Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag og hefur þetta eftir Fanneyju Rós Þorsteinsdóttur, ríkislögmanni. Hún sagði að beðið hafi verið um aukafrest til að svara en svörum verði skilað fyrir 13. október.
Aðspurð sagði hún það ekki endilega fela í sér viðurkenningu á broti að sættir hafi verið reyndar. Málið snúist um grundvallarspurningar um kosningakerfið og sé það tímafrekt og yfirgripsmikið.
Magnús Davíð sagðist hafa verið bjartsýnn á málareksturinn frá upphafi. „Ferlið, sem tók við eftir kosningarnar þar sem Alþingi samþykkti eigin kjör og lagði blessun sína yfir verklagið í Norðvesturkjördæmi, braut gegn Mannréttindasáttmála Evrópu,“ sagði hann.