Iðgjöld tryggingafélaga hafa hækkað langt umfram verðlag á síðustu árum sem gerir það að verkum að Íslendingar virðast borga mun hærra verð fyrir tryggingar sínar en gengur og gerist á nágrannalöndunum. Þetta kemur fram í aðsendri grein Ágústs Bjarna Garðarsonar, þingmanns Framsóknarflokksins, á Vísi. Hann fagnar því að Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, hafi á dögunum afhent Neytendasamtökunum styrk í tilefni af 70 ára afmæli samtakanna til að ráðast í ítarlega úttekt á tryggingamarkaði hérlendis.
Í desember síðastliðnum barst Ágústi Bjarna svar við fyrirspurn sinni til Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, þar sem hann spurðist fyrir um þróun iðgjalda tryggingafélaga síðastliðin ár.
„Í svari ráðherra við fyrirspurninni kemur margt áhugavert í ljós líkt og að tryggingafélög hafa hækkað iðgjöld sín umfram almennar verðlagshækkanir. Iðgjöld bílatrygginga heimilanna hækkuðu um 1.840 milljónir króna umfram verðlagshækkanir á fimm árum, árin 2016 til 2021. Um 1.093 milljónir af lögboðnum tryggingum og 747 milljónir af frjálsum tryggingum. Það má með sanni segja að þessi svöri kalli á ítarlegri skoðun,“ skrifar Ágúst Bjarni.
Hann segist einni hafa verið mjög hugsi yfir þróun gjalda vegna líf- og sjúkdómatrygginga, en sé horft til þess sem fram kemur í fyrrgreindu svari ráðherra þá sýnist honum að iðgjöld þeirra trygginga hafi einnig hækkað umfram verðlagshækkanir.
„Að mínu mati er það mjög mikilvægt, og okkur ber hreinlega skylda til þess sem samfélag, að tryggja að allir hafi möguleika á að kaupa sér nauðsynlegar tryggingar.Við þekkjum það öll að ýmislegt getur komið upp á í lífsins ólgusjó. Það er ástæðan fyrir tryggingum – við erum að kaupa okkur vernd þegar á þarf að halda. Það má því ekki undir nokkrum kringumstæðum koma upp að þegar fólk þarf, af ýmsum ástæðum, að draga saman í heimilisbókhaldinu, horfi það til þess að segja upp tryggingum líkt og líf- og sjúkdómatryggingum. Fyrir mér er það mjög alvarlegt mál ef samfélagið fer að þróast í þá átt að aðeins þeir efnameiri hafi efni á líf- og sjúkdómatryggingum,“ skrifar þingmaðurinn.