Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur nýlega stofnað fyrirtækið Þingmannaleið, utan um leiðsögn fyrir ferðamenn um Vestmannaeyjar í sumar. Meðal annars hefur Vísir greint frá þessu, en Ásmundur segir að leiðsögnin verði ekki fullt starf og að sumarið verið aðaltíminn.
Þessi væntanlega aukavinna Ásmundar hefur vakið gagnrýni og þá helst á Facebook-síðu listamannsins og Vestmannaeyingsins, Jóns Óskars, sem kallar þetta siðleysi:
„Þingmaður á fullum launum fer í samkeppni við veikburða ferðaþjónustu í Eyjum og kominn á rútu af því að hann er svo flinkur bílstjóri. Á hann ekki frekar að liggja yfir þingskjölum og huga að ýmsu sem betur má fara í hans kjördæmi.“
Ýmsir hafa gagnrýnt Ásmund harðlega fyrir aukadjobbið í ummælum undir færslu Jóns Óskars en Ásmundur svarar fyrir sig í grein í Morgunblaðinu í dag. Þar segir hann:
„Jón Óskar Hafsteinsson listamaður fór mikinn í færslu á fésbókarsíðu sinni og sakaði mig um að fara gegn „veikburða ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum.“ En það komst í fréttirnar að ég ætlaði að láta gamlan draum um persónulega leiðsöguþjónustu rætast á komandi sumri. Jón Óskar opnaði leið fyrir skítkast í minn garð, viðbjóðslegar ávirðingar, sem segja meira um þá sem slíkt láta frá sér fara en mig.“
Ásmundur bendir á að fjöldi þingmanna hafi sinnt öðrum störfum samhliða þingmennsku af hinu ýmsa tagi, án athugasemda. Að það virðist gilda annað um hann, segir Ásmundur, og lýsir aukastarfinu sem smáu í sniðum:
„En það þykir ekki tiltökumál að saka mig um siðleysi ætli ég mér að ferðast með 1-4 einstaklinga í ferð til Vestmannaeyja og segja þeim frá Eyjum og sögu þeirra. Það var ekki siðleysi þegar ég fór á sjó eða stundaði ýmis samfélagsleg verkefni, það er kannski ekki nógu fínt fyrir þá sem illa eru haldnir af malbikseitrun þéttbýlisins.“
Ásmundur harðneitar því að þessi rekstur hans vegi að ferðamennsku í Vestmannaeyjum. Hann segist ekkert ætla að taka frá þeim sem stunda ferðamennsku þar:
„Ég er ekki að taka neitt frá neinum og finn fyrir miklum stuðningi frá Eyjamönnum. Veit ekki til þess að fyrirtæki í Eyjum eða Eyjamenn ætli að vera með einstaklingsmiðaða ferðaþjónustu á þeim vettvangi sem ég ætla að hasla mér völl á. Ég mun ekki koma til Eyja og taka eitthvað frá þeim sem þar vinna í ferðaþjónustu. Ég mun færa þeim ferðmenn sem eyða þar fjármunum í upplifanir, mat og minjagripi. Hvaða siðleysi er í því? Ég hafði líka haft áhuga á því að heimsækja listamenn sem þar búa og starfa. Eru margir að sinna því, eða er það siðlaust? Er þetta árás á veikburða ferðaþjónustu? eins og Jón Óskar kýs að kalla þessa blómlegu atvinnugrein í Eyjum.“
Ásmundur er einnig ósáttur við framsetningu Vísis á málinu sem hann segir draga persónu sína niður í svaðið:
„Framsetning starfsmanns á visir.is við fésbókarfærslu Jóns Óskars er eingöngu til þess að draga persónu mína niður í svaðið. Sameiginlegt markmið starfsmannsins og Jóns Óskars er sóðaskapur. Eða ætlar Kristinn Haukur Guðnason, starfsmaður á visir.is, að halda áfram að fjalla um störf eða áhugamál þingmanna í þeirra frítíma og draga fleiri í svaðið? Nú er komið fram að margir eru í sömu sporum og spurning hvort blaðamaðurinn hafi dug í sér til að fjalla um þessi mál af hlutleysi og jafnræði?
Það er orðinn sjálfsagður hlutur af þeim sem flytja fréttir í samfélaginu að taka út einstaklinga og níða af þeim skóna án þess að þeir hafi brotið af sér. Glannalegar fyrirsagnir með sláandi ásökunum meiða allt venjulegt fólk. Það er kannski það versta að til þess er leikurinn gerður.“