fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Eyjan

„Matsalurinn á Alþingi minnti mjög á menntó“

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 1. september 2018 12:00

Ljósmynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árið 2007 markaði hin bandaríska Andie Fontaine tímamót þegar hán var fyrsti innflytjandinn til að taka sæti á Alþingi. Hán fæddist sem Paul Fontaine en tók upp nafnið Nikolov þegar hán gifti sig. Í sumar braut Andie annan múr þegar hán tilkynnti að að kynleiðréttingarferli væri að hefjast. DV ræddi við Andie um uppvöxtinn í Baltimore, innflytjendamál, veruna á Alþingi og leiðréttinguna.

Þetta er brot úr stóru viðtali í helgarblaði DV.

Vildi ekki heiðra Bobby Fischer

Andie tók þriðja sætið á framboðslista Vinstri grænna í Reykjavíkurkjördæmi norður fyrir alþingiskosningarnar árið 2007 og varð varaþingmaður. Í nóvember það ár kom hán inn á þing og markaði það tímamót því aldrei áður hafði innflytjandi setið á Alþingi Íslendinga.

Hvernig var þér tekið á Alþingi?

„Það var mjög sérstakt að koma þarna inn,“ segir Andie og glottir. „Ég hafði séð marga af þessum þingmönnum tala af heiftúð um málefni innflytjenda. En tónn margra breyttist eftir að einn slíkur var kominn inn í þingsalinn og þeir fóru að velja orð sín betur. Ég man sérstaklega eftir einu tilviki þar sem Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var að ræða áhrif innflytjenda á skattkerfið okkar. Hann var að tala við alla í herberginu en horfði í sífellu á mig og var að athuga hvernig ég myndi bregðast við.“

Lentir þú einhvern tímann í illdeilum?

„Já, mestu deilurnar spruttu upp vegna máls sem kom upp undir lok þingsins árið 2008. Verið var að samþykkja frumvörp í hrönnum fram á kvöld til þess að ljúka málum fyrir sumarfrí og þá sá ég að Guðni Ágústsson, þingmaður Framsóknarflokksins, hafði lagt fram tillögu um að koma á fót skáksetri í minningu Bobbys Fischer. Allir kusu með þessu nema ég og fólk varð forviða. Ég þurfti því að stíga í pontu og segja mína meiningu, það er að Bobby Fischer hefði verið mikill gyðingahatari. Andstyggilegur maður sem fagnaði hryðjuverkaárásunum þann 11. september árið 2001. Ég gat ekki samþykkt að þessi maður yrði heiðraður og stakk upp á að því að setrið yrði nefnt eftir stórmeistaranum Friðriki Ólafssyni. Sjálfstæðismaðurinn Sigurður Kári Kristjánsson steig þá í pontu og svaraði mér með mikilli hrútskýringu, að málið snerist ekki um pólitík, þetta snerist um skák,“ segir Andie og hlær. „Ég ákvað eftir þetta að sitja hjá í staðinn fyrir að kjósa á móti en margir voru samt illir út í mig.“

Á þessum tíma var Frjálslyndi flokkurinn á þingi og þeirra fulltrúar höfðu reynt að marka sér sérstöðu með að tala með mjög ákveðnum hætti gegn innflytjendum. Andie segist ekki hafa haft geð í sér til að ræða við eða vera nærri Jóni Magnússyni, Grétari Mar Jónssyni eða öðrum fulltrúum þess flokks, hvorki í starfi né utan starfs.

„Matsalurinn á Alþingi minnti mjög á menntó, eins og klipptur út úr unglingakvikmyndinni Mean Girls. Samflokksmenn sátu saman við borð og ef maður fór yfir á borð annars flokks þá fékk maður ískalt augnaráð. Sumir sátu reyndar alltaf einir, til dæmis Björn Bjarnason, þáverandi dómsmálaráðherra, sem sat alltaf einn við borð í enda salarins og sneri baki í alla.“

Andie segist ekki alltaf hafa verið sammála sínum eigin flokksmönnum í málum sem komu upp. Heilbrigðisráðherrann Guðlaugur Þór Þórðarson bar fram frumvarp sem meðal annars fól í sér leyfi almennra verslana til að selja nikótíntyggjó og Andie fannst það góð hugmynd að auka aðgengi að því, í ljósi þess að sígarettur og annað tóbak væri selt í verslunum. En flestir samflokksmenn háns lögðust gegn þessu, annaðhvort vegna þess að tillagan kom frá Sjálfstæðismönnum eða vegna lýðheilsusjónarmiða. Að fólk ætti ekki að skipta um fíkn heldur hætta alfarið að neyta nikótíns.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Allir mættu nema Mbappe
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Mogginn og Sjálfstæðisflokkurinn engjast

Orðið á götunni: Mogginn og Sjálfstæðisflokkurinn engjast