Reykjavíkurborg auglýsir nú eftir „verkefnastjórum framtíðarinnar“ til að „taka þátt í mótum nýrrar verkefnastofu“.
Hefur auglýsingin vakið þó nokkra athygli, bæði fyrir það að auglýsingin virðist óljós að efni til og fyrir það að borgin sé að auglýsa nýja stöðu þrátt fyrir að eins konar ráðningarbann ríki þar um þessar mundir.
Auglýsingin er svohljóðandi:
„Umhverfis- og skipulagssvið leitar að verkefnastjóra til að taka þátt´i mótun nýrrar verkefnastofu. Á verkefnastofu er unnið eftir hugmyndafræði verkefnastjórnunar, verkefnum er fylgt eftir frá upphafi til enda þvert á verkþætti og ábyrgðarsvið fagsskrifstofa. Verkefnin krefjast mikillar samvinnu teymismeðlima og allra hagsmunaaðila sem koma að verkefnum verkefnastofu. Um er að ræða fjölbreytt og spennandi starf í faglegu starfsumhverfi þar sem áhersla er á teymisvinnu og góða þjónustu. Næsti yfirmaður er skrifstofustjóri verkefnastofu.“
Svo kemur lýsing á helstu verkefnum og ábyrgð og gerð er grein fyrir menntunar- og hæfnikröfum.
Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi, gagnrýndi í samtali við Vísi að starfið sé auglýst þegar eins konar ráðningarbann ríki í borginni. Bannið felist í því að ekki eigi að ráða í stöður sem losna nema brýn nauðsyn sé. Starfsmannafjölgun hjá borginni sé verulegt áhyggjuefni, sérstaklega í ljósi hallareksturs sem sé gífurlegur. Sjálfstæðisflokkurinn hafi bent á að fækka þurfi starfsfólki borgarinnar sem ekki sinni grunnþjónustu heldur frekar störf í yfirbyggingunni.
„Þetta er ekki fólkið sem er að sinna þessari mikilvægu grunnþjónustu. Á sama tíma vantar okkur fólk í leikskóla, okkur vantar fólk á frístundaheimilin og til að manna þessi mikilvægu störf. Þarna sjáum við þessa skrýtnu áherslu hjá þessum meirihluta.“
Ofangreint starf sé mjög sérkennilegt starfsheiti og erfitt að sjá hvernig ráðning í þessa stöðu samræmist ráðningareglum sem borgin hafi kynnt fyrir áramót. Eins sé mjög óljóst hvað starfið feli í sér.
„Fólk hefur einhvern veginn algjörlega misst yfirsýn,“ sagði Hildur og benti á að hún hafi beðið um yfirlit starfslýsingar allra starfsmanna í miðlægri stjórnsýslu og fengið svar sem var 600 blaðsíður að lengd.
Á Facebook segir Hildur að „það segi sennilega alla söguna“.
Auglýsingin vakti einnig athygli hrafnanna Hugins og Munins, nafnlauss skoðanapistils Viðskiptablaðsins. En þar segir:
„Oft var þörf en nú er nauðsyn. Og nauðsynin er brýn á umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar. Hún leitar nú að verkefnastjórum – takið eftir ekki verkefnastjóra heldur verkefnastjórum.
Það eru aðkallandi verkefni sem þessir stjórar eiga að stýra: Sjálfri framtíðinni.“
Auglýsingin hefur líka vakið athygli á Twitter.
Þessi atvinnuauglýsing frá Reykjavíkurborg er með því fyndnara sem ég hef lesið:
“Á verkefnastofu er unnið eftir hugmyndafræði verkefnastjórnunar, verkefnum er fylgt eftir frá upphafi til enda”
Hvar á vinnumarkaði er óskað eftir starfsmanni sem byrjar en klárar ekki? 😂— Eva Dögg Guðmundsd. (@evagudm) February 7, 2023
Gaman að segja frá því að eg hef tekið við starfi verkefnastjóra verkefnastofu hjá Reykjaverkefnaborg.
— Hllgrmr Odssn (@hallgrimuro) February 7, 2023
Það er verið að hafa okkur að fíflum. Gervigreindin er löngu tekin yfir. Og þeir tímdu ekki að kaupa nema ódýrustu útgáfuna. pic.twitter.com/NrJqlm0CDh
— Helgi Seljan (@helgiseljan) February 6, 2023
Reykjavíkurborg virðist hafa tekið Undanskipulagsráðuneytið sér til fyrirmyndar, nóg af verkefnum 🤣 https://t.co/P1q423mCJT pic.twitter.com/uSE7CHeSJ0
— Gísli Ólafsson (@GisliOlafs) February 4, 2023
Eva Kristinsdóttir, skrifstofustjóri verkefnastofu, sagði í samtali við Vísi að starfið felist í því að Reykjavíkurborg sé með risavaxin verkefni út um alla borg og oft til margra ára. Til standi að nýta faglega verkefnastjórnun, sem sé faggrein, og vinna samkvæmt þeirri hugmyndafræði – eða að fylgja verkefnum eftir frá upphafi til enda.
Um sé að ræða verkefni á borð við skipulagsverkefni og framkvæmdaverkefni, Borgarlínu, Sæbrautarstokk og uppbyggingu nýrra hverfa. Þegar talað sé um verkefni sé verið að ræða um eitthvað sem hafi upphaf og enda, ólíkt rekstri til dæmis sem hafi ekki enda.