Einkennisklæðnaður karlkyns Alþingismanna í gegnum tíðina eru jakkaföt, þó svo á því séu einhverjar undantekningar.
Til dæmis hefur Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, verið þekktur fyrir þverröndótta boli sína og peysur, ásamt vel prjónuðum treflum og þá hafa Píratar þótt heldur frjálslegir til fara, að mati sumra íhaldssamari þingmanna.
Samkvæmt vestrænum tískugildum sem birtist almenningi gjarnan í bíómyndum og sjónvarpi, þá er fátt eins neyðarlegt og þegar tvær konur mæta í eins fatnaði á sama viðburð. Þá eru fjölmiðlar gjarnan fljótir til og spyrja: „Who wore it better?“ eða hverjum fór flíkin betur ?
Eyjan hyggst þó ekki hætta sér á þær slóðir, en óneitanlega kemur sú spurning upp í hugann þegar rýnt er í myndina af Steingrími J. Sigfússyni, forseta Alþingis og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins.
Hana tók Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar og skrifaði:
„Stundum kemur sér vel þegar það er 2 fyrir 1 tilboð í Dressmann.“
Miðað við andrúmsloftið á Alþingi er varðar málþóf Miðflokksins gegn þriðja orkupakkanum, má nokkuð ljóst vera að kumpánarnir Steingrímur og Sigmundur versli sér líklega ekki föt saman, þó þeir deili sama smekk.