Hryðjuverkamálið svokallaða var til umræðu í Silfrinu í RÚV í dag en umsjónarmaður var Sigríður Hagalín Björnsdóttir. Tveir menn sitja í gæsluvarðhaldi grunaðir um að hafa verið að leggja á ráðin um hryðjuverk. Þeir eru einnig grunaðir um stórfelld vopnalagabrot, meðal annars framleiðslu á skotvopnum með þrívíddarprentara. Málið tók óvænta stefnu í vikunni er Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri sagði sig frá rannsókn þess þar sem faðir hennar, Guðjón Valdimarsson, tengist rannsókn málsins. Guðjón er stórtækur vopnasafnari og var gerð húsleit á heimili hans nýlega.
Karen Kjartansdóttir almannatengill sagði málið stundum líkjast skets úr Svínasúpunni og það hafi tekið á sig farsakenndan blæ er í ljós kom að faðir ríkislögreglustjóra væri til rannsóknar. Karen sagðist alls ekki vilja gera lítið úr lögreglu en það hefði kvarnast úr málinu frá fyrstu tilkynningum lögreglu. Þannig virðast fullyrðingar um fjöldaframleiðslu á vopnum með þrívíddarprentara ekki alveg standast þar sem flest vopn sem gerð hafa verið upptæk í rannsókn lögreglu eru verksmiðjuframleidd og löglega skráð. Karen sagði erfitt að átta sig á þessu máli þó að vissulega vilji hún leyfa lögreglunni að njóta vafans og meira geti búið að baki en hún viti um.
Margrét Valdimarsdóttir, afbrotafræðingur, sagði þetta ekki góðan tíma til að leggja fram frumvörp um auknar rannsóknarheimildir lögreglu. Þegar mál á borð við þetta koma upp þá er það ekki rétti tíminn til að ræða slík frumvörp. Þegar fréttir berast um möguleg hryðjuverk hrökkvi almenningur hins vegar við og fólk sé fremur reiðubúið til að ljá máls á íþyngjandi aðgerðum lögreglu.
Gísli Freyr Valdórsson, viðskiptaritstjóri Morgunblaðsins, segir sérkennilegt að lögregla sé að fara fram á beitingu rafvopna í tengslum við þetta mál. Það sé sérumræða sem komi grun um hryðjuverk ekkert við. Gísli sagðist telja að upplýsingaklúður væri í gangi hjá lögreglu í málinu. Hins vegar vitum við lítið enn efnislega um rannsóknina, vitum ekki hvað sé til rannsóknar, og erfitt sé að meta framgang lögreglu. Við vitum ekki hvaða plön handteknu mennirnir voru með né hve langt þau voru komin.
Guðrún Hálfdánardóttir, dagskrárgerðarkona á RÚV, benti á að lögreglan hefði náð að handtaka menn í þessu máli með þeim heimildum sem hún þegar býr yfir. Margrét benti á að þar hefði tilviljun hjálpað lögreglunni þar sem einn sakborninga hefði verið handtekinn út af öðru máli.