Endurgreiðslur vegna aksturs þingmanna á eigin bílum hafa dregist verulega saman síðan forseti Alþingis svaraði fyrirspurn Björns Leví Gunnarssonar, þingmanns Pírata, um málið í byrjun árs, líkt og Kjarninn greinir frá í dag.
Björn Leví segist í dag ekki hafa áhyggjur af ásökunum að fyrirspurnir hans kosti samfélagið háar upphæðir, þar sem töluverður sparnaður hafi hlotist af þessari fyrirspurn hans um endurgreiðslurnar, eða um 10 milljónir króna á ári:
„10 milljón króna sparnaður á ári. Það slagar vel í launin mín. Þessi sparnaður mun líklega endast mun lengur en ég verð á þingi þannig að ég hef litlar áhyggjur af þeim ásökunum um að ég sé að kosta svo mikið út af fyrirspurnunum mínum … enda er markmið margra þeirra að upplýsa um svona eyðslu. Til að mynda þá væri áhugavert að fá meiri athygli á dagpeninga og bílakostnað ráðherra. Það hefur komið skýrt fram í þeim svörum að ráðherra endurgreiðir ekki þann hluta dagpeninga sem hann fær greidda og sem hlunnindi í gegnum ráðherrabifreið.“
Endurgreiðslur Alþingis vegna aksturs eigin bifreiða þingmanna nema 4,9 milljónum fyrstu sjö mánuði ársins. Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fékk í 4,6 milljónir í endurgreiðslur í fyrra. Verði endurgreiðslur með sama hætti út árið, má áætla að heildarkostnaður verði um 8,4 milljónir.
Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur hlotið hæstu endurgreiðslurnar fyrir afnot af eigin bíl á fyrstu sjö mánuðum ársins, eða sem nemur 869 þúsund krónum.
Sá sem er hinsvegar með hæsta ferðakostnaðinn innanlands er Þórunn Egilsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins úr Norðausturkjördæmi, með samtals 2,3 milljónir, þegar talinn er leiga á bílaleigubílum, flugferðum, gisti- og fæðiskostnaður ásamt eldsneytiskaupum.
Ásmundur Friðriksson hefur það sem af er ári fengið 694 þúsund krónur endurgreiddar frá Alþingi vegna notkunar á eigin bifreið. Upphæðin hækkar í 1,2 milljónir þegar bætt er við kostnaði hans við leigu á bílaleigubíl.