fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Eyjan

Svört skýrsla Ríkisendurskoðunar sýnir að skattsvikarar sleppa við háar sektargreiðslur þrátt fyrir dóma – Furða sig á áhugaleysi ráðuneytisins

Erla Dóra Magnúsdóttir
Mánudaginn 16. janúar 2023 14:55

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ríkisendurskoðun hefur gefið út svarta skýrslu um innheimtu dómsekta á Íslandi undanfarið en þar kemur fram að slíkar sektir, sem gjarnan eru dæmdar í tilfellum skattsvika, eru ekki innheimtar og enda með að vera afskrifaðar. Jafnvel séu vísbendingar um að þeir sem dæmdir hafa verið til greiðslu sekta viti hvernig kerfið virkar og spili á það. Í skýrslunni má einnig finna harða gagnrýni á dómsmálaráðuneytið fyrir að hafa ekki brugðist við stöðunni sem ítrekað hafi verið bent á. 

Í skýrslunni kemur fram að innheimtuhlutfall, eða það sem tekst að innheimta, af dæmdur dómsektum, sé verulega lágt hér á landi og lækkar hlutfallið eftir því sem sektir eru hærri eða með öðrum orðum, þeim mun hærri sem sektin er – þeim minni eru líkurnar á því að sektin sé greidd.

Hlutfallið hér á landi sé mun lægra heldur en á hinum Norðurlöndunum og hafi Ríkisendurskoðun frá árinu 2009 ítrekað sett fram ábendingar um hvernig hækka megi hlutfallið. Ekki hafi reynst vilji hjá stjórnvöldum að innleiða í lög aðgerðir eins og launaafdrátt vegna sektargreiðslna eða að fyrirkomulagi við ólaunaða samfélagsþjónustu sem vararefsingu verði breytt.

Ráðuneytið hefur ekki brugðist við ítrekuðum ábendingum

Í skýrslunni segir:

„Dómsmálaráðuneytið hefur ekki brugðist við tillögum starfshópsins [sem skipaður var á grundvelli laga árið 2018 til að bæta innheimtuhlutfall] með formlegum hætti og hefur hvorki unnið með né tekið markviss afstöðu til skýrslu hans. Sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra hefur í tvígang, árið 2020 og 2022, skorað á dómsmálaráðherra að kynna sér efni skýrslunnar. Ríkisendurskoðun lýsir furðu yfir aðgerðarleysi ráðuneytisins og minnir á að skipan og hlutverk starfshópsins var fest í lög nr. 15/2016, í sérstöku bráðabirgðaákvæði. Beinir Ríkisendurskoðun því til ráðuneytisins að taka efnislega afstöðu til skýrslu starfshópsins enda eru tillögur hennar að mati Ríkisendurskoðunar til þess fallnar að bæta innheimtuhlutfall“ 

Við skoðun Ríkisendurskoðunar á álögðum dómsektum á tímabilinu 2014-18 kom í ljós að 2,2 prósent af sektum, sem voru 10 milljónir eða hærri, fengust greiddar. Í 41 prósent tilvika voru dómar fullnustaðir með beitingu vararefsingar sem í flestum tilvikum var ólaunuð samfélagsþjónusta en Ríkisendurskoðun telur að slíkt fyrirkomulag hafi ekki nægilega mikil fælingaráhrif sem refsing, enda sé samfélagsþjónusta töluvert vægara fullnustuúrræði en fangelsisvist en í skýrslunni segir: „og því er framkvæmdarvaldið oft á tíðum í reynd að milda refsingar sem dómstólar hafa dæmt. Slíkt leiðir af sér að viðurlagakerfið reynist ekki nægilega gagnsætt og fyrirsjáanlegt.“

49,2 prósent sekta fyrir sama tíma bil séu enn í virkri innheimtu.

1,3 milljarður afskrifaður á árunum 2014-21

Flest bendi til þess að innheimta dómsekta hafi versnað frá fyrri úttektum Ríkisendurskoðunar og sé því fyrning sektardóma og afskriftir verulegar. Stór hluti þeirra dómsekta sem kveði á um hærri fjárhæðir séu vegna skattalagabrota. En Ríkisendurskoðun vekur athygli á því að þó að í hegningarlögum segi að við meiriháttar skattalagabroti sé hægt að dæma allt að sex ára fangelsisvist þá sé það sjaldnast gert, reyndar sé sjaldnast dæmd óskilorðsbundin fangelsisrefsing í slíkum málum. Helst séu dæmdar sektir sem svo innheimtist ekki.

Á tímabilinu 2014-21 hafi samtals 1.341 milljónir króna verið afskrifaðar af dómsektum.

Í skýrslunni kemur fram að ekki hafi verið hægt að starfrækja 135 fangelsisrými árið 2021 vegna fjárskorts og því sé nýtingarhlutfall fangelsisrýma á Íslandi langt fyrir neðan öryggisviðmið þrátt fyrir að boðunarlistar séu langir og fjöldi dóma fyrnist á hverju ári. Það sé verulegt áhyggjuefni að Fangelsismálastofnun nái ekki að uppfylla lagalegt hlutverk sitt.

Þær tillögur til úrbóta sem fram koma í skýrslunni eru:

  1. Dómsmálaráðuneytið þurfi að bregðast við lágu innheimtuhlutfalli dómsekta.
  2. Meta þurfi hvort skilgreina eigi samfélagsþjónustu sem refsingu í stað fullnustuúrræðis
  3. Bæta þurfi nýtingu fangelsisrýma

Vísbendingar um að fólk spili á kerfið

Samkvæmt viðbrögðum dómsmálaráðuneytisins, sem fram komu í skýrslunni, hefur Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra ákveðið að vinna að frumvarpi til breytinga á lögum um fullnustu refsinga, ,lögum um meðferð sakamála og almennum hegningarlögum. Ekki verði þó hægt að fallast á allar tillögur áðurnefnds starfshóps.

Til skoðunar verði tekið að færa ákvörðunarvaldið um samfélagsþjónustu frá Fangelsismálastofnun til dómstóla.

Unnið sé að því að fá meira fjármagn til Fangelsismálastofnunar til að nýta betur fangelsisrými. Árið 2021 hafi 28 refsingar fyrnst og 22 árið 2020. Ætla megi að staðan hafi síst verið betri við lok árs 2022.

„Dómsmálaráðherra er mjög meðvitaður um þessa erfiðu stöðu stofnunarinnar og mun halda áfram, hér eftir sem hingað til, að leita allra leiða sem færar eru til að bæta úr þessu.“

Í skýrslunni kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá Fangelsismálastofnun séu vísbendingar um að hluti dómþola átti sig á plássleysi í fangelsum og sæki vísvitandi ekki um samfélagsþjónustu og því fyrnist dómar þeirra og sektir þar með afskrifaðar. Eins sé erfitt fyrir Fangelsismálastofnun þegar dómþolar rjúfi skilyrði samfélagsþjónustu þar sem skortur sé á fangelsisrýmum og því leiði rof á skilyrðum í langflestum tilvikum ekki til frekari afleiðinga fyrir fólk.

Skýrslan í heild sinni

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Allir mættu nema Mbappe
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Mogginn og Sjálfstæðisflokkurinn engjast

Orðið á götunni: Mogginn og Sjálfstæðisflokkurinn engjast