Fyrirtæki sem gert var að loka vegna ákvörðunar sóttvarnalæknis fá svokallaða lokunarstyrki frá ríkinu samkvæmt nýjum aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar. Ekki liggur fyrir hve háar fjárhæðir hvert fyrirtæki fær en tveir og hálfur milljarður verða settir í þetta verkefni. Meðal fyrirtækja sem fá lokunarstyrki eru hárgreiðslustofur, snyrtistofur, nuddstofur og líkamsræktarstöðvar.
Þetta kom fram í viðtali Kastljóss við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í kvöld.
Katrín benti á að þessi pakki beindist að smáfyrirtækjum á meðan brúarlánin í pakka 1 hafi verið sniðin að stórfyrirtækum.
Stuðningslán verða veitt til smærri fyrirtækja upp að hámarki 6 milljónum króna.
Katrín var spurð út í gagnrýni ASÍ á pakkann, þess efnis að hann beindist of lítið að heimilum. Katrín benti á að pakkinn beindist að atvinnu fólks sem væri grundvallaratriði í afkomu heimila. „Þetta er hágreiðslukonan sem búin er að loka í nokkrar vikur,“ nefndi Katrín sem dæmi.
Hún taldi einnig til að settir verða tveir milljarðar í sumarstörf fyrir námsmenn.
Katrín sagði að eitt af því sem einkenndi aðgerðir ríkisstjórnarinnar væri að tekið væri fyrr á vandanum núna en í síðustu niðursveiflu.