Óhætt er að fullyrða að samfélagsmiðlar og kaffistofur landsins hafi logað út af átökunum fyrir botni Miðjarðarhafs sem brutust út um helgina. Vígamenn Hamas-samtakanna gerðu þá viðamiklar árásir á óbreytta borgara sem hafa vakið mikinn óhug og gert það að verkum að stærstu hluti alþjóðasamfélagsins hefur fordæmt árásarinnar og lýst yfir stuðningi sínum við Ísraelsmenn sem hafa þegar hafið grimmilegar hefndaraðgerðir.
Sitt sýnist hverjum varðandi atburðarásina en margir, sem hafa stutt málstað Palestínumanna og baráttu þeirra fyrir mannréttindum og frelsi, hafa tekið undir það að grimmd vígamanna Hamas, sem hafa meðal annars afhöfðað ungabörn, séu óverjandi og verði ekki réttlætt sama hvað undan er gengið.
Segja má að þjóðfélagsumræðan hafi kjarnast á Facebook-vegg Bjarna Jónssonar, þingmanns VG. Bjarni stýrði formannafundi Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í gær sem samþykkt var ályktun um að fordæma árásir Hamas sem ólíðandi og ómannúðlegar. Var ályktunin lesin upp á Evrópuráðsþinginu í kjölfarið og greindi þingmaðurinn frá þessu á Facebook-síðu sinni.
„Við vottum Ísraelsku þjóðinni samstöðu vegna árásanna, sem hún hefur fullan rétt á að verjast innan ramma alþjóðalaga. Þá hvetjum við til þess að áfram verði unnið að því að koma á stöðugleika til framtíðar. Einungis þannig getum við tryggt að Palestínumenn og Ísraelar geti búið við frið,“ sagði meðal annars í ályktuninni.
Tíðindin féllu síður en svo í kramið hjá þeim sem styðja málstað Palestínu og var Bjarni sakaður um að svíkja stefnu VG. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, lét þingmanninn heyra það í mörgum herskáum færslum í gærkvöldi og nú í morgun.
„Til skammar. Þú ættir að skammast þín Bjarni Jónsson. Og þið öll.“ skrifaði Sólveig Anna og bætti svo við: „Samstaða með Ísrael? Hvernig dirfist þú? Þú ættir að segja af þér þingmennsku. Búinn að blekkja kjósendur.“
Bjarni freistaði þess þá að benda á að í ályktuninni væri mannfall á báða bóga harmað og að Ísrael þyrfti að hegða sér innan ramma laganna en Sólveig Anna gaf lítið fyrir þær afsakanir og spurði þingmanninn hvort að hann væri auðtrúa eins og 10 ára barn.
„Bjarni Jónsson skilur þú sjálfur ekki textann sem þú ert að monta þig af?“ spurði verkalýðsleiðtoginn og hvatti Bjarna til þess að draga „þessa ömurlegu pro-Ísrael til baka og biðjast afsökunar.“
Diljá Mist Einarsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins og samherji Bjarna í ríkisstjórn, mætti svo kát með bensínbrúsann og úðaði honum yfir eldinn með því að hrósa ályktuninni. „Sterk og sjálfsögð yfirlýsing og samhljóða þeim frá okkar nágranna- og vinaþjóðum! Auðvitað fordæmum við hryðjuverkaárásir, viðurstyggilegt ofbeldi gagnvart saklausum borgurum,“ skrifaði Diljá Mist og var í kjölfarið kölluð „þjóðarmorðingi“ af baráttukonunni Maríu Lilju Ingveldar- Þrastardóttur Kemp. Og Sólveigu Önnu var ekki skemmt.
„Bjarni Jónsson gaman fyrir þig að fá afdráttarlausan stuðning frá íslenska öfga-hægrinu,“ skrifaði Sólveig Anna og brást svo við með þessum orðum þegar Bjarni spurði hvort að hún styddi morð á saklausum börnum.
„Nei, en það gerir þú. Til hamingju með það. Flottur strákur. Diljá Mist að fíla þig og svona. Allt að gerast.“
Bæði Bjarni og Sólveig hafa síðan áréttað skoðanir sínar með öðrum færslum á samfélagsmiðlum. Bjarni reið á vaðið og ítrekaði að ofbeldi yrði aldrei réttlætt með ofbeldi.
Sólveig var öllu herskárri og sagði einfaldlega að stjórnmálin væru dauð og sakaði Vinstri Græn um svik með því að hafa samræmt utanríkisstefnu sína og Sjálfstæðisflokksins.
„Liðin er sú tíð að VG berjist gegn hernaði og heimsvaldastefnu. Liðin er sú tíð að VG vilji ekki valda þjáningu og dauða saklausra borgara, eins og enn stendur í stefnu flokksins, sem að gleymst hefur að uppfæra. Liðin er sú tíð að VG telji íslensk stjórnvöld eigi að hafna hernaðaríhlutunum og eigi að beita sér fyrir alþjóðlegum samningum um frið og afvopnun. Ekkert farewell to arms kjaftæði lengur. Nei, nú hafa VG og Sjálfstæðisflokkurinn sameinast í Utanríkismálanefnd Alþingis í því að hvetja Ísrael áfram í trylltum hefndar-blóðþorstanum, af því að Ísrael megi og eigi að “verja” sig. Enginn munur er því lengur á utanríkismálastefnu VG og Valhallar. Ekkert bakland virðist vera eftir í VG sem að rís upp gegn þessari svívirðilegu atburðarás. Flokkurinn er ekkert nema samkomulag einstaklinga um að völd séu góð, og að þátttaka í stjórnmálastarfi sé ekkert nema gott karíer-move með góðum launum,“ skrifaði Sólveig Anna.