Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur í samráði við Bændasamtök Íslands ákveðið að flýta viðræðum um endurskoðun samnings um starfsskilyrði sauðfjárræktar og verða skipaðar samninganefndir á vegum ríkisins og bænda á næstu dögum. Viðræður aðila munu fara fram á grunni tillagna sem samráðshópur um endurskoðun búvörusamninga hefur skilað en ráðherra beindi þeim tilmælum til hópsins í mars 2018 að setja í forgang tillögur til að bregðast við erfiðleikum í sauðfjárrækt. Tillögur samráðshópsins má sjá hér að neðan auk yfirlýsingar frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Bændasamtökum Íslands:
Yfirlýsing frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Bændasamtökum Íslands
Samkvæmt samningi um almenn starfsskilyrði landbúnaðar skal endurskoðun búvörusamninga fara fram tvisvar á samningstímanum, annars vegar árið 2019 og hins vegar árið 2023. Í ákvæði til bráðabirgða í búvörulögum nr. 99/1993 kemur fram að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skuli skipa samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga þar sem tryggð er aðkoma afurðastöðva, atvinnulífs, bænda, launþega og neytenda.
Í samræmi við framangreint skipaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í febrúar sl. samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga. Beindi ráðherra því til samráðshópsins að setja í forgang tillögur til að bregðast við erfiðleikum í sauðfjárrækt. Samráðshópurinn skilaði tillögum og framvinduskýrslu til ráðherra 3. júlí sl. Samráðshópurinn leggur fram í tillögum sínum ákveðnar hugmyndir til að bregðast við erfiðleikum sauðfjárbænda, bæði bráðaaðgerðir og aðgerðir sem stuðla að hagræðingu og stöðugleika í sauðfjárrækt.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur í samráði við Bændasamtök Íslands ákveðið að flýta viðræðum um endurskoðun samnings um starfsskilyrði sauðfjárræktar og verða skipaðar samninganefndir á vegum ríkisins og bænda á næstu dögum. Í kjölfarið hefjast viðræður um endurskoðun samningsins í stað þess að fara fram árið 2019 líkt og áður var ráðgert. Viðræður aðila munu fara fram á grunni þeirra tillagna sem samráðshópurinn hefur skilað til ráðherra. Þá munu Bændasamtök Íslands í komandi viðræðum leggja áherslu á ályktanir Búnaðarþings og tillögur aðalfundar Landssamtaka sauðfjárbænda. Að sama skapi munu stjórnvöld m.a. leggja áherslu á þær aðgerðir sem kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Stefnt er að því að ljúka heildarendurskoðun samningsins síðar á þessu ári.