Nú er hafinn í Safnahúsinu við Hverfisgötu kynningarfundur ríkisstjórnarinnar á öðrum aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar vegna þeirrar efnahagskreppu sem kórónuveirufaraldurinn veldur.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra kynna efnahagsaðgerðirnar og sitja fyrir svörum.
Í máli Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra kemur fram að fyrirtækjum sem gert verður að loka á næstunni verður bættur skaðinn að hluta. Tveir og hálfur milljaður verður settur í lokunarstyrki, að sögn Bjarna.
Fyrir smærri fyrirtæki verður boðið upp á einfaldara lánaúrræði með 100% ríkisábyrgð. Verður umsóknarferlið einfaldara en fyrir brúarlán sem áður hafði verið kynnt. Hámarkslán er 6 milljónir króna en fjölmörg fyrirtæki munu uppfylla skilyrði um að geta fengið svona lán, þúsundir að því er talið, segir Bjarni.
Í þriðja lagi kynnir Bjarni frestun á skattgreiðslum fyrirtækja vegna ársins 2019 sem hefðu átt að koma til greiðslu á þessu ári.
Sigurður Ingi Jóhannsson segir stjórnvöld ætla að stórauka heilsugæsluna og auka stuðning við geðrækt. Auknum krafti á að veita í fjarheilbrigðisþjónustu. Einnig á að auka vöktun og fræðslu.
Sigurður kynnir ennfremur verkefnið „Verndun viðkvæmra hópa.“ Fara meðal annars 100 milljónir í aðgerðir vegna heimilisofbeldis og um 200 milljómnir í stuðning við fjölskyldur langveikra barna.
Í máli Sigurðar kemur jafnframt fram að 350 milljónum verður veitt til einkarekinna fjölmiðla til að bregðast við þeirri stöðu sem uppi er en auglýsingatekjur eru að dragast mjög saman á sama tíma og eftirspurn almennings eftir þjónustu fjölmiðla eykst. Stuðningur við minni fjölmiðla á að verða hlutfallslega mestur. Menntamálaráðherra mun útfæra þetta úrræði nánar í reglugerð.
Sigurður greinir enn fremur frá sérstökum álagsgreiðslum til handa heilbrigðisstarfsfólki en um einn milljarður króna verður settur í það verkefni.
Í máli Katrínar kemur fram að 250 milljónir verði settar í listamannalaun til viðbótar við þau framlög sem þar eru fyrir. Listamenn hafa orðið fyrir gífurlegum búsifjum í samkomubanni enda allar skemmtanir, tónleikar og sýningar lagst af.
Hún segir einnig frá sérstökum úrræðum fyrir námsmenn en stefnt er að því að skapa allt að 3.500 sumarstörf fyrir námsmenn í ár. Þá verður aukinn kraftur settur í nýsköpun, meðal annars með auknum fjárframlögum í Nýsköpunarsjóð námsmanna.
Katrín sagði í viðtali við RÚV strax eftir fundinn að heildarumfang aðgerðanna gæti numið um 60 milljörðum króna
Katrín sagði jafnframt að allir muni finna fyrir þessum aðgerðum.
Bjarni Benediktsson sagði í viðtali við RÚV að fyrirtæki hafi verið beðin um að loka starfsemi sinni í sóttvarnaskyni og því sé eðlilegt að veita lokunarstyrki. Um er að ræða um 800 þúsund fyrir hvern starfsmann en þó að hámarki 2,4 milljónir.
Sex milljóna króna lán á afar lágum vöxtum eru ætluð litlum fyrirtækjum með fáa starfsmenn, segir Bjarni í viðtali við RÚV.
Bjarni segir mikilvægast að koma innlendri eftirspurn aftur í gang eftir að slakað verður á samkomubanni. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar muni auka getu margra til að standa í skilum og borga laun starfsfólks.
Í viðtali við Vísir.is sagðist Katrín eiga von á að næsti aðgerðapakki líti dagsins ljós mánaðamótin maí/júní.
Á vef Stjórnarráðs eru nánari upplýsingar um aðgerðirnar, settar fram í nokkrum greinum.