Ekki eru allir á eitt sáttir við þessa breytingu og er Ingólfur Sverrisson, eftirlaunaþegi og fyrrverandi deildarstjóri hjá Samtökum iðnaðarins, einn þeirra. Hann skrifar aðsenda grein sem birtist á vef Vísis í morgun þar sem hann skorar á stjórnendur RÚV að færa þáttinn aftur á sinn gamla tíma.
„Á tímum þegar flestir virðast sammála um að mikla nauðsyn beri til að efla almenna og vandaða umræðu í þjóðfélaginu tekur RÚV ákvörðun um að rífa Silfrið upp með rótum og setja á tíma þegar stór hluti þjóðarinnar er genginn til náða,“ segir hann meðal annars og gagnrýnir að þessi tilfærsla hafi ekki verið borin undir almenning.
Bendir hann á að sunnudagar hafi hentað vel, enda almennur frídagur og fólk almennt á heimilum sínum í ró og næði. Á mánudagskvöldum, eftir 10 fréttir, sé eldra fólk og flestir sem vinna erfiðisvinnu farnir í háttinn.
Skorar hann á RÚV að færa þáttinn snarlega aftur á sinn stað fyrir hádegi á sunnudögum.
„Ef ekki er hægt að verða við þessari frómu ósk er lagt til að nafni þáttarins verði breytt í: Nætursilfrið.“