Bjarnheiður Hallsdóttur, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, fer hörðum orðum um þann málflutning sem rekur öll vandamál í efnahagslífinu til ferðaþjónustunnar. Þetta kemur fram í aðsendri grein á Vísir.is.
„Jafnt lærðir sem leikir hafa í ræðu og riti beint spjótum sínum að ferðaþjónustu og rakið til hennar meðal annars húsnæðisvandann, ofþenslu í hagkerfinu, of mikla einkaneyslu, of hátt atvinnustig, hnignun íslenskunnar og nú síðast var hún gerð ábyrg fyrir atgervisflótta úr landbúnaði,“ segir Bjarnheiður og bendir á að fjöldi erlendra ferðamanna hafi ekki enn náð fjöldanum sem kom metárið 2018. Á þeim tíma hafi greinin hins vegar ekki verið álitin valda þeim usla sem hún á að vera að valda núna í efnahagslífinu:
„Fjöldi starfandi í ferðaþjónustu og fjöldi ferðamanna virðist haldast vel í hendur og ekki skýra hvers vegna verðbólga er meiri nú en árin 2015 til 2018. Fjöldi einstaklinga starfandi í aðalstarfi í júní árið 2018 var 31.500 en er nú árið 2023 um 30.100. Atvinnugreinin er jafnframt betur í stakk búin til að taka á móti sama fjölda gesta og áður. Fjöldi erlendra ferðamanna fyrstu sjö mánuði ársins árið 2018 var 1,3 milljónir, nú árið 2023 var sá fjöldi 1,2 milljónir á sama tímabili. Innviðir eru enn til staðar og uppbygging þeirra er enn og hefur verið í hóflegum vexti. Því liggur fyrir að umsvif ferðaþjónustu hér á landi eru að minnsta kosti ekki meiri nú en árið 2018, án verðbólguvandræða.“
Bjarnheiður segir að vissulega hafi ferðaþjónustan áhrif á umhverfi sitt, bæði góð og slæm. En að gera hana ábyrga fyrir efnahagsástandinu sé „fullkomlega galið og ekkert annað en lýðskrum af verstu sort.“
Bjarnheiður bendir á að ferðaþjónustan hafi rifið okkur upp úr öldudal eftir hrunið og hún skapi tækifæri um allt land. „Ferðaþjónusta skapar tugþúsundir beinna og óbeinna starfa þvert á atvinnugreinar. Ferðaþjónusta er ástæðan fyrir frábærum samgöngum Íslands við umheiminn. Ferðaþjónusta er ástæðan fyrir gríðarlegri fjölbreytni í veitingarekstri og afþreyingu um land allt. Á þessum víðsjárverðu tímum, sem við lifum nú má færa sterk rök fyrir því að það sé fyrst og fremst ferðaþjónusta sem, gegn eigin hagsmunum, hefur stutt við krónuna og komið í veg fyrir veikingu hennar. Þannig hefur ferðaþjónustan beinlínis unnið gegn verðbólgu sem að öðrum kosti hefði verið enn meiri.“
Bjarnheiður varar við þeim viðhorfum að vilja stórauka skattheimtu á ferðaþjónustuna og segir að með því sé verið að beita röngum meðulum á rangan sjúkling.