Lögreglan fékk í sumar nýja sérsmíðaða bíla frá Svíþjóð. Eru bílarnir með öðruvísi merkingum en Íslendingar eiga að venjast, en þeir svipa til lögreglubíla í Evrópu. Stundin greinir frá því að merkingarnar á nýju bílunum gangi gegn reglugerð um einkenni og merki lögreglunar.
Á nýju bílunum er hin þekkta gula stjarna með áletruninni „Með lögum skal land byggja“ hvergi sjáanleg. Þess í stað er annarskonar stjarna á bláum bakgrunni, með engri áletrun.
Í reglugerð er tekið fram að áletrunin skuli vera umhverfis skjöldinn og að ef stjarnan sé prentuð í lit, skuli hún vera svört á gulum grunni.
Stundin segist hafa heimildir fyrir því að ekki séu allir lögreglumenn sáttir við breytingarnar.
Í tilkynningu frá lögreglunni um hið nýja útlit segir að breytingarnar auki sýnileika og læsi og þar með öryggi lögreglumanna og almennings. Þá séu þær hagkvæmari:
„Í byrjun árs 2018 tók ríkislögreglustjóri upp nýjar merkingar fyrir ökutæki sín en eldri merkingar voru teknar í notkun árið 2002.
Hönnun merkinganna tekur mið af því sem tíðkast víða í Evrópu en sérstök áhersla var lögð á aukinn læsi- og sýnileika og hagræðingu. Öryggi lögreglumanna og almennings er lykilatriði og með breytingunum eykst sýnileiki tækjanna til muna.
Hönnun á útliti ökutækja lögreglunnar var gerð af Atla Þór Árnasyni og Herði Lárussyni hjá Kolofon hönnunarstofu.
Við hönnun á nýjum merkingum var leitast til þess að gera tækin eins sýnileg og mögulegt er, án þess að þau yrðu of „áberandi“ í umferðinni og hreinlega stælu athygli ökumanna frá akstrinum. Grafíkin er hönnuð með það í huga að brjóta upp formið á ökutækjunum með áberandi skálínum. Þetta er ein leiðin sem við notum til að gera þau meira áberandi, án þess að þurfa að setja of mikið af filmum og litum á hvert tæki.
Nýjar merkingar eru einfaldari, sýnilegri og er framleiðsla þeirra mun hagkvæmari.“