Samkvæmt könnun MMR er stuðningsfólk Pírata líklegast til að vera neikvætt gagnvart erlendum ferðamönnum hér á landi, eða 13 prósent. Stuðningsfólk Viðreisnar (88%) og Samfylkingar (88%) var hvað líklegast til að vera jákvætt í garð erlendra ferðamanna, samanborið við 51% stuðningsfólks Miðflokksins og 55% stuðningsfólks Flokks fólksins.
Af stuðningsfólki Pírata kváðust 13% vera neikvæð gagnvart erlendum ferðamönnum, 12% stuðningsfólks Vinstri grænna og 10% stuðningsfólks Miðflokksins. Aðeins 2% stuðningsfólks Samfylkingarinnar kváðust neikvæð gagnvart ferðamönnum og 4% stuðningsfólks Viðreisnar.
Samhliða fjölgun erlendra ferðamanna á Íslandi hefur MMR á undanförnum árum mælt viðhorf Íslendinga til þeirra gesta sem hingað sækja. Frá árinu 2015 til ársins 2017 hafði jákvæðni í garð erlendra ferðamanna farið minnkandi ár frá ári. Í ár virðist breyting á en samkvæmt könnun MMR sem lauk 1. ágúst síðastliðinn voru 68% landsmanna jákvæð gagnvart erlendum ferðamönnum, samanborið við 64% í fyrra. Þeir sem kváðust neikvæðir í garð erlendra ferðamanna mældust nú 9%, samanborið við 10% í fyrra og 12% árið þar á undan.
Munur á viðhorfi eftir hópum
Stór meirihluti Íslendinga sagðist jákvæður gagnvart erlendum ferðamönnum á Íslandi en þó var nokkur munur eftir lýðfræðihópum. Karlar (11%) voru til að mynda líklegri en konur (7%) til að vera neikvæðir gagnvart erlendum ferðamönnum en hlutfall karla og kvenna sem sögðust jákvæð í garð ferðamanna var nokkuð jafnt, 69% karla og 68% kvenna. Íbúar á höfuðborgarsvæðinu (71%) reyndust jákvæðari í garð ferðamanna heldur en íbúar landsbyggðarinnar (63%), sem jafnframt voru neikvæðari í garð ferðamanna en íbúar höfuðborgarsvæðisins. Af þeim sem búsett voru á landsbyggðinni kváðust 11% neikvæð í garð ferðamanna, samanborið við 8% þeirrra búsett á höfuðborgarsvæðinu.
Þegar litið var til aldurs mátti sjá að yngsti aldurshópurinn var hvað jákvæðastur gagnvart erlendum ferðamönnum en 70% þeirra kváðust jákvæð gagnvart ferðamönnum, samanborið við 65% þeirra 68 ára og eldri. Af svarendum á aldrinum 30-49 ára reyndust 12% vera neikvæð gagnvart erlendum ferðamönnum en einungis 5% þeirra 68 ára og eldri kváðust neikvæð.
Þau tekjuhæstu (76%) voru töluvert jákvæðari gagnvart ferðamönnum heldur en þau tekjulægstu (56%). Þá reyndust svarendur í tekjulægsta hópnum, með heimilistekjur undir 400 þúsund krónum, jafnframt líklegust til að vera neikvæð í garð ferðamanna eða 12%.
Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri, valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 911 einstaklingar, 18 ára og eldri
Dagsetning framkvæmdar: 25. júlí til 1. ágúst 2018