Erna Björk Häsler hefur verið ráðin sem markaðsstjóri Terra umhverfisþjónustu og hefur þegar hafið störf.
Erna er með B.Sc. próf í viðskiptafræði með áherslu á markaðsfræði og stjórnun frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í fjármálum fyrirtækja frá sama skóla. Hún hefur víðtæka og margra ára reynslu af markaðsmálum. Hún var síðast viðskiptastjóri hjá auglýsingastofunni Sahara og starfaði þar áður sem verkefnastjóri í markaðsdeild hjá Vodafone/Sýn og Hive.
„Ég er mjög þakklát fyrir að fá tækifæri til að vinna að umhverfismálum. Aukin vitundarvakning við að koma úrgangi í réttan farveg með endurvinnslu og endurnýtingu gerir það að verkum að það eru mjög spennandi tímar framundan hjá Terra umhverfisþjónustu. Fyrirtækið er á frábærri vegferð og eru tækifærin ansi mörg til að gera enn betur. Ég hlakka til að taka þátt í því spennandi og öfluga starfi sem framundan er,“ segir Erna.
„Við hjá Terra umhverfisþjónustu erum mjög þakklát að fá Ernu Björk í lið með okkur. Hún kemur með mikinn kraft, reynslu og hæfni inn í markaðsmálin okkar,“ segir Guðmundur Páll Gíslason, framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs fyrirtækisins.