fbpx
Sunnudagur 19.maí 2024
Eyjan

Fjölskyldur og íþróttamenn látin bíða í óvissu vikum saman – „Stjórnvöld telja málið ekki brýnna en svo“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Föstudaginn 7. ágúst 2020 14:40

Helga Vala Helgadóttir Mynd: Sigtryggur Ari/Fréttablaðið.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, furðar sig á viðbrögðum heilbrigðisráðherra við nýrri bylgju COVID-19, en aðgerðarhópur vegna COVID-19 verður ekki kallaður saman fyrr en eftir hálfan mánuð. Helga bendir á að það skipti Íslendinga, sérstaklega fjölskyldur með börn og íþróttamenn, miklu máli að greitt verði úr óvissu varðandi tilhögun íþróttar-, menningar-, og skólastarfs.

„Það vakti óneitanlega undrun mína að heyra af því í hádegisfréttum að heilbrigðisráðherra ætli sér að kalla saman samráðshóp til að vinna að viðbrögðum vegna Covid 19 þann 20 ágúst nk, eða eftir hálfan mánuð!“

Helga Vala bendir á að smitum er farið að fjölga umtalsvert á milli daga og skólar landsins eiga að hefja starfsemi sína eftir hálfan mánuð og séu í dag í hangandi lofti varðandi hvernig það starf mun fara fram. Eins íþróttastarf og menningarstarf.

„En ráðherra ætlar að halda fund eftir nokkrar vikur til að setjast niður og ræða hvernig á að undirbúa áframhaldandi viðbrögð.“

Dóttir Helgu Völu er við nám í Bandaríkjunum og segir Helga Vala mun betra upplýsingaflæði og skipulag þar á ferð, þvert á það sem hún hafði búist við.

„Það er búið að skipuleggja hvert smáatriði þegar kemur að sóttvörnum, skólastarfi og íþróttastarfi. Viðvera í tímum tvo daga í viku, nemendahópunum skipt upp svo allir fái einhverja staðkennslu og einhverja fjarkennslu. Spurningalistum skal svarað á hverjum morgni af íþróttafólkinu um það sem hefur átt sér stað sl. sólarhring, hitamyndavélar, sóttvarnargrímur og hólfun.“

Þykir Helgu Völu með ólíkindum að íþróttafólk og fjölskyldur skólabarna séu látin bíða og með ólíkindum að stjórnvöldum þyki ekki tilefni til að bregðast við fyrr en eftir hálfan mánuð.

„Fyrst stjórnvöld telja málið ekki brýnna en svo að hópur verði kallaður saman eftir hálfan mánuð er líklega best að íþrótta og skólafólk komi sér saman og smíði aðgerðir nú þegar. Það er ekki hægt að bíða fram eftir vetri með slíkt, heldur þarf að koma sér að verki.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt