Alls 1.200 starfsmenn Festi geta nú verið fullvissir um að sömu laun séu greidd fyrir jafn verðmæt störf hjá fyrirtækjum félagsins, en fyrirtækið hefur fengið jafnlaunavottun. Þar með verða Krónan og Nóatún fyrstu dagvöruverslanirnar hér á landi þar sem jafnrétti í launum er vottað. Auk þess rekur Festi ELKO og BAKKANN vöruhús.
Jón Björnsson, forstjóri Festi, segir að Festi hefði alltaf ráðist í þessa vinnu óháð lögum um jafnlaunavottun:
„Vottunin hjálpar fyrirtækjum að hafa yfirsýn yfir verðmæti starfa. Þá veitir hún ákveðið gegnsæi og sýnir fólki hvað er í vændum þiggi það störf hjá félaginu,“
segir Jón en fjögur ár eru frá því að Festi hóf undirbúning sinn.
Guðríður Hjördís Baldursdóttir, mannauðsstjóri Festi, segir að strax í upphafi undirbúnings vottunarinnar hafi línan verið lögð.
„Við hugsuðum ekki aðeins um launajafnrétti kynja heldur einnig að fólki sé á engan hátt mismunað. Ekki eftir kyni, aldri eða bakgrunni. Við skoðuðum sérstaklega hvort við mismunuðum milli þjóðerna og svo er ekki,“
segir hún. Guðríður hefur ásamt Sveinborgu Hafliðadóttur, mannauðsstjóra ELKO, leitt viðamikla vinnu samstæðunnar að vottuninni. Greina þurfti laun og störf allra félaganna fimm innan samstæðunnar.
Emil B. Karlsson, úttektarmaður hjá vottunarfyrirtækinu Vottun hf., segir að Festi hafi lagt mikinn metnað í að gera launakerfið gagnsætt og greina hugsanlegan launamun kynjanna.
„Festi er með þeim fyrstu sem hófu að vinna í sínum málum hvað þetta snertir og gerðu það áður en lögin um jafnlaunavottun voru sett. Jafnlaunakerfi samkvæmt staðlinum felur í sér nýtt stjórnkerfi sem fyrirtæki þurfa að innleiða. Inntak hvers starfs í fyrirtækinu er metið og engar tilviljanakenndar ákvarðanir teknar í launum starfsmanna. Leitast er við að greiða sömu laun til karla og kvenna fyrir sömu eða jafn verðmæt störf,“
segir Emil, en öll fyrirtæki með 250 starfsmenn eða fleiri eiga að vera tilbúin með jafnlaunavottun í lok árs og er Festi meðal fárra sem hafa lokið ferlinu.
„Mörg stærstu fyrirtæki landsins vinna að þessu marki. Við sjáum að fyrirtækin læra hratt af hvert öðru og ég tel að það væri gott að taka vinnubrögð Festi til fyrirmyndar,“
bætir Emil við og bendir á að öll fyrirtæki landsins með 25 starfsmenn eða fleiri eigi að votta jöfn laun kynja frá árinu 2021.
Jón Björnsson segirFesti hafa búið að því við undirbúninginn hvað félagið sé stórt.
„Ég tel að það hefði verið erfiðara að hvert fyrirtæki innan þess hefði ráðist í verkið. Vinnan við innleiðinguna er einfaldlega það viðamikil og því erfitt fyrir lítil fyrirtæki að halda einbeitingunni á rekstrinum meðan á henni stendur.“