæti og við Palli vorum eins og gapandi strákhvolpar við fótskör meistarans.

En svo gerist það þegar þjónar Borgarinnar eru um það bil að slökkva ljósin í salnum og komið er fram á sjötta tímann og gamlárskvöldið að skella á með uppfíringum og öllu tilheyrandi að forsætisráðherrafrú landsins strunsar inn í salinn og grípur undir handarkrika bónda síns og býr hann býsna harðúðugt til heimferðar.

Þessum fundi hans sé lokið.

Oft hafði ég komist í tæri við þau heiðurshjónin við hvers konar tækifæri, og eftir því var tekið hvað þau voru samstillt og rík af kærleik hvort í annars garð, en þessi uppákoma var aðeins út úr hefðbundnum takti.“

Þremenningarnir fengu þó misjafna ferð heim. Forsætisráðherranum var náttúrlega ekið heim á Lynghagann í ráðherrabílunum undir strangri ásjónu eiginkonu sinnar. En Sigmundur Ernir og Páll Magnússon þurftu að koma sér sjálfir heim. Urðu ferðir þeirra harla ólíkar.

„Er þá frá því að segja að ég panta leigubíl til að aka mér heim á leið í Grafarvoginn, vonum seinna, en Páll grípur á lofti lyklana að sinni eigin bifreið sem hann hafði lagt samviskusamlega í stæði við Austurvöll.

En hann kemst ekki lengra en upp í Öskjuhlíð, á leið heim í Garðabæ. Hann er stöðvaður af lögreglunni.

Hann missir ökuleyfið á staðnum og er keyrður heim til Hildar sinnar og fjölskyldu í lögreglufylgd.

Litlu seinna hætti Páll að drekka fyrir fullt og allt.“

Flokkurinn beitti ríkisbankanum til að klekkja á Fréttablaðinu

Sjálfstæðisflokkurinn beitti öllu sínu afli til að leggja steina í götu Fréttablaðsins þegar það var að stíga fyrstu sporin, enda varð Fréttablaðið strax mest lesna blað landsins og segja má að Morgunblaðið hafi aldrei borið sitt barr eftir að Fréttablaðið hóf göngu sína. Raunar virðist Morgunblaðið ekki ná vopnum sínum þó að göngu Fréttablaðsins sé nú lokið og segir það væntanlega meira en þúsund orð um Morgunblaðið sjálft og þá ritstjórnarstefnu sem það ástundar.

Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóri flokksins, sat í bankaráði Landsbankans á vegum Sjálfstæðisflokksins upp úr aldamótum. Hann beitti sér gegn Frjálsri fjölmiðlun, útgefanda Fréttablaðsinsm og sá til þess að Fréttablaðið þurfti að staðgreiða prentun blaðsins sem íþyngdi rekstrinum óeðlilega. Síðar naut Morgunblaðið ríkulegra afskrifta á skuldum, upp á 10 milljarða, í boði skattgreiðenda í gegnum Sjálfstæðisflokkinn er ríkisbankinn, Íslandsbanki, þurrkaði í tvígang út skuldir móðurfélags Moggans.

„Hafi högni hagsmunaaflanna sýnt Sveini klærnar undir aldamótin fór að blika á blóðugar vígtennurnar nokkrum misserum síðar.

Sveinn dirfðist að setja á laggirnar nýtt og árrisult dagblað við hliðina á Morgunblaðinu, eftir að tilraunir við að halda Degi úti sem dagblaði í ritstjórn Stefáns Jóns Hafstein og síðar Elíasar Snælands Jónssonar runnu út í sandinn á útmánuðum 2001.

Engu að síður taldi Sveinn enn þá vera svigrúm fyrir keppinaut við hlið Morgunblaðsins. Það gæti ekki setið eitt um hituna, hugsaði mesti sjálfstæðismaðurinn á meðal íslenskra hægri manna sem hataði fákeppni, einokun, flokksræði og pilsfaldakapítalisma.

Svo hann stofnaði Fréttablaðið með skýra hugsun í kollinum um sama leyti og Dagur gaf upp öndina. Og stefnan var skýr. Nýtt dagblað yrði að vera almennt fréttablað› án nokkurra tengsla við stjórnmálaflokka. Það mætti alls ekki skilgreina sig nokkurs staðar í pólitík. „Að keppa við Morgunblaðið á þess eigin vallarhelmingi var augljóslega fyrir fram tapaður leikur,“ segir Sveinn í ævisögu sinni.

Og svo var hitt – og þar gaf Sveinn sig ekki, þrátt fyrir mótbárur svo til allra í kringum hann. Blaðið yrði ekki bara að vera fríblað áþekkt þeim sem voru að byrja að hasla sér völl á hinum Norðurlöndunum og víðar um jarðir, heldur myndi því verða dreift í öll hús. Á Íslandi væri engum lestarsamgöngum til að dreifa og almenningssamgöngur svo lítið notaðar að ekki dygði að koma blöðunum fyrir með þeim hætti.

Og loks þyrftu menn að átta sig á því að blaðið yrði óboðinn gestur inn á öll heimili landsins. Því mætti ekki undir neinum kringumstæðum birta ágengar eða æsandi fréttir heldur yrði að fara með gát til þess að misbjóða ekki húsráðendum.

Öðruvísi manni áður brá.

Mánuði eftir að dagblaðið Dagur hætti að koma út barst fyrsta tölublað Fréttablaðsins inn um lúgur landsmanna, snilldarlega hannað af þeim Gunnari Smára Egilssyni og Einari Karli Haraldssyni að því er Sveini fannst sjálfum, en þeir voru í vinnuhópi með honum við undirbúning blaðsins, ásamt Gunnari Steini Pálssyni, Jónasi Kristjánssyni og syninum Eyjólfi Sveinssyni.

Fréttablaðið varð strax víðlesnasta dagblað landsins og gerði á næstu árum nánast út af við Morgunblaðið sem setja þurfti á bráðadeild bankanna, vikum og mánuðum saman, þvílík sem blóðtakan var fyrir flokksblað íslenska heildsalaveldisins sem komst þó að lokum undir pilsfald ríkisins þar sem mörgum hægrimanninum hefur löngum liðið vel.

En útgáfa nýja blaðsins var samt enginn dans á rósum, enda talsvert átak að afla henni tannfjár.

Svo Sveinn lagði til að móðurfélagið Frjáls fjölmiðlun legði nýja miðlinum til stofnfé að upphæð 100 milljónir króna sem talið var að myndi tryggja Fréttablaðinu líf.

En þá sá Ættarveldið sér leik á borði.

Viðskiptabanki fyrirtækisins, Landsbanki Íslands, með Kjartan Gunnarsson í sæti formanns bankaráðs, þá jafnframt orðinn einn þaulsætnasti framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, setti sig upp á móti þessum ráðahag – og sagist ætla að sjá til þess að Frjáls fjölmiðlun gæti ekki léð þessu ævintýri fjárhagslegan stuðning.

Og skilaboðin voru klár. Eftir afskipti Landsbankans var ekki hægt að prenta blaðið nema gegn staðgreiðslu.

Fréttablaðið fór því af stað við harla nöturlegar aðstæður, rétt eins og Sveinn orðar það sjálfur svo berum orðum: „Nú vorum við meira og minna orðnir öðrum háðir fjárhagslega, en sú staða er sjálfskaparvíti.““

Fleiri brot verða birt hér á Eyjunni úr bók Sigmundar Ernis á næstunni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Dulbúinn kaupauki: Sérréttindi opinberra starfsmanna 

Dulbúinn kaupauki: Sérréttindi opinberra starfsmanna 
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Brynjar Níelsson: Mistök að leyfa þjóðinni ekki að ákveða hvort hún vildi fara inn í Evrópusambandið – Viðreisn þurfti ekki að verða til

Brynjar Níelsson: Mistök að leyfa þjóðinni ekki að ákveða hvort hún vildi fara inn í Evrópusambandið – Viðreisn þurfti ekki að verða til
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Mogginn og Sjálfstæðisflokkurinn engjast

Orðið á götunni: Mogginn og Sjálfstæðisflokkurinn engjast
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Óheilindamaðurinn Bjarni Ben

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Óheilindamaðurinn Bjarni Ben