Skiptum er lokið hjá félaginu JL Holding ehf., sem var í meirihlutaeigu Margrétar Ásgeirsdóttur fjárfestis, en félagið var úrskurðað gjaldþrota í nóvember.
Lýstar kröfur í þrotabúið voru rétt tæpar 228 milljónir en engar eignir fundust í búinu svo skiptum var lokið án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur.
Félagið var stofnað árið 2014 utan um gistirekstur í JL-húsinu við Hringbraut – hótelið Oddson og veitingastaðinn Bazaar – undir forystu tvíburabræðranna Arnars og Bjarka Gunnlaugssona auk Margrétar. Um var að ræða 800 milljón króna fjárfestingu en Margrét átti 50% hlut í fyrirtækinu til að byrja með en sá hlutur nam 70% undir það síðasta.
Hótelið var opnað í maí 2016 en um var að ræða hótel með andrúmslofts farfuglaheimilis eins og komist var að orði við opnunina. Reksturinn gekk þó ekki sem skyldi og í byrjun árs 2018 lokaði veitingastaðurinn Bazaar og hótelinu var skellt í lás í september 2018. Þar hófst svo að nýju rekstur undir nafninu Circle hostel og var Ásgeir Mogensen, sonur Margrétar og Skúla Mogensen, framkvæmdastjóri Circle um tíma.
Í janúar á síðasta ári var greint frá því að nauðungarsala væri fyrirhuguð á þeim hlutum fasteignarinnar sem voru í eigu JL Holding. Stjórnarformaður félagsins, Einar Páll Tamimi, kvaðst þó bjartsýnn á að samningar myndu nást við kröfuhafa. Það gekk þó ekki eftir og eignaðist Íslandsbanki fasteignirnar á nauðungarsölu í kjölfarið.
Þá var greint frá því í september að Þorpið vistfélag hefði keypt eignarhlutana af Íslandsbanka sem og aðra hluta hússins sem voru í eigu Myndlistaskólans í Reykjavík og ráðgerðir að útbúa rúmgóðar miðborgaríbúðir í húsnæðinu.