Tekist var á um Ljósleiðara OR á borgarstjórnarfundi undir kvöldið. Umræðum lauk kl. 19. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gera alvarlegar athugasemdir við þá ákvörðun meirihluta stjórnar OR að heimila dótturfyrirtæki sínu, Ljósleiðaranum, að kaupa stofnnet Sýnar á þrjá milljarða króna. Um sé að ræða áhættufjárfestingu sem hingað til hafi ekki fengist rædd í borgarstjórn. Bókun Sjálfstæðismanna um málið er eftirfarandi:
„Umræða um málefni Ljósleiðara Orkuveitunnar hefur loks verið leyfð í borgarstjórn eftir að hafa verið bönnuð tvívegis. Slíkt umræðubann er brot á sveitarstjórnarlögum en sýnir hversu langt borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar ganga til að hindra óþægilegar umræður. Umræðan í dag leiðir í ljós að í því eru fjölmörg álitamál og mikilvægum spurningum ósvarað. Borgarstjóri og formaður borgarráðs vilja sem fyrr ekki ræða þá stefnubreytingu og þær milljarða fjárhagsskuldbindingar, sem fyrirliggjandi viðskiptasamningur hafa í för með sér, heldur reyna að sveipa hana óréttmætum trúnaði.
Af hverju er brotið gegn ákvæði eigendastefnu Reykjavíkurborgar gagnvart B-hluta félögum, um að borgarstjóri skuli leggja mál, sem eru óvenjuleg eða mikilsháttar fyrir borgarráð til samþykktar? Hví er brotið gegn ákvæði eigendastefnu OR um að meginstarfsvæði Orkuveitunnar sé Suðvesturland og að frávik frá því skuli staðfest af eigendum áður en stofnað er til skuldbindinga vegna þeirra? Hvert er eðli samnings, þar sem búnaður er keyptur gegn skuldbindingu um langtímaþjónustukaup seljanda og hvaða trygging er fyrir því að þau viðskipti haldist? Hver eru áhrif samningsins á skuldastöðu Ljósleiðarans, Orkuveitunnar og Reykjavíkurborgar? Eiga borgarfyrirtæki að vera í samkeppnisrekstri og færa út kvíarnar með áhættufjárfestingum á landsbyggðinni? Greinilegt er að borgarstjórnarmeirihlutinn vill ekki efnislega umræðu um þessi álitamál.“