„Í morgun var tilkynnt um að bygging útsýnispalls á Bolafjalli hefði fengið 160 milljóna króna styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Það verður því byggður geggjaður útsýnispallur á Bolafjalli í sumar!“
segir Baldur Smári Einarsson, forseti bæjarstjórnar Bolungarvíkurkaupstaðar sigri hrósandi í færslu á Facebook í dag, þegar tilkynnt var um styrkhafa úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða fyrir árið 2020.
Alls var 501.5 milljón í pottinum, en Bolungarvíkurkaupstaður fékk hæsta styrkinn, eða 160 milljónir alls.
Sjá nánar: Útdeila um 1.5 milljarði í innviðauppbyggingu – Þessir fengu styrk
Vonir standa til að fá fleiri ferðamenn til Vestfjarða á næstu árum, en verklok pallsins er 15.október á næsta ári. Þá er einnig fyrirhugað að fá skemmtiferðaskip til Bolungarvíkur næsta sumar, sem er nýbreytni, en mikill fjöldi þeirra kemur til Ísafjarðar yfir sumartímann.
Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri Bolungarvíkurkaupstaðar, segir pallinn aðeins byrjunina á mun stærra verkefni. Fyrirhugað sé að um 150 þúsund ferðamenn komi til norðanverðra vestfjarða næsta sumar, langflestir með skemmtiferðaskipum. Stefnan sé að fá þá flesta upp á Bolafjall:
„Pallurinn er bara byrjunin og í þessu verkefni er lögð áhersla á að hanna heildarmyndina. Á næstu árum og áratugum mun pallurinn skapa aðstæður til að byggja upp heildstæðan áfangastað á Bolafjalli með margvíslega þjónustu,“
segir Jón Páll.
„Reynslan að uppbyggingu hliðstæðs áfangastað í Noregi segir okkur að með því að þróa áfangastaðinn í upphafi sem heildstæðan áfangastað þá munu komur ferðamanna aukast mikið í kjölfarið. Þjónustuhús. Matsala, afþreying og jafnvel gisting eru dæmi um verkefni sem við munum hafa í huga við framtíðarskipulag svæðisins,“
segir Jón, en nyrst í Noregi er útsýnispallurinn Nordkapp sem laðar til sín yfir 200 þúsund manns á ári.
Útsýnispallurinn verður settur upp á Bolafjalli en hann er hannaður af teymi Landmótunar sf., Sei ehf. og Argos ehf. en verkfræðiráðgjöf veitti S Saga ehf.
Líkt og sjá má á myndunum af hönnun hans, er hann tæplega fyrir lofthrædda…