Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis, hefur lagt fram fyrirspurn til dómsmálaráðherra um þróun skipulagðrar brotastarfsemi á Íslandi undanfarin ár og um samanburð við þróun skipulagðra glæpa á hinum Norðurlöndunum. Vill hún jafnframt fá upplýsingar um þær aðgerðir sem stjórnvöld á Norðurlöndum hafa gripið til gegn glæpagengjum og hvaða lærdóm Íslendingar geti dregið af þeim.
Diljá birtir pistil um þetta á Vísir.is og er þar tíðrætt um uppgang glæpagengja í Svíþjóð. Varpar hún fram spurningum þess efnis hvort þar sé víti að varast fyrir Íslendinga. Diljá skrifar:
„Undanfarið hefur ekkert lát verið á frásögnum af alvarlegum ofbeldisglæpum og árásum í Svíþjóð. Ofbeldisaldan hefur verið rakin til átaka glæpagengja sem hafa hreiðrað þar um sig og ekki sér fyrir endann á ofbeldinu. Bara í september létu 12 einstaklingar þar lífið í tengslum við ofbeldisfull átök og þar af voru 11 skotnir til bana. Morðtilraunir og sprengjuárásir eru daglegt brauð og yfirvöld virðast nánast ráðþrota gagnvart vandanum. Sífellt fleiri saklausir borgarar sem hafa engin tengsl við gengin verða fyrir barðinu á ofbeldinu. Lögreglan í Svíþjóð hefur enn aukið viðbúnað sinn og jafnvel hefur verið rætt um aðstoð hersins vegna ástandsins.
Yfirvöld í nágrannalöndum Svíþjóðar hafa lýst yfir stuðningi og boðið fram aðstoð sína við þessar fordæmalausu aðstæður. Við Íslendingar höfum enn lítið fram að færa þegar kemur að aðstoð í þessum efnum. Sem betur fer. Eins og um svo margt er mikilvægt að við fylgjumst vel með þróuninni Skoðum hvort við getum dregið ekki lærdóm af grafalvarlegri stöðu og óheillaþróun hjá þessari vinaþjóð okkar.“
Diljá segir ennfremur:
„Mikilvægt er að skoða án tafar hvað fór úrskeiðis í Svíþjóð. Hvað við getum gert til að koma í veg fyrir að við föllum í sömu gryfju.“